29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (3279)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Flm. (Jakob Möller):

Jeg vona, að hæstv. forseti leyfi mjer stutta athugasemd, ef jeg þarf á að halda síðar, þó að jeg raunar ætli eigi að gera svo fyrir mjer nú, að jeg ætlist til, að jeg muni þurfa þess.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) drap á hættuna, sem fylgdi því, að leggja fje inn í bankann að órannsökuðu máli um hag hans. Er það rjett, að þetta er þess vert, að vel sje athugað. En ef bankinn væri eins illa staddur eins og hv. þm. (E. E.) sýndist vera hræddur um, þá er óhjákvæmil. að ríkið tapi á bankanum, hvort sem það leggur fje í hann eða ekki.

Þá vildi jeg gera grein fyrir því, hvernig meiri hl. peningamálanefndar hefir hugsað sjer, að þátttöku ríkisins í Íslandsbanka skyldi varið. Er það á þá leið, að ríkið leggi til hlutafje, en verð hlutanna sje ekki ákveðið fyr en reynsla sje fengin fyrir því, hvað bankinn kann að tapa, vegna þeirra skuldbindinga og skulda, sem hann hefir með höndum. Ef þetta er gert, yrði hagur ríkisins eins vel trygður og best mætti verða. Hitt tel jeg handahóf, að ákveða verð hlutanna, eins og ráðgert er í Ed.frv. En eftir okkar hugmynd er girt fyrir það, að tapið lendi á ríkissjóði fyr en gömlu hlutirnir eða hluthafarnir hafa borið það tap, sem á þeim á að lenda. En ef svo skyldi fara, að þrátt fyrir þetta yrði ríkissjóður fyrir tapi, þá er enn auðsýnna, hvílíkt feiknatap mundi skella á þjóðinni, ef ekki er hlaupið undir bagga með bankanum nú, og fæ jeg eigi sjeð, í hverju það væri betra, að þjóðin tapaði heldur en ríkissjóður. Annars hygg jeg það, að bankinn sje ekki illa staddur, og muni aldrei koma til að tapa miklu á skuldbindingum sínum.

Hæstv. forsrh. (J. M.) staðfesti í öllu verulegu það, sem jeg hafði sagt, og hefi jeg því í raun og veru fátt að athuga við ummæli hans. En þar sem hann gat um skeytið frá bankastjóra Clausen til Tofte bankastjóra, út af skjali því, sem jeg var að tala um, þá sýnist mjer, að sú fyrirspurn hafi ekki verið um það, hvað í þessu skjali stóð. Vill svo vel til, að mjer er líka kunnugt um þetta skeyti, og var það þannig stílað, að það var fyrirspurn út af orðróm, „Rygtet fortæller“ o. s. frv. Er öllum auðsætt, að Clausen bankastjóri muni ekki hafa skilið þetta þannig, að spurt væri um, hvað hann hefði sjálfur skrifað eða meint í þessu umrædda skjali, eða m. ö. o., að orðið „Rygte“ væri viðhaft um það, sem hann sjálfur segir. En jeg þykist vita, að hæstv. forsrh. (J. M.) hafi nú sýnt hv. þm. þetta skjal, svo að þetta þarf eigi að verða deiluatriði.

Ummælum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) þarf jeg ekki mikið að svara. Sýndu þau það aðeins, sem áður var vitanlegt, að maður þessi er ágætur námsmaður og kunni utanbókar þulur um það, að endanlegt skipulag seðlaútgáfunnar „styrkti“ lánstraust bankans. Önnur voru ekki rökin, enda þótt hæstv. atvrh. (P. J.) yrði svo hrifinn af þeim sem raun varð á. Var hæstv. atvrh. (P. J.) ekki eins hrifinn af rökum hans í samvinnufjelagsmálinu, og verð jeg þó að segja, að þar var ólíku saman að jafna.

En það er nú orðið sameiginlegt álit nær allra, að til þess að lánstrausti bankans sje borgið, þurfi annaðhvort, að ríkið leggi fram tillag eða ábyrgist bankanum lán.

Sýnist fyrri leiðin heppilegust, því með því sýnir ríkið bankanum traust, jafnframt því, að það eykur starfsfje hans. Auk þess er enn sá kostur við leið þessa, að ríkið leggi bankanum hlutafje, að ríkið og bankinn eru þá orðin eitt og hið sama, og má þá auðvitað skipa seðlaútgáfunni eftir vild síðarmeir.

