10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal fyrst geta þess, að það er ekkert óeðlilegt við það, þótt fjrh. (M. G.) svari fyrir mig. Að því er snertir Vestmannaeyjabátinn, þá liggur hann meira undir hans verksvið heldur en mitt. Það er því algerlega óþarft, sem hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hafa sagt um það.

Jeg ætla annars ekki að fara að rekja allar þær ræður, sem haldnar hafa verið hjer í dag og undanfarna tvo daga út af fyrirspurninni. Það hefir líka farið eins og vant er við þessar heimskulegu umræður, þar sem margir taka til máls um sama efni, að margt af því, sem sagt, er ekkert annað en upptugga, en svo ýmsu blandað inn í, sem ekkert snertir málið og er eingöngu til ógagns. Jeg get þó sagt það, hv. frsm. (P. O.) til lofs, að hann hjelt sjer vel við efnið og talaði þinglega í gærdag, þótt mjer hins vegar þyki hann hafa verið fullharðorður við mig í fyrstu ræðu sinni í fyrradag.

Jeg get ekki stilt mig um að fara út í einstök atriði í ræðum nokkurra hv. þm., þó að fjármálaráðherra hafi tekið af mjer ómakið að miklu leyti.

Jeg skal fyrst víkja lítið eitt að ræðu hv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Það er einatt svo, að mönnum sýnist það nokkur vorkunn, þótt nýir þingmenn sjeu dálítið vankunnandi fyrst í stað. Hitt er annað mál, hvort rjett er að vorkenna þeim, þegar þeir hafa ekki kynt sjer málin nógu rækilega áður en á þing kemur. Það var sagt um einn þingmann, sem var kosinn á þing fyrir löngu og lítið hafði fengist við landsmál, að hann hefði fengið mann til að kenna sjer eða skýra fyrir sjer stjórnarskrána. Það var brosað að þessu, en það var honum einmitt til sóma, sýndi, að hann fann til ábyrgðar þeirrar, sem fylgir þingsetunni.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) hefði átt að fara líkt að með sambandslögin eins og þessi þingmaður með stjórnarskrána. Hv. þm. (M. J.) lýsti því mjög fagurlega, hve þjóðin hefði glaðst sjerstaklega af tvennu, sem heimilað væri í sambandslögunum, heimflutningi hæstarjettar og því, að kostur væri á fyrir oss að taka sjálfir að oss landhelgisvörnina. Það er alveg furðulegt, hvernig þessi hv. þm. (M. J.) getur gert sig sekan í þessum misskilningi, þar sem hann þó er sagður vel greindur og fróður um margt, af þeim, sem þekkja hann. Ef þessi hv. þm. vissi, hvað sambandslögin eru, þá hefði hann ekki talað svona.

Sambandslögin eru tvent: viðurkenning, yfirlýsing um, að Ísland sje fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Þetta var ekki hluti af samningi þeim, sem gerður var við Dani 1918. Það var yfir höfuð ekkert samningsatriði. þetta var grundvöllurinn undir samningnum. Það var auk heldur mikið talað um það að hafa þessa yfirlýsingu frá vorri hálfu og viðurkenningu frá Dana hálfu í sjerstöku skjali, svo ekki væri um vilst, að þetta væri ekki hluti af samningnum. En það þótti ekki þörf að halda því fast fram, að um þetta væri gert sjerstakt skjal, því það hefir tekist að setja þetta svo ljóslega fram í sambandslögunum. Að þessari viðurkenningu fenginni gerir konungsríkið Ísland og konungsríkið Danmörk, hvort af sínu fullveldi, samning um þau atriði, sem í sambandslögunum segir. Eitt af þessum atriðum er hæstirjettur. Það er alveg öfugt hjá hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) að tala um það sem heimild fyrir oss til að hafa æðsta dómstól sjálfir, heldur er það heimild fyrir hæstarjett í Kaupmannahöfn til þess að dæma íslensk mál þangað til við settum upp hæstarjett sjálfir. Jeg er annars samdóma hv. þm. (M. J.) um það, að það sje sjálfsagt, að vjer dæmum mál vor sjálfir, og jeg er þeirrar skoðunar, að hefði það mál verið fast sótt, hefðum við getað fengið því framgengt miklu fyr. Jafnvel stöðulögin gáfu það í skyn, að það væri ekki ófáanlegt af Dana hálfu. Þótt jeg sje og hafi verið sömu skoðunar um þetta atriði, þá efast jeg mjög um það, að stofnun hæstarjettar hafi verið svo mikið gleðiefni fram yfir flest annað. Það er kunnugt um marga góða og þjóðrækna Íslendinga, að þeir voru ekkert fíknir í það. Jeg skal nefna einn, sem jeg veit að hv. þm. (M. J.) viðurkennir góðan Íslending; það er Skúli Thoroddsen.

