17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Sveinn Ólafsson:

Það munar lítið um einn kepp í sláturtíð, segir máltækið. Hið sama má segja hjer, þótt eytt sje fáeinum mínútum til þess að gera grein fyrir atkv. sínu.

Það stendur svo á, að hjer er búið að eyða því nær 5 dögum af dýrmætum tíma þingsins til að leita lags á að koma stjórninni frá. Því jeg lít svo á, að fyrirspurnin viðvíkjandi strandvörnunum, sem þingið eyddi þremur dögum í, hafi verið nokkurskonar forspil að vantraustsyfirlýsingu þeirri, sem nú er til umræðu, og eigi því að teljast með. Það er alt annað en ánægjulegt, að þessum tíma hefir verið varið svo — til alls ekki neins.

Alt frá æskuárum hefir sjálfstæðismál vort verið mjer stöðugt umhugsunarefni, og hefi jeg verið mjög viðkvæmur fyrir öllu, sem varpað hefir skugga á sjálfstæðisvonir þjóðar minnar. Jeg hefi tekið mjer nærri, er frændur vorir fyrir handan hafið hafa gert lítið úr hæfileika okkar til að fara með okkar eigin mál. Jeg hefi ekki staðist reiðari en ef þessir frændur vorir hafa sagt, að við mundum ekki bera gæfu til að nota okkur frelsið, þótt við fengjum það. Þegar baráttan stóð hæst í sjálfstæðismálum vorum fyrir 12 árum, var jeg sterktrúaður á það, að við værum búnir þeim hæfileikum, að við værum færir um að sjá um oss sjálfir, og fanst mjer hin mesta goðgá að mæla því í móti eða spá um það hrakspám. En þessi trú hefir síðan orðið fyrir áföllum, og hún hefir veikst því meir sem jeg hefi betur kynst starfsháttum þingsins. Þetta er mjer áhyggjuefni, því jeg vil ekki missa þessa trú. Jeg hefi þess vegna reynt að leita að ástæðunum fyrir því, að oss takast stjórnarstörfin óhöndulega, og alvöruleysis eða jafnvel ljettúðar vill þar gæta. Jeg veit ekki, hvort jeg hefi fundið þær. Niðurstaðan, sem jeg hefi komist að, er sú, að einhver helsta ástæðan sje umhverfi það og andrúmsloft, sem þingið starfar í. Jeg hefi áður sett fram þá skoðun í öðru sambandi, að þingið eigi ekki að starfa í Reykjavík, heldur einhversstaðar til sveita, t. d. fyrir austan fjall. Því jeg held, að áhrif þessa bæjar á þingið og þingstörfin sje sjeu sjerstaklega óholl. Því er svo farið í þessum unga bæ, að meira gætir skemtana, ljettúðar og sundurgerðar en góðu hófi gegnir. Menn sækja mjög örðugt leikhús og kvikmyndahús o. s. frv. þessi hneigð hefir gagntekið fólkið, svo það ætlast til að fá að sjá eitthvað svipað í þingsölunum og í leikhúsunum. Og þetta virðist hafa smitað þingið svo, að það sýnist vera farið að verja tíma sínum til að skemta þessu iðjulitla fólki með loddarahætti, líkum till. þeirri, sem hjer er rædd. En þetta á ekki við, þegar um slík störf er að ræða sem liggja nú fyrir þinginu. Jeg líki þessu, sem farið hefir hjer fram nú í tvo daga, við þessa leiki, sem fólkið er vant að sækja, og tel jeg þessi slæmu áhrif eina orsök ólagsins.

Aðra ástæðuna til þess, hvernig þingstörfin ganga, tel jeg þá, að einstakir menn hafa lagt einskonar löghald á tíma þingsins og tafið mikið störf þess. Á jeg þar sjerstaklega við einn, og þarf ekki að nafngreina hann; jeg ætla þm. sjálfum að geta sjer til um, hver hann er.

Jeg hafði búist við mergjaðri framsöguræðu og að jeg fengi greinilega skýrslu um yfirsjónir stjórnarinnar. En mig furðaði, hvað lítið var þar um feita drætti. Og mig furðaði enn meir eftir að hafa heyrt umræðurnar, því mjer virðist, sem þar hafi verið frekar sókn en vörn af hálfu stjórnarinnar.

Það er búið svo oft að svara þeim ásökunum, sem flm. till. (B. J.) kom fram með, að tilgangslaust er að gera það frekar. Því hefir verið svarað, hvers vegna stjórnin tók ekki síldarsöluna í sínar hendur. Afskiftum stjórnarinnar af kolaversluninni hefir einnig verið svarað. Svarað hefir verið um afskifti hennar af launakjörum kennara. Svarað hefir verið mörgu smávægilegu, sem flm. (B. J.) nefndi, en hefir enga þýðingu. Einnig hefir ásökunum út af innflutningshömlunum verið svarað á ýmsa vegu, og að því, er mjer virðist, ljóslega.

Jeg vil geta þess, að einn hv. þm., þm. N.-Ísf. (S. St.), vildi velta allri ábyrgðinni af þeim ráðstöfunum af stjórninni yfir á þingið. Jeg get ekki verið honum sammála um, að þetta sje rjett, þótt jeg annars sje honum sammála um margt. þingið ber þar ekki eitt ábyrgðina. Fyrst og fremst voru heimildarlögin frá 8. mars 1920 frá stjórninni runnin. Því næst hefir stjórnin ekki notað þau eins höndulega og skyldi. Jeg finn ástæðu til að átelja framkvæmd hennar á þeim, ekki það, að hún takmarkaði innflutning, heldur hitt, að hún reisti ekki skorður við okri því, sem af hömlunum leiddi á einstökum vörutegundum, með hámarksverði. Verðlagsnefndin náði ekki nema til Reykjavíkur. Einstakir menn hafa því okrað á fágætari vörunum og pínt fje út úr almenningi. Þetta tel jeg ámælisvert hjá stjórninni. Henni var innan handar að taka þetta fastari tökum. En þetta er ekki nein dauðasök, því að reynslan þurfti að skera úr, og nú er hún fengin.

