16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3734)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það er ekki miklu, sem jeg þarf að svara, því hæstv. forsrh. (J. M.) svaraði því að nokkru leyti, sem heyrði undir atvinnumálaráðherra, jafnframt því sem hann svaraði fyrir sig. En jeg kvaddi mjer hljóðs til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu.

Það líta nú sumir ef til vill svo á, að það eigi ekki við, að við ráðherrarnir greiðum atkvæði um vantraustsyfirlýsinguna, en jeg ætla samt að greiða atkvæði á móti henni, af því að henni er stefnt að allri stjórninni, en hefði hún aðeins verið á mig einan, þá hefði jeg ekki greitt atkvæði.

Jeg hefi fulla ástæðu sem þingmaður til að vinna á móti því, að vantraustsyfirlýsingin nái fram að ganga, því að jeg var meðal þeirra þingmanna, sem studdu að því, að núverandi forsætisráðherra (J. M.) tæki að sjer að mynda hina nýju þriggja manna stjórn 1917. Einnig studdi jeg að því, að hann tæki að sjer stjórnarmyndun í fyrra, og hefir hann í engu brugðist trausti mínu. Eins og hann í fyrra áreiðanlega hafði manna mest traust til að mynda nýja stjórn, þannig hygg jeg, að hann hafi enn mest fylgi í landinu til þess að standa fyrir stjórn, hvort sem hann hefir nú nóg traust innan þingsins eða ekki, og jeg álít því mikinn skaða, ef hann leggur niður völd.

Hvað viðvíkur fjármálaráðherra (M. G.), þá álít jeg hann svo færan til að hafa fjármálastjórnina á hendi, að jeg teldi það mikinn skaða, ef hann verður að fara frá. Jeg get dæmt um þetta betur en flestir aðrir, því mjer er kunnugra en flestum öðrum um þá erfiðleika, sem þessu starfi fylgja, og hvaða skyldum ríkið hefir að gegna.

Ef svo fer, að flest tekjufrv., sem fjármálaráðherra (M. G.) hefir lagt fyrir þingið, ná fram að ganga, væri það undarlegt fyrirbrigði, ef jafnframt því væri verið að bola honum frá, og skil jeg ekki, að það væri hægt að forsvara það.

En ef menn fara að drepa þau, bara til þess að fella stjórnina, eins og gert var 1913, má segja, að Íslands óhamingju verði alt að vopni.

Jeg verð því að segja, að ef frumvörpin ná fram að ganga, en fjármálaráðherra verður feldur, þá er það ekki af vantrausti, heldur af nauðsyn til þess að losa sætið handa einhverjum öðrum.

Jeg geri það fyrst og fremst af eigin sannfæringu og sem fulltrúi minna kjósenda að greiða atkv. í þessu máli, því jeg veit, að þeir þyldu ekki að vera atkvæðislausir í því, hversu landsstjórnin er skipuð.

Þá vil jeg í þessu sambandi örlítið minnast á atvinnumálaráðherrann.

Jeg sagði, að jeg hefði ekki greitt atkv., ef vantraustinu hefði verið beint að mjer einum. Mál þau, er undir atvinnumálaráðherrann heyra, eru svo mikil vandamál, að helst þyrfti afburðamann til þess að ráða fram úr þeim, og ekki síst nú, þegar atvinnurekendur eru farnir að snúa sjer til stjórnarinnar í öllum vandamálum og hvað sem á bjátar, eins og menn fara til læknis, þegar veikindi eða kvillar ganga. Þetta byrjaði strax með styrjöldinni miklu, og hefir mikið aukist síðan. Nú, eftir að friðarsamningar komust á, hafa vandræðin ekki minkað, og það er ekki ofsögum sagt af því, að fyrir þetta land hafa þau aldrei verið eins alvarleg fyrir atvinnuvegina eins og síðastliðið ár og nú. Þess vegna hvílir afskaplegur vandi á stjórninni, og þá sjerstaklega á atvinnumálaráðherra, þó auðvitað öll stjórnin fylgist hjer að málum, eins og hingað til.

Jeg get því vel skilið, að menn hafi ekki mikið traust á mjer til þess að standa í þessari stöðu. Það þarf enga almenna vantraustsyfirlýsingu á stjórnina til þess að lagfæra þetta. Ef meiri hluti þingmanna getur komið sjer saman um mann, — og helst ef það væri nú afburðamaður, eða að minsta kosti mjer miklu færari, — og bent forsætisráðherra á að taka hann í minn stað í ráðuneytið, þá skal ekki standa á mjer. Mjer er hvorki móðgun nje bagi að víkja úr sessi.