Engu síður er það herfilegur misskilningur, þegar hv. þm. (M. J.) er að tala um, að 8. gr. veiti oss heimild til strandvarna. Ef um heimild væri að ræða, þá væri það svo, að Dönum væri þetta heimilað. En hjer er ekki um heimild að ræða. Ákvæðin í 8. gr. eru kaupskapur, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir bent á. Við leyfum Dönum fiskveiðarjett í landhelgi gegn því, að þeir leggi til landhelgisvörn. Það er heimska einber að kalla það ósóma að versla þannig. Sjerstaklega fer þetta illa gömlum og nýjum sjálfstæðismönnum. Þegar sú eina og sanna og ómengaða þjóðrækni og sjálfstæði hafði völdin og sjálfstæðismenn rjeðu einir öllu á þingi hjer, þá versluðu þeir svo, og geta allir sannfært sig um þetta, ef þeir vilja hafa fyrir því að fletta upp Alþingistíðindunum 1909 og lesa sambandslagafrv. það, er þar var samþykt. Sem sagt, hjer er um kaupskap að ræða, en, eins og jeg hefi sagt, er það bein fáviska að tala um, að hjer sje verið að versla með þjóðarsómann. Eða er það nokkurt vit, að hv. þm. saki mig um það, þótt jeg reyndi að ganga eftir því sem ríkast, að Danir greiddu andvirðið að fullu, eða að tala um bónbjargir í þessu sambandi, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) gerði? Aðfinslur um aðgerðir mínar að þessu leyti eru ekkert annað en óvitahjal.

Það er næst því, að aðfinsla hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), í þá átt, að jeg hafi ekki verið nógu kröfuharður, eigi við rök að styðjast, en því miður er ekki svo. Eins og lögin eru orðuð, er þetta rjett hjá hv. þm. (J. Þ.), en því miður takmarkast þetta af athugasemdunum, sem jafnframt voru undirskrifaðar af samningsaðiljum. En í athugasemdunum stendur, að Danir sjeu eigi skyldir til frekari strandgæslu, svo að jeg, því miður, gat ekki krafist meira en svo sem 10 mánaða landhelgisgæslu með einu skipi. En aftur á móti taldi jeg rjett að krefjast betra skips en Islands Falk, því að þótt hraði þess skips sje ekki saman berandi við ferð Þórs, þá er Islands Falk þó nú orðið of ganglítill til þess að annast gæsluna hjer, vegna aukins hraða botnvörpunganna. Nú er og ætlað ganghraðara skip, Fylla, til gæslunnar af Dönum.

Þá var hv. þm. (M. J.) mjög að finna að því, að það væri verið að hengja sig í það, að lögin frá 1919 væru aðeins heimildarlög, en ekki skipun þingsins; þau væru það aðeins í forminu, en í rauninni hefði þingið 1919 ætlast til framkvæmda. Jeg vil ekki geta þess til, að hv. þm. (M. J.) fari hjer viljandi með rangt mál, en óskiljanlegt er eftirtektarleysi hans. Nú hafði jeg einmitt sagt, að jeg vildi ekki leggja áherslu á það, að lögin væru heimildarlög; það mundi sönnu næst, að þingið þá hefði ætlast til framkvæmda. Með öðrum orðum, jeg talaði um það atriði mjög ólíkt og hann. En jeg hefði, ef jeg hefði viljað, getað lagt nokkra áherslu á það. Jeg hefði getað borið það fyrir mig með fullum rökum, að það er rangt, að þingið 1919 hafi heimtað framkvæmdir þegar í stað. Jeg hafði, bæði í viðtali við sjávarútvegsnefndirnar og á þingfundum, tekið það fram, að þetta væri alt of stórt mál til þess, að hrapa mætti að því, og það kom til orða í hv. Nd. að afgreiða málið með þingsályktun. Um það sagði framsögumaður sjávarútvegsnefndar í Nd. svo:

