15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (3200)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki getað verið viðstaddur umr. um þetta mál. Varla hefir það þó verið til skaða, því málið er afareinfalt og lítið hægt að upplýsa það fram yfir það, sem gert var, þegar viðskiftahöftin voru til umr. hjer í deildinni. Jeg skildi nú nál. svo, að samkomulag hefði orðið í nefndinni og við stjórnina um að afnema ekki þessa heimild, en hinu lýsti hv. frsm. yfir, að stjórnin notaði hana á eigin ábyrgð. Jeg vissi vel, að sumir, sem höfðu tekið þátt í þessu, sem jeg nefndi samkomulag, voru mótfallnir því, að stjórnin notaði heimildina. Hins vegar máttu þeir vita það, að þar sem stjórnin lagði svo ríka áherslu á það, að hún hjeldi heimildinni áfram, þá mundi hún nota hana, og þeim hlaut þá um leið að vera það ljóst, að ef heimildin yrði tekin af henni, þá gæti hún alls ekki unað því. Það væri óheppilegt, ekki einungis fyrir ráðuneytið heldur og þingið, þegar nýbúið er að auglýsa bann á aðflutningi ákveðinna vörutegunda, og það er orðið kunnugt í öllum vorum viðskiftalöndum, ef alt væri jafnskjótt tekið aftur.

Jeg skal svo ekki tefja umr. með því að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu, og skal þó ekki á móti því mæla, að það verði athugað í nefnd.