17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3757)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Ólafur Proppé:

Við erum búnir að sitja hjer í tvo daga og ræða þetta mál. Jeg hefi hlustað á mál manna og er búinn að punkta niður um 30 til 40 atriði. En jeg get vel setið á þeim, því þau eru orðin þvæld til þrautar.

Jeg tek ekki til máls til að tala máli stjórnarinnar, heldur til að gera grein fyrir atkvæði mínu. En jeg get þó ekki stilt mig um að taka fram, að jeg hefi saknað eins í umræðunum, sem hefði getað orðið stjórninni til málsbóta, og það er yfirlit yfir það, sem á undan er gengið. Menn hafa ekki tekið nægilegt tillit til tímanna, sem hjer voru, áður en þessi hæstv. stjórn tók við völdum. Jeg geri nefnilega ráð fyrir, að 7 ára tímabilið, sem liðið er frá stríðsbyrjun, hafi valdið miklu af þeim vandræðum, sem eru hjer nú, en að þetta eina ár, sem þessi stjórn hefir setið að völdum, hafi ekki eitt skapað þetta ástand. Orsakirnar til vandræðanna verður áreiðanlega að rekja miklu lengra aftur. Jeg hreyfði þessu ekki til að verja stjórnina, heldur aðeins til að vekja athygli manna á því.

Aðalmálin tel jeg vera banka- og peningamálin. Aðalatriðið er því, hvernig tekst að greiða fram úr þeim. Jeg er engan veginn ánægður með aðgerðir stjórnarinnar í þeim málum. Jeg hefði óskað, að stjórnin hefði verið svo framsýn að taka lán. Framsýn stjórn hefði eflaust gert það. En við getum ekki búist við, að okkar stjórn væri framsýnni en allar aðrar, því aðrar stjórnir, í nágrannalöndum vorum, eru undir sömu syndina seldar; þær hafa ekki tekið lán. Ef við hefðum haft slíka stjórn, hefðu aðrar þjóðir öfundað okkur.

Hvað viðvíkur þessari lántöku, þá liggur í augum uppi, að veltufje bankanna er ekki nóg. Og það er ekki að búast við því. Verðfall peninganna er nú orðið ferfalt. Bankafjeð hefði orðið að aukast að sama skapi, en það hefir ekki gert það. Það vantar rekstrarfje, og það er ekki hægt að fá það nema með lántöku. Atvinnuvegirnir krefjast því, að tekið sje lán.

Það hefir upplýstst í þessari hv. deild, að stjórnin hafi nú sjeð sig um hönd í þessu máli. Mjer skildist á hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að Landsbankinn væri búinn að fá lán í Danmörku og stæði í samningum um lán í Englandi. Ef svo er, að þessar fjárupphæðir náist, lít jeg svo á, að stjórnin kannist við þörfina og hafi sjeð sig um hönd. (Fjrh. M. G.: Landsbankinn hefir tekið lánið). Já, en með aðstoð ríkissjóðs. (Fjrh. M. G.: Já, ábyrgð). Af því jeg lít svo á, að þetta sje eina málið, sem í þessu sambandi skiftir nokkru máli, og mjer hins vegar virðist stjórnin hafa sjeð að sjer og vilji nú sjá um, að við fáum nægilegt fje, þá vil jeg, áður en jeg greiði atkv., leggja fyrir stjórnina eftirfarandi spurningar, sem jeg óska að fá greinileg svör upp á nú þegar:

1. Hversu mikið er það fje, sem Landsbankinn hefir þegar fengið í Danmörku, og er í samningum um í Englandi?

2. Kæmi þetta fje jafnt að haldi viðskiftamönnum Íslandsbanka sem Landsbankans?

3. Hverjar eru horfur um hag Íslandsbanka? Á hann von á samskonar láni, eða trausti sinna fyrri erlendu viðskiftavina?

4. Álítur stjórnin þær upphæðir, sem bankamir þannig kunna að hafa trygt sjer, nægilegar?

5. Ef svo er ekki, er stjórnin þá reiðubúin að láta einskis ófreistað til viðbótarlántöku, svo mikillar, að atvinnuvegum landsins verði nægilega borgið?

Eftir þeim svörum, sem stjórnin greiðir við þessum spurningum, fer um atkvæði mitt.

Ýmislegt annað hefði mátt athuga, en það mun vera heppilegra að vera stuttorður, ef málinu á að geta orðið lokið í kvöld.

Þó get jeg ekki gengið fram hjá strandvandamálinu. Jeg býst við, að eftir eldhúsdagana um daginn, hafi stjórnin tekið sjer til inntekta það, sem þingið sagði, og muni því undirbúa það mál svo, að einhverja fasta niðurstöðu verði hægt að taka á næsta þingi.

Á eitt af því, sem hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, verð jeg að minnast. Hann sagði, að störf þingsins hefðu tafist sökum framkomu þessarar tillögu. Þetta má eigi standa ómótmælt, enda hefir hv. þm. Str. (M. P.) einnig tekið í þennan streng. Vantrauststillagan hefir aldrei komið til umtals í þeim flokki, sem jeg tilheyri, og jeg mótmæli því, að þetta mál hafi að nokkru tafið skyldustörf þingmanna.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að hann mundi greiða atkv. á móti vantraustsyfirlýsingunni á stjórnina. Jeg verð að játa, að mjer fanst þetta í fyrstu óviðkunnanlegt. En þegar jeg fór að íhuga það, sá jeg, að við þetta er ekkert athugavert. Jeg minnist þess, að þegar jeg bauð mig fram til þings 1919, þá var jeg upphaflega staðráðinn í að kjósa ekki sjálfur, og gerði eigi heldur. En fylgismenn mínir tóku mjer þetta óstint upp og spurðu mig: Hvernig getur þú búist við, að við kjósum þig, ef þú hefir ekki sjálfur traust á þjer? Sama er nú með stjórnina og þá með mig. Á þessu geta menn sjeð, hvernig þjóðin lítur á þetta mál.

Einstaka fleiri atriði hafði jeg hugsað mjer að drepa á, en jeg get látið þau liggja. En þurfi jeg að taka til máls aftur, mun jeg, ef til vill, athuga þau.