„Þó að nefndir beggja deilda óski auðvitað, að þetta komist sem fyrst í framkvæmd, þá er vitanlega betra en ekki að skora á stjórnina að undirbúa málið og leggja það fyrir næsta þing. Að vísu má vera, að stjórninni þyki þetta nokkuð stuttur tími, en ef áhuginn og viljinn er nógur, eins og jeg held að sje hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), þá getur það vafalaust tekist. Jeg legg það alveg á vald hv. deildar, hvort henni finst rjettara að leiða málið til lykta með tillögu eða með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og jeg fyrir mitt leyti fellst á.“ (Alþt. 1919 B., d. 1953).

Þá má enn fremur vitna til ummæla þáverandi og núverandi hv. þm. G.-K. (B. K.). Hann segir svo:

„Mjer þykir leitt, hversu dauft hæstv. forsrh. (J. M.) tekur í þetta mál, því það liggur ekki fyrir nein skipun til stjórnarinnar um, að þetta skuli framkvæmt nú þegar. Þó að standi „skuli kaupa“, þá verður stjórnin auðvitað að hafa hæfilegan frest. Hún verður að kynna sjer, hvort hentugra muni að taka stærra eða minna skip, alveg eins og þó að samþykt væri þingsályktunartill. um, að hún skyldi undirbúa málið. — — —“.

(Alþt. 1919 B„ d. 1954–55).

Loks má svo vitna til eins hv. þm. í viðbót, sem hjer mun verða stjórninni að liði með orðum sínum, og það er hv. þm. Dala. (B. J.). Eftir honum vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa eftirfarandi ræðukafla:

„Jeg vil nú ekki, þótt sett sjeu lög um þessi efni, að framkvæmdir verði svo bráðar, að hæstv. stjórn geti ekki sjeð fótum sínum forráð. Það er engin skylda að byggja skip eða kaupa, hvernig sem á stendur og hve dýrt sem það er. Það stendur í frv., að stjórnin megi leigja skip til þessara hluta, meðan hún lætur byggja skip. Og ekki eru henni sett nein takmörk um, hve lengi megi á þessum framkvæmdum standa. Eftir því, sem hv. þm. annars líta á hlutina, munu þeir þola við, þótt gætt sje hófs og aðgætni í þessum framkvæmdum.“ (Alþt. 1919 B., d. 1960).

Jeg vona þess vegna, eftir alt þetta, að jafnvel hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) viðurkenni, að það hafi ekki verið rjett af honum að umhverfa svo ummælum mínum, sem hann gerði.

Nú ber að gæta þess, að frsm. sjávarútvegsnefndar í Nd. lýsti því fyrir hönd nefndarinnar í báðum deildum, alveg eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að það ætti að byggja, en ekki kaupa.

Hvað hefði þá stjórnin getað gert frekast og næst vilja þingsins 1919, þegar að þingi loknu? Jeg held, að það frekasta, sem heimtað gat orðið af henni, hafi verið það að fá teikningar og áætlanir um kostnað við byggingu skips, af ýmsum stærðum, og ef til vill að leigja skip. Nú hefði það verið alveg ónýtt verk, allmiklu fje kastað í sjóinn, að fara að útvega áætlanir um þetta. Á þeim hefði alls ekkert verið að byggja. Og jeg fullyrði, að Alþingi 1920 ljet sjer vel lynda, að ekki var gert frekara að, þegar það kom saman.