En setjum nú svo, að þessi vantraustsyfirlýsing verði samþykt með því atkvæðamagni, að stjórnin hljóti að segja af sjer, og síðan takist, líkt og þá er núverandi stjórn var mynduð, að fá meiri hluta fyrir því, að einhver maður myndi stjórn, þá uggir mig, að það fari enn líkt og um undanfarandi stjórnir. Eftir eitt ár eða svo verður aftur kominn einhverskonar meiri hluti, sem vill losna við hana. Á þetta bendir reynslan einlægt meir og meir.

Till. þessi er fram komin áður en nokkuð er víst um samkomulag þings og stjórnar í aðalmálunum. Hún er því fram komin af þessu pólitiska óþoli, sem bólað hefir á síðan 1909 og altaf farið í vöxt. Þetta hefir orðið til þess, að stjórnir hafa hvorki haft frið nje tíma til þess að starfa og reyna að koma áhugamálum sínum í framkvæmd. Þær hafa ekki fengið að reyna sig. Og jeg get gilt úr flokki talað um þetta, því jeg hefi sjaldan stuðlað að stjórnarskiftum. Jeg hefi altaf talið það skyldu mína að styðja stjórn, þótt úr andstöðuflokki væri, í því að koma fram málum, sem til heilla horfa og unnið er að af einlægni og áhuga. En yfirleitt eru menn fljótari til að grípa það, sem ábótavant er hjá stjórninni, heldur en að meta það, sem betur fer. Þetta er galli, og að því er mjer virðist, bæði á þingi og þjóð.

Það liggur þó í augum uppi, að enginn getur unnið vel opinber störf nema hann hafi tiltrú, menn treysti því, að hann vinni af bestu getu. Til þess að landsstjórn, hver sem hún er, geti notið sín og neytt, verða menn að láta henni í tje það andrúmsloft tiltrúarinnar, sem hverjum samviskusömum manni er nauðsyn til þess, að hann geti rækt starf sitt vel. Það er hart að þurfa að tala um þetta hjer, þetta, sem hver maður þekkir og viðurkennir á öðrum sviðum. Hver húsbóndi á stóru heimili, hver forráðandi fjelags eða fyrirtækis veit þetta, veit, að best er að veita þeim tiltrú, sem starfa með honum eða fyrir hann, og veita hana slyndrulaust.

Þetta voru þær almennu athugasemdir, sem jeg vildi gera. En nú vil jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Dala. (B. J.), enda þótt fátt í ræðu hans væri andmælavert.

Hv. þm. (B. J.) þótti stjórnin nánasarleg þegar hún sparaði. Því hefir nú hæstv. fjrh. (M. G.) svarað. En svo þótti hv. þm. (B. J.) hún líka hafa eytt til óþarfa, og nefndi þar innflutningsnefndina og seðlaskrifstofuna. Fjrh. (M. G.) hefir nú svarað um innflutningsnefndina, og get jeg tekið undir það. Nefndin var nauðsynleg, og að rjettu lagi hefði þurft að leggja meira í sölurnar við hennar starf. Það hefði þurft strangt eftirlit, einskonar lögreglu, til þess að framfylgja ákvörðunum nefndarinnar. Og þá er jeg líka viss um, að meiri ánægja hefði verið með gerðir nefndarinnar. Stjórnin hefir því ekki gengið of langt, heldur of skamt. Og jeg skil ekki, hver hugsun gat verið í því að setja lögin frá 8. mars 1920, ef stjórnin mátti ekki hafa nefndina til að bera fyrir sig.

Og um skömtunina er það að segja, að hún er afleiðing af anda sömu laga. Eftir horfum öllum í haust leit stjórnin svo á, að óhjákvæmilegt væri að takmarka eyðslu, og að því ætti stjórnin að stuðla. Eftir undanfarandi reynslu leit út fyrir, að eytt mundi verða 7–9 milj. kr. á árinu aðeins fyrir sykur; þá má sannarlega segja, að skörin færi upp í bekkinn, ef slíkt væri látið viðgangast afskiftalaust. Það var því vel kostandi til annars eins og seðlaskrifstofunnar. En öll þessi mál eru nú í nefnd hjer í þinginu og verða væntanlega rædd betur síðar.

Þá sagði hv. þm. (B. J.), að stefna stjórnarinnar í vatnamálunum væri hvorki til þess að spara gæði landsins nje halda til haga fyrir ríkið. Þetta liggur nú fyrir þinginu, og mun það dæma um það á sínum tíma. En einhverja stefnu varð stjórnin að hafa, og þá tók hún eðlilega þá, sem hún kom sjer best saman um. Sjest síðar, hvernig meiri hl. þingsins fellir sig við hana.

