23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3585)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætlaði nú í upphafi að leiða sem mest hjá mjer deilur um þessar till. Jeg vildi því aðeins með því að standa upp segja það, að jeg vil helst styðja till. hv. 2. þm. N.-M. (B. H.), nefnilega það að sameina starf þessara tveggja nefnda, sem talað er um að kjósa, í einni og sömu nefndinni. Mjer finst þetta svo lafhægt, að um það ætti ekki að þurfa að deila. Það er, frá mínu sjónarmiði sjeð, ekkert hægara að hafa tvær nefndir starfandi í þessum málum, heldur til trafala fyrir þingstörfin. þess vegna finst mjer ekkert á móti því að samþykkja brtt. á þskj. 54. Hún segir líka beinum orðum: „að athuga bankamál, og önnur mál, sem þeim eru skyld“, en það hljóta að vera verslunarmálin og viðskiftahömlurnar þá um leið. Öll þessi mál grípa svo hvert í annað, að það hlyti að tefja fyrir heppilegri rannsókn þeirra, að skifta þeim í tvær nefndir. Nú vill svo til, að á dagskránni í dag eru einmitt tvö mál, sem vísa mætti til þessarar nefndar, en það eru 2. og 3. málið. Bæði þessi mál eiga að sjálfsögðu að fara til slíkrar nefndar, eins og brtt. á þskj. 54 fer fram á, að sje skipuð. Og með því eru þá báðar hinar till. orðnar óþarfar.