20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3725)

133. mál, undirbúningur slysa og ellitrygginga

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir tekið af mjer ómakið með að svara hv. flm. (J. B.). það var einmitt þessi einskorðun í till. við ákveðna stefnu, sem mjer finst ekki eiga við. Jeg skal játa það, að getur verið stuðningur fyrir stjórnina, að málið skuli einnig hafa komið fram á þessum grundvelli. En eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gat um, þá er það ekki hentugt, að þingmenn bindi svo hendur sínar um eina ákveðna stefnu, eins og fram kemur í greinargerðinni. Þar er svo að orði komist:

„— — — að þingið sýni ákveðinn vilja, ekki aðeins um það, að rannsókn fari fram, heldur einnig, að frv. verði lagt fram um þessi mál þegar fyrir næsta þing, og mörkuð ákveðin stefna um tryggingar þær, sem fyrst geta komist á, en það eru almennar slysa- og ellitryggingar.“

Það er að vísu gott, að sem flestar skoðanir komi fram, en þær geta einnig komið fram í blöðum og tímaritum, auk þess sem menn geta snúið sjer með till. sínar beint til stjórnarinnar.

Eitt er enn, sem mjer þykir athugavert við þessa till., en það er, að í stað þess, að í hinni till. er sagt, að he1st eigi að leggja málið fyrir næsta Alþingi, þá er hjer kveðið svo á, að það skuli lagt fyrir næsta þing. Jeg veit ekki betur en að 10 ár hafi gengið í það að undirbúa þau lög, sem samþykt voru í Danmörku 1916, því að jeg talaði við danskan þingmann, sem var hjer í konungsförinni 1907, og hann var þá í milliþinganefnd í þessu máli, og lofaði hann að senda mjer nál., þegar það kæmi út.

Jeg tel það litla sanngirni að heimta þetta mál lagt fyrir með svona takmörkuðum fresti, eftir því sem reynsla annara þjóða er um undirbúning slíkra mála.