Þá á það að vera óverjandi, að stjórnin leigði ekki skip. Jeg held nú, satt að segja, að það hefðu verið talsverðir örðugleikar á því að fá hæfilegt skip. Mjer hefir aldrei dottið í hug, að vjer ættum að taka að oss landhelgisgæsluna á þann hátt að byrja á skipi á borð við „Þór“. Vera má nú samt, að það hefði tekist að leigja brúklegt skip, en það hefði orðið feikilega dýrt að halda því úti. Þess vegna varð jeg sannast að segja mjög feginn, þegar jeg varð þess var, að kostur var á því, frá Dana hálfu, að bæta við öðru varðskipi, og hugði jeg, að við það mætti bjargast fyrst um sinn og sleppa því að leigja skip. Og jeg varð einskis annars var en að þingið 1920 ljeti sjer það vel lynda.

Þá kemur þál. 1920. Það er síðari málsgrein till., sem stjórnin á að hafa vanrækt. Þar er ekki sagt, hvað eigi að gera, hvort heldur að kaupa eða leigja, ekki heldur í framsöguræðu hv. framsögumanns sjávarútvegsnefndar, og bendir það ekki á neinn fjarskalegan áhuga, að enginn annar en hv. framsögumaður segir eitt orð um málið hjer í deildinni, og í hv. Ed. aðeins framsögumaður fá orð. Jeg held, að rjettast sje að skilja þál. svo, að þar með vilji þingið halda málinu vakandi. Þingið 1920 hafði fengið — einnig hjá mjer — upplýsingar um möguleika til þess að kaupa skip, en sagði ekkert frekara um það mál.

Hv. framsögumaður í Nd. leggur áherslu á það, að stjórnin leiti fyrir sjer um kaup á skipi. Það hafði stjórnin gert og skýrt þinginu 1920 frá, og enn í vor athugaði jeg þetta og komst þá að raun um, að það mundi vera vinnandi vegur að kaupa brúklegt skip, en það var ekki hægt að fara að gera neinn kaupsamning; þar til náði ekki vilji þingsins.

Hv. sjávarútvegsnefnd hefir ekkert spurt mig um þetta, því þá hefði hún getað fengið nokkrar upplýsingar um það. En auðvitað eru þær upplýsingar fremur gagnslausar nú, vegna breyttra kringumstæðna.

Aðgerðaleysið á þá að vera í því fólgið, að ekki hafa legið fyrir þinginu nú kauptilboð eða leigu. Nú vil jeg biðja alla sanngjarna menn að athuga það, hvaða gagn hefði t. d. verið í kaupboði frá því í fyrravor, eða jafnvel frá fyrra ári. Ef þetta þing ætti að kaupa skip, þá er auðvitað ekkert vit í öðru en að leita kauptilboða einmitt nú, eða helst síðar á þessu ári. Að jeg ekki tali um aðgerðir á skipinu, sem sjálfsagt hefði verið að láta bíða til þessa árs. Jeg held þess vegna, að stjórninni verði enn ekki að rjettu fundið neitt til saka í þessu efni. Það er enn auðvelt að kaupa skip, ef þinginu þóknast svo, og það sjálfsagt með miklu lægra verði nú en í fyrra, en þó verður það enn þá ærið kostnaðarsamt, ásamt viðgerðinni.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði um það, að dönsku eftirlitsskipin væru skólaskip. Þetta bendir enn á ókunnugleika hv. þm. (M. J.). Þessi skip eru ekki skólaskip, — slík skip eru alt önnur, — og æfingar þær, sem á varðskipunum eru á hermönnum, koma á engan hátt í bága við landhelgisgæsluna.

Þá sagði hv. þm. (M. J.), að menn muni nú fara að stinga saman nefjum um það að koma stjórninni frá. Ójá, rjett eins og sje ekki opinbert leyndarmál, að nef ýmsra hv. þm. hafa verið límd saman, ef svo mætti segja, alveg frá þingbyrjun og fram á þennan dag, einmitt í þessu skyni. Og þó er ekki lengra komið enn þá. Og jeg get fullvissað hv. þm. (M. J.) um það, að jeg er ekkert hræddur við eldinguna, þegar hún loksins kemur úr sortanum, hverjar verkanir sem hún kann að hafa.

