15.03.1921
Efri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

156. mál, erfingjarenta

Halldór Steinsson:

Þetta frv. er borið fram í þeim tilgangi að reyna að tryggja það, að hjú tolli betur í vistum en nú er raun á orðin, og væri þess full nauðsyn, ef hægt væri að ráða bót á þessu, því nú er orðið slíkt los á hjúum að til vandræða horfir og stórhnekkis fyrir landbúnaðinn. Hvað þennan tilgang snertir hefi jeg ekkert við frv. að athuga, heldur tel það í fylsta máta rjettmætt að reyna að ráða bót á slíku. — En eins og jeg tók fram við 2. umr., þá er það misrjettið, er kemur fram í frv., sem jeg get ómögulega felt mig við. Jeg get ekki látið frv. fara svo frá deildinni, að jeg ekki enn lýsi óánægju minni yfir því, hve illa hefir tekist að leiða fram í frv. þá rjettmætu hugsjón, sem liggur að baki.

Eins og allir vita, þá eru mörg hjú, sem hafa unnið dyggilega í víst árum saman, þótt aldrei hafi gifst. Þegar svo heilsan bilar eða ellin sækir heim þessi hjú, þá tekur ekkert annað við en sveitin. Er auðsætt, að hjer fara margir þeir á mis við styrkinn, sem ef til vill ættu hann helst skilið.

Mjer þykir leitt, að hv. landbúnaðarnefnd hefir ekki sjeð sjer fært að taka tillögur mínar til greina og breyta þessu, en af þessum sökum get jeg ekki greitt atkv. með frv.