07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get ekki horfið frá því, að hjer sje um ósamræmi að ræða frá stefnu þingsins 1919 í þessu máli. Er það líka öllum auðsætt, að það hlýtur að vera ósamkvæmni, að taka eina stjett út úr og hækka eftirlaun við hana, einmitt þegar búið er að afnema þau.

Um þá ástæðu hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að prestar komist síður á eftir laun nú, vegna bættra launakjara, er það að segja, að hún styður einmitt mitt mál, að ekki sje þörf á því, að auka við eftirlaunin. Annars hefir það sýnt sig, að þessi hv. þm. (M. J.) vill reyna á alla lund að auka gjöldin, en draga úr tekjunum. Er skamt á að minnast, máli mínu til sönnunar, að fyrir 5 mínútum síðan, eða svo, greiddi hann atkv. móti útflutningsgjaldsfrv.

Það er enn fremur villandi hjá þessum hv. þm. (M. J.), að kostnaðurinn við þetta frv. hans fari fljótt minkandi. Eru til þess engar líkur, miklu fremur hið gagnstæða.