21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3125)

98. mál, vegir

Eiríkur Einarsson:

Jeg stóð ekki upp til þess að mótmæla ástæðum hv. flm. fyrir nauðsyn á breytingum á vegalögunum, sem farið er fram á í frv. Jeg vil aðeins taka það fram, að svo framarlega, sem farið verður að hrófla við núverandi skipulagi á vegamálunum, þá hljótum við fulltrúar sýslnanna austanfjalls að sigla þar í kjölfarið, og leita einnig nauðsynlegra endurbóta á vegamálafyrirkomulaginu þar, sem er alveg óviðunandi og ókljúfandi fyrir sýslufjelögin eins og nú er komið. En hins vegar vildi jeg ekki vera fyrstur til, eða sá mjer ekki fært að vera fyrstur til, að bera fram brtt. á vegalögunum, sem hefði þó ekki verið óeðlilegt. Hafði jeg fremur hugsað mjer að ýta sem best undir, að vegamálakerfið væri sem bráðlegast tekið til gagngerðrar endurskoðunar, útvegaðir nauðsynlegir gjaldstofnar handa sýslufjelögum til að kljúfa kostnaðinn o. s. frv., og kæmi þá auðvitað fram til leiðrjettingar sú ósanngirni og það ósamræmi, sem á sjer stað í vegamálum margra hjeraða. — Jeg skal því að þessu sinni leiða hjá mjer að geta um vandkvæði hlutaðeigandi sýslna austanfjalls til viðhalds flutningabrauta með tilliti til bifreiðaferða o. s. frv., en vil sjá hvað setur um framkomna brtt., og tel sjálfsagt, að frv. verði vísað til samgmn., en ekki fjvn.