16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefir nú lesið upp ræðu hjer í deildinni, sem tók fullan klukkutíma. (E. E.: Hann talaði heldur ekki um aukaatriðin). Það getur nú verið álitamál um það; að minsta kosti fanst mjer inngangurinn um sambandsmálið 1908, bannlögin og fleira ekki koma þessu máli við, og tók þessi lestur hans alt að fjórðungi stundar. Annars var öll ræða hans útþynning af því, sem flotið hafði áður frá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), og það er einkennilegt um þennan þm. (E. E.), hvað honum er lagið að halda langar ræður og spinna lopann um ekki neitt.

Hv. þm. (E. E.) hjelt því fram, að jeg væri yfirmaður bankanna. Þetta er alveg ný kenning. Það er ekki jeg, sem hefi um bankamálin að fjalla, það er hæstv. atvrh. (P. J.). (E. E.: Fjármálaráðherra var útsendarinn). Já, hann fór með frv. á konungsfund til staðfestingar.

En það er ekki rjett, að stjórnin geti skipað Íslandsbanka að gera þetta eða hitt, eins og hv. þm. (E. E.) hjelt fram. (E. E.: Ekki rjett haft eftir). Jú, það er rjett haft eftir; það er ekki til neins fyrir þm. (E. E.) að segja það, sem hann getur ekki staðið við á eftir.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) talaði annars um marga merkilega hluti, þó að ekki væri gott að ráða í sumt af því, sem hann sagði.

Hann hjelt því fram, meðal annars, að stjórnin hefði ekki átt að líða Íslandsbanka það, að yfirfæra ekki greiðslur þær, sem hann er bundinn við, samkvæmt lögum. Nú líta allir lögfræðingar svo á, nema þá hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að ekki sje hægt að heimta af bankanum þessar yfirfærslur, nema bankinn hafi erlendis fje inni standandi, sem hann geti vísað á. Og það hafði bankinn ekki, en hann bjóst við, að fram úr því myndi rakna áður en langt um liði.

Þeir hafa gaman af því, hv. 1. þm. Árn. (E. E.) og hv. 1. þm Rang. (Gunn. S.), að segja það hjer í deildinni, að jeg vilji ekki taka lán. Þeir halda víst, að þetta gangi betur í fólkið heldur en alt annað. Þeir um það, en þeir slíta þetta út úr rjettu sambandi. Jeg hefi aldrei sagt, að stjórnin ætli ekki eða vildi ekki taka lán. Þvert á móti. Jeg hefi talið rjett og sjálfsagt að taka lán til nauðsynlegra viðskifta, en ekki fyr en í ítrustu nauðsyn. En það hefi jeg sagt, að stjórnin eigi ekki og vilji ekki heldur taka lán handa Pjetri og Páli til þess að spekúlera með. Og jeg hefi líka sagt, að stjórnin væri fús á að hjálpa bönkunum að taka lán þegar þeir óska þess.

Þá efaðist hv. sami þm. (E. E.) um það, að jeg færi rjett með, er jeg skýrði frá því, hvað gerst hafði á fundi þeim, sem jeg átti með bankastjórum okkar í Höfn. En jeg hefi vitni að því, þótt jeg geti ekki kallað þau hjer fram í deildinni, að jeg hefi skýrt rjett frá öllu, er okkur fór þar á milli.

Annars skil jeg ekki, hvers vegna hv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefir ekki komið fram með vantraustsyfirlýsingu á mig einan. Það eru aðeins mínar syndir, sem hann sjer. Hví vill hann þá hengja bakarann fyrir smiðinn?

Sami hv. þm. (E. E.) mintist á landbúnaðinn, og sneri sjer þá, sem eðlilegt var, að ástandinu austanfjalls. Og það er ekki glæsilegt, eftir því sem honum fórust orð. Hann sagði, að búið væri að snúa að hálsi bænda þriggja og sex mánaða hengingarvíxlum, sem hann ætlar víst sjálfur að sjá um að dugi, því hann er bankastjóri þar eystra, eins og kunnugt er.

Eitt var það, sem mjer þótti þó undarlegast, þegar hann var að lesa yfir okkur, að Alþingi hefði tapað sjálfstæði sínu gagnvart stjórninni. það er ofvaxið mínum skilningi að vita, hvað hann meinar þar. (E. E.: því get jeg vel trúað). Já, þá þarf ekki framar vitnanna við, úr því þm. (E. E.) þykir sjálfum trúlegt, að enginn skilji hvað hann meinar. En þegar hann fór að „citera“ Jón Sigurðsson, þá skil jeg, hvað hann fer; hann metur sig líkan honum. (E. E.: það viljum við allir, eða vill hæstv. fjrh. (M. G.) það ekki,). Nei, jeg tel hv. þm. (E. E.) gerólíkan honum.

Sami hv. þm. (E. E.) kveðst ekki heldur hafa sjeð, að stjórnin hefði nein hugsjónamál að beitast fyrir, og að hún komi ekki auga á nein slík mál. Um skattamálin fórust honum þau orð, að þar væri stjórnin að narta utan úr atvinnuvegum, sem væru að þrotum komnir. Jeg verð nú að segja, að þetta er nokkuð djarflega mælt, þegar á það er litið, að hjer er um heilt skattakerfi að ræða, eins og jeg hefi margsinnis tekið fram, og því næsta undarlegt að bregða þeirri stjórn um vanrækslu og hugsjónaleysi, sem undirbúið hefir slíkt mál og lagt það fyrir þingið.

Eitt það, sem hv. sami þm. (E. E.) taldi mjer til saka, var það, að jeg vildi ekki hjer á Alþingi láta ræða um það, að lánstraust okkar væri erlendis að þrotum komið. Jeg endurtek það, að það er með öllu ósæmilegt að fara þeim orðum um lánstraust okkar, eins og hann og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) gerðu, og því fremur er það ósæmilegt af því, að þeir geta á engan hátt fundið orðum sínum stað. Og þótt þeir gætu það og þetta væri satt, þá er framkoma þeirra samt á engan hátt verjandi.(Gunn. S.: Einkennileg sönnun). Jeg skal, ef hv. þm. (Gunn. S.) óskar þess, sanna það á marga vegu. (Gunn. S.: Hvernig er það hægt?). þm. (Gunn. S.) ætti að vita, hvernig hægt er að sanna staðreyndir, þar sem hann er að nafni til lögfræðingur. Annars er það sannað með nýafstöðnum lántökum, að lánstraustið er ekki farið.

Annars sje jeg enga ástæðu til þess að svara lestri hv. 1. þm. Árn. (E. E.) frekar. Hann var að því leyti líkur húslestri eða stólræðu, að þar var alt upp lesið, og jeg verð að bæta því við, að jeg gat ekki fundið neitt púður í þessum reiðilestri hans.