13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (3296)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, um seðlaútgáfurjett o. fl., má óhætt telja með þýðingarmestu málum, sem fyrir þinginu hafa legið bæði fyr og nú.

Þjóðin bíður þess með mikilli eftirvæntingu að fá vitneskju um, að því sje til lykta ráðið á heillavænlegan hátt, ekki einungis í nútíð, heldur einnig fyrir framtíðina. Þess vegna er það heilög skylda þingmanna að aðhyllast það, sem mestar líkur eru til, að til verulegra þjóðþrifa geti orðið í framtíðinni, og jeg fullyrði, að til þess hafi þetta frv. mest skilyrði af því, sem enn er fram komið í þessu máli.

Við erum hjer saman komnir til að ráða til lykta mörgum stórvandamálum, og þó einkum þessu. Menn eru stöðugt að leita að orsökum fjárkreppunnar og greinir mjög á um, hverjar þær sjeu. Að minni hyggju eru þær margar, svo sem dýrtíðin, sem stafar af afleiðingum ófriðarins mikla, óhag stætt tíðarfar undanfarin ár, vandræðalega óheppileg sala á afurðum landsins, sem leitt hefir af sjer tjón, sem nemur tugum miljóna. Ennfremur hóflaus fjárbrallsgræðgi ýmsra manna, tilhneiging almennings til þess að lifa um efni fram. Þetta eru orsakir, sem erfitt er að ráða bót á, en því meiri ástæða er til að vera á verði um það, sem oss ætti að vera nokkurn veginn sjálfrátt um.

Skal jeg þá lítillega minnast á það atriði, sem næst liggur, og sem að mínu áliti hefir valdið mjög miklu um fjárkreppuna. Það er skipulagsleysi seðlaútgáfurjettarins, eða hið óheppilega fyrirkomulag hans, en sem nú er tækifæri til að ráða bót á með því að samþ. frv. þetta. Vanmáttur Íslandsbanka til að standa straum af seðlum sínum hefir svo berlega komið í ljós, að við svo búið má ekki standa. Þess vegna verður ríkið þegar í stað að taka að sjer nokkurn hluta seðlaútgáfunnar, og að fullu svo fljótt sem ástæður leyfa.

Það væri að vísu æskilegt, ef viðeigandi þætti að minnast nokkrum orðum á önnur frv., sem hjer eru á ferðinni um sama efni, en með því að þau eru ekki til umr. nú, skal það ekki gert. En væntanlega verður tími til þess síðar. Með þessu frv. okkar má segja, að sú stefna sje tekin upp að fresta því ekki til morguns, sem hægt er að gera í dag. Og það er borið fram vegna þess, að enda þótt við flm. viðurkennum, að mörg nýtileg ákvæði sjeu í hinum frv., þá álítum við þau ekki fær um að ráða bót á vandræðum þeim, sem stafa af vanmætti bankans.

Eins og hv. þm. munu hafa veitt eftirtekt, höfum við farið eins langt og við höfum sjeð okkur fært í því að sameina aðalefni þessara frv. í eina heild, en sneitt hins vegar hjá hinu, er okkur þótti lakara eða miður fara í þeim. En ef einhver hv. þm. kynni að halda, að í þessu frv. kæmi fram einhver vottur af hlutdrægni, eða að hagur einnar stofnunar væri borinn meira fyrir bjósti en annarar, þá verð jeg að mótmæla slíkum grun, ef honum verður haldið fram. Við athugun þessa frv. er það öllum augljóst, að aðalstefna þess er sú, að Landsbankinn verði í framtíðinni aðalpeningastofnun landsins og jafnframt seðlabanki. Þetta ætti öllum að vera ljúft að styðja. En þótt þetta sje nú aðalstefnan, þá höfum við flm. engu að síður haft hag Íslandsbanka fyrir augum. Það verður ekki hjá því komist fyrir ríkið að greiða úr vandræðaástandi hans, sem nú er orðið mjög tilfinnanlegt. Það sjest best, ef starfsemi hans er borin saman við það, sem honum var ætlað að gera, sem kemur í ljós í 1. gr. laga nr. 66 frá 1905, að starf hans er komið nokkuð langt frá þeim tilgangi, sem honum var ætlaður í upphafi.

En þó svo sje, þá dugar ekki að sakast um orðinn hlut, heldur reyna að ráða bót á honum. Jeg er sannfærður um það, að það er vilji þjóðarinnar, vilji allra alvarlega hugsandi manna, að aðhyllast stefnu þessa frv.; að þessu þingi slíti ekki svo, að Landsbankinn verði ekki gerður að aðalseðlabanka landsins. Ef þessu tækifæri er slept, er óvíst, að annað jafngott gefist. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að aðstandendur Landsbankans hafa tjáð sig samþykka því, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp í framtíðinni, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. En það kemur berlega í ljós í frv., að tilætlunin er sú að styrkja einnig Íslandsbanka. Ríkið styrkir hann á þann hátt að veita honum ábyrgð fyrir láni. Ef svo yrði litið á, að trygging væri fullnægjandi, þá er ríkisstjórninni heimilað að lána honum alt að 5 miljónum króna. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að ríkissjóður geti tekið hlut í bankanum, jafnvel meiri hl. hlutafjárins. Ef sú hefir verið ætlun manna, að hjer væri haft í hyggju að þröngva kosti bankans, þá vona jeg, að menn sjái nú, bæði af frv. sjálfu og orðum mínum, að slíkt er misskilningur. Stefna og tilætlun okkar er sú, að Landsbankinn verði aðalpeningastofnun landsins. En jafnframt beri þinginu skylda til að greiða svo fyrir Íslandsbanka, að hann geti haldið áfram starfi sínu sem verslunarbanki og annast venjuleg viðskifti, sem þar að lúta. Það er þetta, sem fram kemur í frv., og þetta er framtíðarskipulag, sem allir ættu að geta fallist á.

Jeg skal nú ekki orðlengja þetta meira; jeg vænti, að hv. þdm. hafi kynt sjer alt, sem að þessu máli lýtur, og sjeu einráðnir í að láta það ná fram að ganga og leggja fullnaðarsamþykki á það í þessari hv. deild. Annað mál er það, að vel má búast við því, að hv. Ed. líti öðrum augum á það, með því að þar hefir komið fram annað frv. um þetta efni. Þótt það hafi mörg góð ákvæði að geyma og sje að sumu leyti svipað þessu, þá álítum við, að það sje ekki svo fullkomið sem þetta, og nái ekki því marki sem þetta frv. stefnir að. Jeg vona og, að hv. þm. sjeu einráðnir í því að skilja ekki áður en þeir hafa lagt fullnaðarúrslit á þetta mál.

Jeg get lýst því yfir fyrir hönd flm., að við álitum heppilegast, að Ed.frv. verði tekið út af dagskrá, þar til sjeð verður, hvernig þessu frv. reiðir af. Því ef það nær ekki fram að ganga hjer, eða ef hv. Ed. samþ. það ekki, þá erum við flm. einráðnir í því að koma fram með brtt. við Ed.frv. á þann veg, að það nálgist sem mest þetta frv. Við álitum engan veg til þess, að þessu máli verði ráðið til lykta á annan heppilegri hátt en hjer er farið fram á.

Jeg skal ekki fara nánar nú út í einstök atriði frv. Það á betur við síðar, ef andmæli koma fram.