08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (3187)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi litlu að svara, því það var aðeins háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), sem andmælti mjer. En þó jeg hafi aldrei haft beinlínis tröllatrú á þeim hv. þm. (Jak. M.), hvorki í einu nje neinu, hjelt jeg tæpast, að hann væri svo andlega volaður að geta ekki fundið upp neitt annað en gamla fyndni um aðra, eftir sjálfan mig. Jeg get því mint hann á önnur orð sem jeg hefi áður haft um hann og hann er enn að sanna með framkomu sinni, þau sem sje, að hann haldi áfram að berja höfðinu við steininn, þangað til það brotni. Hitt er náttúrlega annað mál, hve mikill skaði yrði að því.

Annars finst mjer ástandið nú ekki vera þannig, að það megi við, mjer liggur við að segja, slíkum glannaskap, sem þetta frv. lýsir, síst frá þm. eins og hv. flm. (Jak. M.), sem altaf er að núa öðrum mönnum ráðleysinu um nasir, en hefir þó, sem meðlimur peningamálanefndarinnar t. d., ekkert ráð getað fundið sjálfur til þess að bæta úr fjárhagserfiðleikunum.

Á sínum tíma gefst þó sennilega tækifæri til þess að ræða það mál betur, og get jeg hlíft hv. þm. þangað til. En um afdrif þessa máls þykist jeg vera viss, því fullyrða má, að það nær ekki fram að ganga.