Þarf eigi heldur annars að vænta en ríkið fari vel með bankann, þegar það er orðið meðeigandi hans.

Ef tekið er nú hjer til samanburðar frv. Ed. með skýringu hæstv. fjrh. (M. G.), þá er lánstraust bankans miklu betur trygt eftir frv. okkar, því eftir Ed.frv. getur svo farið, að ákvæðið um seðlaútgáfuna gildi eigi nema til hálfs árs, en eftir okkar frv. gildir það þó eitt ár.

Annars er alt þetta hjal um að seðlaútgáfuna þurfi að tryggja endanlega, eintóm slagorð, og eru notuð af lánardrotnum Íslandsbanka, sem nokkurskonar skálkaskjól, þegar þeir þóttust vera búnir að lána honum of mikið, til þess að komast hjá því að leggja honum meira fje.

Þá sagði sami hv. þm. (J. Þ.), að löggjafarvaldið gæti svift bankann, hve nær sem væri, seðlaútgáfurjettinum.

En þetta er misskilningur. Bankinn hefir einkaleyfi til seðlaútgáfunnar, sem ekki er hægt að taka af honum, nema hann brjóti eitthvað af sjer, og þurfi landið meira af seðlum en 21/2 miljón, þá hefir bankinn einn rjett til að gefa þá út, og þó að ríkið geti að vísu lagt einhverjar kvaðir á þá seðlaútgáfu, þá er bankanum engan veginn nauðsyn að ganga að þeim skilyrðum, en getur neitað og þá er óvíst hvor aðilja, ríkið eða bankinn, yrði að láta undan.

Sami hv. þm. (J. Þ.) sagði einnig, að hann hefði ekki heyrt í öllum þessum ræðum okkar, hvað við ætti að taka. En hann hefir þá ekki sjeð heldur, því að hefði hann lesið nál. samvinnunefndar peningamálanna, þá gat hann sjeð, hvað taka átti við. Er þar gert ráð fyrir hlutakaupum, og að teknir sjeu upp samningar um seðlaútgáfuna.

Jeg hefi áður gert grein fyrir því, hvers vegna nefndin gat eigi bygt á grundvelli stj.frv. Og er það nú orðið enn ljósara en áður, hvað skilur, því að auk ágreiningsins, sem var millum bankanna um ýms mikils verð atriði frv., er líka komin í ljós ágreiningur milli ráðherranna sjálfra. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagðist álíta, að Landsbankinn hefði toppseðlana, og sama hefir hæstv. fjrh. (M. G.) látið uppi við mig persónulega, sem jeg veit að hann kannast við, en í bókum nefndarinnar er bókað eftir hæstv. forsrh. (J. M.), að Íslandsbanki ætti að hafa þá.

En nú er það víst, að Íslandsbanki ætti ekki að hafa toppseðlana, þá er bankastjórnin með öllu ófáanleg til að ganga að stj.frv. Og má nú hver sem vill, að fengnum þessum upplýsingum, lá nefndinni það, þó að hún gæti ekki aðhylst stj.frv.

Nú hefir stj.frv. verið afhausað í hv. Ed., en auðsjeð er á því, að Íslandsbanki á að hafa toppseðlana, og er því búið að sópa burt grundvelli stj.frv., þeim, að Landsbankinn hefði toppseðlana.

Meiri hluti nefndarinnar vildi ekki fresta samningum um seðlaútgáfuna lengur en um 1 ár, ef ekkert yrði úr hlutakaupunum en eftir frv. Ed. er því frestað til ársloka 1924, og Landsbankinn hefir ekki rjett til þess að gefa út einn einasta seðil til þess tíma, umfram þá 3/4 milj., sem hann nú gefur út. Hefi jeg þá svarað hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ).

Hæstv. atvrh. (P. J.) þarf jeg ekki að svara, því að hann varpaði allri áhyggju sinni upp á hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og tók öll hans rök gild. Talaði hann eitthvað um misreikning og hefir hann líklega líka lært reikning hjá þessum sama hv. þm. (J. Þ.).

Hefi jeg þá ekki fleirum að svara, því aðrir hafa ekki tekið til máls.