16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Gunnar Sigurðsson:

Jeg sný mjer fyrst að hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Hann ásakar mig mjög fyrir það að vilja reyna að komast út úr þeim ógöngum, er þessir síðustu og verstu tímar, með tilstyrk stjórnarinnar, hafa komið okkur í, með því að taka lán erlendis til þess að bjarga við atvinnuvegum landsins. En jeg spyr: Hvað vill þá þessi hv. þm. (Þór. J.) gera?

Skuldirnar erlendis er ekki hægt að greiða sökum gjaldeyrisskorts. Atvinnuvegirnir eru í hruni vegna þess, að ekki er fje til í landinu. Það ætti því að vera hverjum manni ljóst, að það er eina úrræðið, eins og nú er komið, að taka lán. Og hæstv. fjrh. (M. G.) neitar því ekki, að það sje hægt. En hann vill ekki gera það.

Jeg ætlast ekki til þess, eins og hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) var að halda fram, að meining okkar, sem sjáum lánsþörfina, væri að halda öllu uppi með láninu, hversu óheilbrigt sem það væri. Það er fjarri því. (Þór. J.: Hverju á að halda við?). Atvinnuvegum landsins. Því ef það er ekki gert, þá er út í það öngþveiti komið, sem engin leið er að sleppa úr. Og eins og áður hefir verið tekið fram af mjer og öðrum, þá þarf lán til að frelsa þjóðina frá beinu gjaldþroti.

Jeg er sammála þessum hv. þm. (Þór. J.) um, að rjett sje að fara varlega og gætilega í lántökurnar.

Það eru mörg stórmál, er fyrir þessu þingi liggja, en hitt er og víst, að stærstu málin eru peninga- og bankamál landsins. Það er málið, sem öll velferð þessa lands er undir komin.

Þá ætla jeg að svara hæstv. fjrh. (M. G.) nokkrum orðum. Hann sagði, að jeg teldi það aðalsökina á sig, að hann tók ekki lán. Jeg tel það líka aðalsökina, og það er ekki skoðun mín eingöngu, heldur ríkti sú skoðun um alt land, að minsta kosti alt Suðurland, að sjálfsagt hefði verið að taka lán. Blöðin hafa einnig verið öll sammála um þetta, nema eitt.

Þá kem jeg að gjaldþrotinu, sem hæstv. fjrh. (M. G.) vildi gera sjer svo mikinn mat úr. Hann sagði, að hægt væri að fá lán, og það væri búið að fá lán. En þótt svo sje, þá má þó spila þannig spilunum, að til gjaldþrots leiði, með því að vera of smátækur. Og jeg fæ ekki sjeð, að það sje óhæfa, þótt á Alþingi sje reynt að sporna við gjaldþroti landsins, sem er óhjákvæmilegt, ef ekki er hafist handa og tekið gjaldeyrislán.

Hæstv. fjrh. (M. G.) varði sig með því, að jeg hefði sagt, að markaðsbreytingar væru ófyrirsjáanlegar. Þau orð mín sleit hann að vísu út úr sambandi. Honum er hjer að vísu nokkur vorkunn, en þó breytir það í engu aðalatriðunum. Það var sýnilegt hverjum manni, að brýn þörf var fyrir lánið, þar sem það var ljóst þegar í sumar. T. d. gaf annar bankinn út ávísanir, sem ekki voru greiddar.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mintist enn á það, hvílík dauðasynd það væri að taka spekúlationslán. Það má vel vera, að hann geti sagt Skagfirðingum það, að verra sje að taka bráðnauðsynlegt lán fyrir það, að fyrirsjáanlegt er, að gróði verður á gengismun. En hjer á Alþingi mun vart vera hægt að bera slíkt á borð.

Þá vil jeg í þriðja sinn spyrja hæstv. fjrh. (M. G.) að því, hvernig hann hefir fengið þennan 25 miljóna yfirballance um áramót. Hann hefir ekki svarað því enn þá.

En jeg vil nú forvitnast um það, hve margir bera traust til þessarar fjármálastjórnar og yfirleitt þeirrar stjórnar, er nú situr, og því leyfi jeg mjer að bera fram þessa rökstuddu dagskrá:

„Um leið og Nd. Alþingis lýsir trausti sínu á núverandi stjórn, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hv. deild mun það fullkunnugt, að jeg flyt ekki þá rökstuddu dagskrá, sem hjer liggur fyrir, af því, að jeg beri traust til þess, að henni takist að ráða fram úr þeim umfangsmiklu og vandráðnu stórmálum, sem nú liggja fyrir til úrlausnar.

Jeg hefi flutt dagskrána af tveimur aðalástæðum.

Í fyrsta lagi til þess að halda uppi þeirri sjálfsögðu þingræðisreglu, að stjórnin styðjist við fult fylgi meiri hluta þingsins. í öðru lagi til þess að varna því, að Alþingi fari nú á þessum örlagaþrungnu tímum að eyða þingtímanum og fje landsins í langar umræður um vantraustið, sem búast má við að standi lengi yfir, jafnvel dögum saman.

Hvað þingræðið snertir, sem fyrir mjer er aðalatriðið, þá er það föst og sjálfsögð venja allra landsstjórna, sem styðjast við fylgi þinga, að leita traustsyfirlýsingar undir eins og þær grunar, að sig bresti fylgi. þetta er og á að vera óhagganleg og sjálfsögð regla.

Eins og Alþingi er skipað nú, lá það í augum uppi þegar í þingbyrjun, að stjórnin átti sárlitlu trausti að fagna í þinginu, og bar henni því tvímælalaus skylda til að heimta traustsyfirlýsingu þegar í stað, eða segja af sjer að öðrum kosti. Hvorttveggja hefir hún vanrækt. Þess vegna neyðist jeg til, sem andstæðingur stjórnarinnar, að bera fram dagskrá þá, sem hjer liggur fyrir, 26 til þess að skýrar línur, fá vissu fyrir því, hvort hæstv. stjórn hefir traust meiri hluta deildarinnar eða ekki.

Fari nú svo, sem mig uggir, að hæstv. stjórn reynist ekki hafa traust meiri hluta deildarinnar, geng jeg að því sem gefnu, að hún segi af sjer þegar í stað, því að öðrum kosti er óhugsandi samvinna milli deildarinnar og hæstv. stjórnar, og verður til niðurdreps fyrir starfhæfi hvorrartveggja. Með þessu hugsa jeg mjer að gefa fordæmi til varnar því, að það geti nokkurn tíma framar hent Alþingi Íslendinga, að stjórn sitji í trássi við meiri hluta þess.

Hitt atriðið, að rjett sje að sporna við því, að tíma þingsins og fje landsins sje eytt til að ræða vantraust á stjórn, sem vitanlegt er um að ekki hefir traust hv. deildar, þarf engrar sjerstakrar skýringar við; það nægir að benda á öll þau vandamál, sem fyrir þinginu liggja, og verður þá fyrst fyrir mönnum fjármálaástandið.

Þá má og nefna eina ástæðu enn fyrir því, að jeg flyt margnefnda dagskrá, þá, að mjer er kunnugt um, að hjer á að koma fram „loðmullu“-tillaga, í þeim einum tilgangi, að forða mönnum frá því að greiða beint atkv. með vantrausti eða móti. Jeg vil verða fyrri til og varna þessu. Þingmenn hljóta að vera búnir að átta sig á því, hvort þeir vilja aðhyllast stjórnina eða ekki. Við, sem erum andstæðingar stjórnarinnar, heimtum þingræðisreglum fylgt. Við heimtum skýrar línur.