Loks skaut hv. þm. (B. J.) fram nokkrum Gróusögum um það, að ekki væri frómlega með farið hjá ýmsum, sem hafa með höndum kaup á áhöldum og vörum til opinberra þarfa, svo sem til síma, vegagerða, vita o. fl. Hann sagðist þó ekki selja þetta dýrara en hann keypti, en kvaðst með þessu gefa stjórninni tækifæri til þess að sanna hið gagnstæða. Þar til er því að svara, að slíkar Gróusögur hafa gengið í tíð allra undanfarandi stjórna. Og hver á að sanna um slíkar sögur? Hvor á fremur að gera það, sá, sem fleiprar, eða sá, sem fleiprað er um? Ef sagt er um mig, að jeg hafi einhvern tíma drepið mann, og ekki tilgreint, hvar nje hve nær, hvernig á jeg þá að sanna, að jeg hafi ekki gert það? Það á alls ekki við að kasta slíku inn í umræðurnar. Það á að koma fram sem rannsóknarefni í tillöguformi eða fyrirspurnar, og kærurnar eiga að vera ákveðnar, því að ákveðna sök má sanna með ákveðnum vitnum. Auk þess er með þessu kastað að mönnum, sem hjer eiga þess engan kost að verja sig.

Þá var loks það, sem víst átti að hrífa, og ætti að hrífa, ef satt væri, en það var atorku- og áhugaleysi stjórnarinnar um atvinnuvegina. Hann nefndi þar helst til síldarsö1una og kolin til útgerðarinnar. Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir nú svarað um síldarsöluna, en jeg vil bæta því við, að jeg er handviss um, að útgerðarmenn munu ekki telja stjórnina hafa verið áhugalausa í þessu máli, og þeir leituðu margir til hennar. Í sumar spurðu þeir stjórnina, hvort hún vildi taka að sjer einkasölu á síld.

Stjórnin svaraði því, að ef útgerðarmenn gerðu fullkomin samtök sín á milli, þá skyldi stjórnin gera sitt til að koma skipulagi á. En svo leið og beið og ekkert svar kom, og síðar, er í öngþveitið var komið og nokkuð af síldinni þegar sent út, var ógerlegt að skipa sölunni með valdboði, enda þá ekki samræmi hjá útgerðarmönnum heldur komið á.

Stjórnin hefir líka haft gát á fisksölunni, þótt hennar hafi minna verið leitað í því efni, enda engin samtök útgerðarmanna bak við. Þar hefði mikið mátt gera, ef ráð hefði verið tekið í tíma og samkomulag hefði verið meðal þeirra, sem hagsmunanna áttu að njóta. En án samkomulags meðal útgerðarmanna var stjórnin máttlaus í því máli. En það er nú líka svo, að þótt margir hagsmunir sjeu sameiginlegir, þá eru einnig sundurleitir hagsmunir, og það dregur úr samkomulaginu, þegar á á að herða.

Þá voru það kolin. Sumum hefir þótt stjórnin hafa gengið of langt í að birgja landið að kolum síðastliðið sumar. Stjórnin gerði það nú ekki aðallega vegna útgerðarinnar. Í sumar var alls ekki hægt að fá verslunarkol með neitt líkum kjörum og kol til nota í skipunum sjálfum (bunkers). Og þótt svo væri, að togararnir gætu ekki notað landsverslunarkolin til útgerðar vegna dýrleika, þá gat skeð, að menn yrðu fegnir að nota þau til þess að bjarga sjer, ef líkt hefði farið og í fyrra. Þá var ástandið svo, að fellir var fyrir dyrum á Norðurlandi, og þótt nægar birgðir væru af kraftfóðri í landinu, komust skipin hvergi með björgina vegna kolaleysis. Veturinn í fyrra minti menn á að vera ekki jafn varbúnir næst. Og stjórnin vildi heldur þola illmæli manna fyrir of mikla fyrirhyggju en of litla, til bjargar landsbúum.

Hvað sem því hv. þm. Dala. (B. J.) segir, þá kannast jeg ekki við áhugaleysi í þessum málum. Og því get jeg lýst yfir, að langmest af starfstíma mínum, og stundum svefntíminn líka, hefir gengið í atvinnu- og peningamálavandræðin, sem þessu árferði fylgja, en hin störfin, sem á venjulegum tíma mundu kallast störf atvinnumálaráðherra, hafa mjer fundist svo sem ekki neitt hjá því.