20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3695)

139. mál, vaxtakjör landbúnaðarlána

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um friðhelgi eignarrjettarins í sambandi við breytt vaxtakjör. Þetta eru óskyld mál. Það væri fallegt t. d., ef hver verslun gæti afsakað sig með friðhelgi eignarrjettarins, ef hlutaðeigandi stjórnvöld hniptu í hana þegar hún gengi á okurvegum. Jeg er ekki að segja, að bankarnir geri það, en hver almennileg landsstjórn á að halda þeim í skefjum og við sanngirni um vaxtatöku. það mætti öllu fremur segja, að eignarrjettur bænda sje friðhelgur, og því megi ekki taka af þeim hærri vexti en þeim ber að greiða. Fjrh. (M. G.) virtist næmari fyrir eignarrjetti hluthafa Íslandsbanka en bænda.

Hæstv. ráðherra (M. G.) er sjálfráður um, hvaða merkingu hann leggur í orðin „hlutast til um“. Það, sem í þeim felst er vel framkvæmanlegt í þessu efni, ef viljagóð stjórn ætti í hlut. En það er öðru nær, eftir framkomu fjrh. (M. G.) að dæma. Annars skal jeg ekkert fullyrða um, hvað hæstv. núverandi stjórn muni gera. (M. G.: Því gerir ekki bankastjórinn þetta sjálfur). Þó að hæstv. ráðherra (M. G.) láti svona, þá veit hann vel, að jeg er ekki bankastjóri, heldur útibússtjóri, og að jeg hefi engan ákvörðunarrjett um hækkun og lækkun vaxta. Þetta er vísvitandi rangsnúningur hjá hæstv. ráðherra (M. G.), því að hann veit vel, hvernig starfi mínu er háttað, hvort sem hann þekkir sitt eigið starf og skyldur.

Till. mín fer aðeins fram á, að stjórnin geri sitt til þess að hrinda málinu í rjett horf og bæta að þessu leyti verslunarfyrirkomulagið, þar sem hún hefir einmitt yfirráðin til varnar viðskiftamönnunum. Stjórnin ætti að minsta kosti að hafa mannskap í sjer til þess að segja bönkunum meiningu sína og hvað hún teldi rjett. Það er þó ekki til of mikils ætlast.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að ummæli mín væru í þoku fyrir sjer. Jeg verð þá að halda, að hæstv. ráðherra (M. G.) sje blindur. (Fjrh. M. G.: Jeg er þá ekki í þoku). Nei, það er myrkur fyrir sjónum hans, eða að minsta kosti sýnir aðstaða hans til þessa máls, sem fleiri þýðingarmikilla mála, víðsýni hans.

Það er að vísu skiljanlegt frá sjónarmiði hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), að hann ber fram rökstudda dagskrá. Það er svo ósköp auðvelt að tala mjúklega til allra og klappa á öxlina á mönnum, en það er ekki eins auðvelt að ráða vel fram úr vandamálum og vera þeim heill, hvað sem hagsmununum líður. Jeg bjóst þó við því, að hv. þm. (J. A. J.) mundi sjá, að það er ranglátt, að fátækir bændur skuli hafa sömu lánskjör og fífldjarfir síldarspekúlantar. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji kasta hnjóðsyrðum á þá, er fyrir óhöppum hafa orðið í útgerð. En á hv. þm. (J. A. J.) situr það síst að standa upp úr sæti sínu og minna á sig, eins og hann gerir þegar um það er að ræða, að bændur fái leiðrjettingu á því, sem þeir verða að þola í óhagfeldum bankaviðskiftum, vegna þess, hve miklu fje hefir verið varið gálauslega til vafasamra aðgerða.

Hv. þm. (J. A. J.) talaði um barnaskap. Mjer finst það vera barnaskapur af honum að koma fram með þessa rökstuddu dagskrá, en barnið vantar sakleysið.