27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (3269)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Þorsteinn Jónsson:

Jeg gat ekki orðið flm. ásamt háttv. samnefndarmönnum mínum, er flutt hafa þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg var þeim að vísu sammála um flest aðalatriði þess, en vildi gera við það brtt., sem þeir gátu ekki gengið að. Við hv. 1. þm. Árn. (E. E.) höfum ætlað okkur að koma fram með brtt. við frv.

Nefndin hefir verið ásökuð fyrir það, hversu lengi hefir dregist hjá henni að koma fram með nefndarálit. Þeir nefndarmenn, sem talað hafa, hafa nú borið hendur fyrir höfuð nefndarinnar að því er þetta snertir. En þó finst mjer, að þeir hafi enn ekki tekið nógu skýrt fram, hver sje höfuðorsök til dráttar á útkomu nál. En hún er nú sú, að nefndin hjelt að hún gæti bygt tillögur sínar og nál. á frv. stjórnarinnar. Störf nefndarinnar gengu því í fyrstu lengi í þá átt að rannsaka, að hve miklu leyti hún gæti hallast að frv. stjórnarinnar. En það kom að lokum ljóst fram, að frv. stjórnarinnar var þannig úr garði gert, að nefndin gat með engu móti mælt með því. Þetta varð til þess, að dráttur varð á því, að nefndin gæti lokið störfum. Það er nú miklum og mörgum erfiðleikum bundið að koma fram með nýtt frv. um þessi efni, og hæpið að þingnefnd geti gert fullnaðarákvarðanir um slíkt vandamál. Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi bætt úr vandkvæðum Íslandsbanka með lausn seðlaútgáfurjettarins. Þetta er ekki álit nefndarinnar. Og við hv. 1. þm. Árn. (E. E.) lítum svo á, að framlengja eigi lögin um eitt ár, sem í dag voru framlengd um 1 mánuð. Við byggjum þessa skoðun okkar á því, að á þessu ári megi komast að samningi við Íslandsbanka um framtíðarafstöðu hans, og því sje ekki vert að slaka á kvöðum þeim, er á honum hvíla, áður en búið er að semja við hann.

Þá voru það nokkur orð í ræðu hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem mjer fundust æði athugaverð. Hann sagði að Íslandsbanki væri útibú frá Privatbanken í Kaupmannahöfn. Jeg fæ alls ekki sjeð að þetta sje rjett, enda þótt Íslandsbanki sje allmikið háður þeim banka sökum skulda. En vegna skulda er hann ekki fremur útibú frá Privatbanken en eignir manns, sem skuldar Íslandsbanka, er útibú frá honum. Jeg býst varla við því að hv. þm. (Gunn. S.) kæri sig um, að slík kenning um útibú nái almennri viðurkenningu.

Sami háttv. þm. sagði, að Landsbankann mætti einnig telja útibú frá „Landmandsbanken“. Þetta er vitanlega enn þá meiri fjarstæða, enda þótt Landsbankinn hafi haft aðalviðskifti sin við „Landmandsbanken“. Mjer er um það kunnugt, að þessir tveir bankar hafa gert með sjer árlega samninga, en oftast hefir svo reynst við hver áramót, að Landsbankinn hefir átt inni hjá „Landmandsbanken“.

Það er heldur ekki rjett, að Landsbankinn hafi ekki viðskifti við aðra banka, og það í allstórum stíl. Landsbankinn hefir einnig gert viðskiftasamninga við aðra banka, t. d. við einn enskan banka. Og mjer þykir það nokkuð hart, ef íslenskur banki má ekki gera samning við erlendan banka, án þess að verða þess vegna kallaður útibú frá honum. (Gunn. S.: þetta er eintómur misskilningur). Sá misskilningur er þá hjá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.).