19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil geta þess, að hvorki jeg nje þeir aðrir hv. þm., er skrifuðu undir athugasemdina í fundarbókina, hafi gert það í óvirðingarskyni við hæstv. forseta, eða viljað með því móðga hann á nokkurn hátt. En jeg áleit deildarmönnum heimilt að gera ágreining um bókun og úrskurð og skrifa þann ágreining inn í fundarbókina. (Jak. M.: Er þetta ágreiningur um bókun?). Ja, það er ágreiningur að minsta kosti um úrskurð forseta. Jeg býst við, að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hafi verið á fundum í bæjarstjórn, þar sem ágreiningur hefir orðið um bókun eða úrskurði. Má þá hver og einn skrifa sjálfur inn í bókina, hvað hann greinir á við fundarbókunina. Þannig er það að minsta kosti í bæjarstjórn Ísafjarðar. (H. K.: Hjer er enginn bæjarstjórnarfundur á Ísafirði). Veit jeg vel. En jeg tók þetta sem hliðstætt dæmi og sönnun fyrir því, að jeg taldi mig hafa heimild til að gera þessa athugasemd í fundabók þingsins.