18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

115. mál, hrossasala innanlands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg þarf aðeins að gera stutta athugasemd út af þeirri einkennilegu hugmyndaskekkju, sem komið hefir fram í ræðu hæstv. atvrh. (P. J.). Jeg tek það aftur fram, að alt hans hæðar- og lægðarstigatal er mesta óvitahjal, sem alls ekki kemur þessu máli við. Skýrslurnar ljúga ekki, og þær liggja hjer til sýnis og samanburðar.

Hæstv. ráðherra (P. J.) tvítalaði um það, að jeg væri ókunnugur þessu máli. En jeg fullyrði, að jeg er því miklu kunnugri en hann sjálfur, því jeg hefi haft með hrossasölu að gera síðan jeg var stálpaður drengur.

Út af ummælum hans og fleiri um það, að ekki sje hægt að koma jöfnuði á í þessu, vil jeg benda á það, að leiðirnar eru margar til, t. d. að jafna þessu niður á hrossaeigendur. Það eru að mestu sömu seljendur í ár og í fyrra, og kemur því að mestu niður á sömu mönnum. Það verður ávalt að minsta kosti minna ranglæti en eins og er. Það er sanngjörn leið, þó hún sje óvanaleg. Svo er til á 4. þús. kr. í sameiginlegum hrossasölusjóði, og mætti nota það til að jafna þennan órjett, sem sunnlenskir seljendur hafa verið beittir.