18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3440)

115. mál, hrossasala innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg ætla að víkja að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. atvrh. (P. J.) síðast þegar þetta mál var til umræðu.

Honum þótti óþinglegt og illa viðeigandi, að athugasemdir landbúnaðarnefndar skyldu ekki koma í prentuðu nál. Jeg get í stuttu máli lýst ástæðunni til þess. Nefndin hafði gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná í reikninga hrossasölunnar, en altaf drógst að hún fengi þá. Að vísu var útdráttur af þeim á skrifstofunni, en hann tapaðist. Jeg vona, að hæstv. ráðh. (P. J.) virði nefndinni það til vorkunnar, að hún hefir látið athugasemdirnar fylgja till. sjálfri. Það var ekki meining nefndarinnar að áfellast stjórnina, en hún ætlast til, að hrossasalan verði færð í betra horf en verið hefir.

Hæstv. atvrh. (P. J.) vildi bera í bætifláka fyrir það, að kostnaður við markaðshöldin hefði orðið of mikill. Jeg tel sjálfsagt, að sá liður hefði getað orðið lægri.

Hann sagði, að bændur væru ógreiðviknir og vilji ekki greiða fyrir markaðshöldurunum með því að selja haga. Jeg get náttúrlega ekki sagt um þetta með vissu. Jeg veit ekki, hvað markaðshaldararnir hafa viljað greiða fyrir hagagöngu. En þegar þess er gætt, að markaðshöldin eiga að vera til hags bændum, þá er ósennilegt, að þeir vilji ekki greiða fyrir þeim, og þá slaka nokkuð til á kröfum sínum. En verkamenn, sem við markaðshöldin vinna, heimta vitanlega fult kaup.

Þá sagði hæstv. ráðh. (P. J.), að ekki vari neitt hægt að finna að áframhaldinu á markaðsferðunum. Jeg vil ekki taka það aftur, að mjer finst fullmikið í borið að fara norður á Blönduós í 5 dagleiðum.

Þá talaði hæstv. ráðh. (P. J.) um erfiðleikana við útflutninginn. Meðan skipagöngur voru óvissar og þurfti að geyma hrossin hjer syðra og skifta þeim milli enska og danska markaðsins, voru þessir erfiðleikar skiljanlegir. En till. vill kippa þessu í lag. Það þarf að vera fyrirfram vitað, hve nær skipin koma, kaupa hrossin í einu og merkja þau eftir því, hvort þau eiga að fara á enska eða danska markaðinn. Ef ekki er hægt að fá skip til þess að flytja á báða markaðina í einu, þá verður að láta annan hrossaflokkinn bíða. Vitanlega stafa erfiðleikar af því, hvað samgöngur eru óvissar. En það má komast hjá því að miklu leyti, með því að reka hrossin ekki of langt að.

Árið 1919 voru hross þau, er komu hingað suður, illa útleikin eftir ferðina, en það mun hafa verið betra í fyrra, enda skarst dýraverndunarfjelagið í leikinn. (Atvrh. P. J.: Ein ráðlegging dýraverndunarfjelagsins varð til hins verra). Vera má það, en tilgangurinn mun þó hafa verið góður.

Þá mintist hæstv. atvrh. (P. J.) á kostnað þann, sem leiddi af flutningi hrossanna hingað. Vitanlega kemur hann harðast niður á hjeruðunum hjer í kring, því þessum kostnaði hefir verið jafnað niður á öll hrossin. En það er nú tilgangur till. að fyrirbyggja þetta, með því að skipa hrossum út á Norðurlandi líka. Þá yrði sjerstakur kostnaður fyrir hvorn stað.

Hæstv. atvrh. tók fram, að til mála gæti komið, að hrossin væru rekin til útflutningsstaðar og svo keypt þar. Þetta álít jeg óhæfilegt. Rekstur er langur og hrossin líta illa út eftir svo langa leið. En það er ekki svo mikil hætta á, að mikið gangi úr hrossunum, ef góðir menn kaupa.

Hann gat þess einnig, að hross frá Norðurlandi hefðu verið óvenjulega ljeleg og alveg batalaus þetta ár. Jeg get ekki viðurkent þetta. Hrossin voru keypt í ágúst, og þau hross, sem jeg sá, vora í venjulegu standi, enda gengu hross óvenjuvel undan þetta vor.

Hæstv. atvrh. gat þess og, að nágrannar mínir hefðu verið dýrir á tímann; ekki veit jeg, hvort þeir hafa verið dýrari en aðrir, en hitt veit jeg, að rekstrarmenn hirtu ekki ávalt um að spara fje. Að minsta kosti höfðu þeir hestana í nátthaga á Blönduósi og borguðu 50 aura fyrir hestinn yfir nóttina, en hefðu getað fengið betri haga fyrir minna verð.

Hvað viðkemur geymslu hrossa hjer, þá er ekki nema eðlilegt, að það hafi nokkurn kostnað í för með sjer, en jeg hygg, að sá kostnaður gæti verið minni, ekki síst ef skip landsins væru notuð til útflutnings á hrossunum. Það er að minsta kosti eins gott og láta þau liggja uppi. (Atvrh. P. J.: Borg er óhæfileg til slíkra flutninga). Það má þá bæta hana svo, að hún sje nothæf til þess.

Annars finst mjer stjórnin hafa tekið sjer þetta mál nokkuð nærri, sjerstaklega með hryssuna. Það var alls ekki meiningin að áfella neitt stjórnina fyrir þetta.

Hæstv. atvrh. (P. J.) tók illa í till. Hann áleit, að ilt væri að framkvæma hana að ýmsu leyti; sjerstaklega væri það mjög í óvissu, hversu mörg hross fengjust.

Jeg álít nú samt, að till., ef hún nær fram að ganga, bæti mikið úr sölunni og miði að því að koma henni í gott horf, þótt það taki að vísu nokkurn tíma.

Meðan hæstv. stjórn hefir hrossasöluna á hendi, er sjálfsagt, að hún ráði markaðshaldara, og markaðshaldarar ráði svo aftur rekstrarmenn. Og í þetta skifti ekki óviðeigandi, þó að hæstv. stjórn rjeði 2 menn til að hafa söluna á hendi.

Jeg vildi leggja sjerstaka áherslu á, að útflutningi frá Norðurlandi verði komið á. Hitt spillir markaðinum, ef hrossin koma illa útleikin, eftir langan rekstur.

Annars vildi jeg ekki blanda mjer inn í deilu þeirra hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.). En jeg býst við, að markaðshaldarar hafi fleiri stig á hrossunum, og tel jeg því víst, að hross að norðan muni reynast betri en hross hjer syðra.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) var að tala um að greiða mismuninn úr einhverjum sjóði, sem ætti að vera 4–5000 kr. Þá er því til að svara, að þessi sjóður er ekki til. Það er til eitthvað 1000 kr. afgangur, sem ekki hefir verið jafnað niður enn.

Jeg verð að taka undir það með hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), að það er ekki hægt að ætlast til, að hæstv. stjórn greiði þetta, þar sem ekkert er til að greiða það með. Jeg vænti þess bara, að hæstv. stjórn taki till. til greina, og þá mun þetta mál komast í gott horf.