Auðvitað eignumst við aldrei þá stjórn, sem ekki verður meiri og minni aðfinslum undirorpin. En þetta er eitt aðalaðfinsluefnið hjá mjer við núverandi stjórn, af því, sem hjer hefir komið fram.

Annað atriðið, sem jeg vildi minnast á, er meðferð hennar á vatnamálunum. Jeg skal reyndar viðurkenna það, að stjórnin hefir tekið rjetta stefnu með því að fylgja minni hluta fossamálanefndarinnar í eignarrjettarspurningunni um vatnsaflið. En jeg verð að segja, eins og jeg tók fram við 1. umr. vatnamálsins hjer í deild, að meðferðin er að öðru leyti hrapalleg. Stjórnin tekur þann manninn til þess að búa málið undir þetta þing, sem hafði ákveðna tilhneigingu til þess að færa stefnu minni hlutans úr skorðum og lita hana stefnu meiri hlutans, með öðrum orðum, að spjalla málið.

Það var innan handar fyrir stjórnina að fá óhlutdrægan, vel færan lögfræðing, til þess að búa málið í hendur þingsins.

Með því að hafna þessari sjálfsögðu meðferð málsins og velkja það á þann hátt, sem sagt hefir verið, hefir verið tafið fyrir framgangi þess, tíma eytt í reiptog og vakin sundrung um það að nýju.

En þótt jeg uni illa við þessa meðferð stjórnarinnar á málinu, þá vil jeg ekki gera hana að útlegðarsök. Jeg hlýt að sætta mig við þá hugsun eftirleiðis, eins og hingað til, að stjórnin verði ekki alfullkomin, og henni yfirsjáist. Jeg mun því ekki greiða atkv. með vantraustsyfirlýsingunni, því það er ekkert komið í ljós, sem sýni, að hæfari stjórn verði mynduð úr þessu þingi, eins og það er skipað. Og þótt sú stjórn fengist, sem í einhverju hefði yfirburði yfir núverandi stjórn, þá er jeg ekki trúaður á það, að hún gæti fært þær örðugu ástæður okkar, sem vikið hefir verið að í umræðunum, til betri vegar. Erfiðleikarnir liggja ekki svo mjög í athöfnum stjórnarinnar eða athafnaleysi, eins og í atburðum liðins tíma og afleiðingum af þeim, sem við verðum allir að beygja okkur fyrir.

Það hefir verið tekið fram, að eina ráðið væri að taka lán til þess að reisa atvinnuvegina við. Það er nú svo, að þegar reisa á við hnignandi atvinnuveg, þá er lántaka oft nauðsynleg. Annað mál er það, hvort lántaka sje tiltækileg til að reisa við atvinnufyrirtæki, sem óholl eru og stofnað hefir verið til af lítilli fyrirhyggju og um efni fram. Hvaðan stafar annars þessi margumrædda fjárkreppa? Hún stafar af fyrirtækjum hjer í höfuðstaðnum. Erfiðleikunum valda óholl fyrirtæki, fífldjarfar „spekúlatíónir“, sem ráðist hefir verið í hjer. Þessi fyrirtæki ætti svo ríkið að styðja með nýrri lántöku. Láta okkur hina, sem varlega höfum farið og reynt að sjá fótum okkar forráð, greiða þann halla, sem þessi fyrirtæki gætu eigi sjálf endurgreitt.

Jeg tel eigi, að gerlegt sje að fara lengra á lántökuleiðinni en komið er. Mjer skilst, að lán þau, er á okkur hvíla nú, sjeu þegar orðinn allþungur baggi, svo að ekki sje fært, nema brýn nauðsyn beri til, að halda lengra á þeirri braut.

Það hefir verið talað um, að fjárkreppa sú, er nú vofir yfir, dragi menn, sem annars, undir venjulegum kringumstæðum, mundu fullfærir um að halda fyrirtækjum sínum uppi, niður í fjárþrotafenið. Það er nú einu sinni svo, að þegar skriða fellur, þá hrífur hún með sjer, ekki einungis lausagrjót og annað, heldur og stofna, sem á leið hennar verða. Við þetta er eigi auðvelt að ráða, en rangt væri að láta allan landslýð gjalda þeirra fáu, sem vandræðunum valda.

Ástæðan fyrir þessu ástandi er ofvöxtur sá, sem hlaupið hefir í sjávarútveginn á síðustu árum, skipakaupin, sem ráðist hefir verið í fyrirhyggjulítið hjer í Reykjavík, og stórfeldur innflutningur í gróðaskyni. Að sumu leyti veldur þessu einnig fiskkaupabraskið, sem nú, meðal annars, veldur því, að Íslandsbanki hefir komist í fjárþröng.

Skal jeg svo ekki tefja lengur tímann. Jeg hefi lýst yfir því, að jeg greiði ekki vantraustsyfirlýsingunni atkv., og tel hana ekki tímabæra, meðan engin frekari gögn koma fram og aðalstefnumálunum er eigi lengra komið en nú er. Jeg felli mig við dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og brtt. hv. þm. Str. (M. P.) við hana, og mun greiða henni atkv., og er hún í samræmi við dagskrártillögu þá, er jeg ætlaði að bera hjer fram, en get nú slept að minnast á frekar.