Svo vil jeg enn víkja stuttlega að orðum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um það, hvernig skilja eigi lögin frá 1919, í samanburði við skuldbindingu Dana. Jeg held, að það sje alveg rjettilega vakin athygli á þessu, og vil jeg því — þó að mikið sje búið að lesa hjer upp — með leyfi hæstv. forseta lesa einn kafla úr fundargerðum lögjafnaðarnefndarinnar:

„Það, sem Ísland getur krafist, er, að eitt skip sje hjer til eftirlits með fiskveiðum meginhluta ársins, um 10 mánuði, en „Islands Falk“ kemur ekki lengur að fullu haldi til eftirlits með þeim hraðskreiðu botnvörpuskipum, sem nú tíðkast.“ (Gerðabók dansk-íslensku ráðgjafarnefndarinnar, 4. ágúst 1920, bls. 6).

Jeg veit nú ekki, hvort hv. þm. Dala. (B. J.) furðar sig á því, þegar hann er að gefa mjer ráð nú, þótt mjer detti í hug orðin: „Trautt mun ek trúa þér, troll, kvað Höskollr“. Annars hefir hv. þm. (B. J.) má ske heyrt það, sem alment er sagt um ráðleggingar, að þeim, sem ráðin fær, þyki þau góð því aðeins, að þau falli saman við skoðun og fyrirætlun hans sjálfs. Hvað sem rjett kann nú að vera í þessu yfirleitt, fer þessu nokkuð á þann veg fyrir mjer um ráð hv. þm. Dala. (B. J.); ef þau koma heim við skoðun mína og fyrirætlun, þá þykja mjer ráðin góð. Annars tek jeg þau ekki til greina.

Jeg skal sem sagt aftur víkja að því, að jeg vona, að hv. þm. Dala. (B. J.), sem þykist hafa svo mikið að segja hjer á þingi, standi nú við það, sem hann sagði 1919, og var hyggilega mælt, og taki ekki hart á stjórninni, þótt hún kunni fótum sínum forráð.

Það var rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að efi sje nokkur á, hvernig skilja beri lögin frá 1919. Eftir sambandslögunum ætti að segja hreint nú, að landið taki gæsluna. En jeg tók það fram 1919, að þessi lög bæri að skoða svo, sem ræða sje um aukning. Jeg tók það fram 1919, að stjórnin myndi gera sitt til að hrinda málinu í framkvæmd á þessum grundvelli, þ. e. að auka eftirlitið.

Hv. fyrirspyrjanda, þm. Borgf. (P. O.), þarf jeg ekki miklu að svara, eða meðspyrjanda hans, hv. þm. Barð. (H. K.), og sömuleiðis ekki hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.). þeir lögðu allir aðaláhersluna á málið sjálft og framkvæmdirnar og töldu nauðsyn góðrar strandgæslu aðalatriðið.

Báðir hv. fyrirspyrjendur virtust vorkenna stjórninni skilningsleysi hennar á málinu, og afsaka með því aðgerðaleysi hennar. Þetta má nú kann ske skoða sem góðan hug til stjórnarinnar hjá þessum hv. þm., og því sjálfsagt að þakka svona ummæli. En nú vill einmitt svo til, að stjórnin hefir ekki þetta skilningsleysi sjer til afsökunar. Jeg get fullvissað hv. þm. um það, að jeg er vel kunnugur þessu máli og skil mætavel, að það er stórt og mikið nauðsynjamál. Jeg hefi verið á þeim stöðum, þar sem yfirgangur botnvörpunga hefir einna mestur orðið, bæði hjer á Faxaflóa og í Vestmannaeyjum, svo jeg þekki þetta af eigin reynd.

En sem sagt, hv. þm. verða að líta á þetta mál eins og þeim líkar sjálfum. Stjórnin er þess ekki meðvitandi, að hún hafi gert neitt það, sem víta þurfi í máli þessu. Og jeg skal bæta því við, að jeg tel það lítt mögulegt fyrir nokkra stjórn nú að leigja skip eða kaupa, sem tekið gæti til starfa á næsta ári, eins og allur fjárhagur er örðugur nú. Jeg sje ekki, að nokkur stjórn geti lofað skilyrðislaust að framkvæma þetta, eins og hv. fyrirspyrjandi (P. O.) fór þó fram á. Sje meiningin að kaupa skip nú þegar, má fara að leita sjer upplýsinga um það, og jeg skil ekki annað en hv. þm. Borgf. (P. O.) hljóti að viðurkenna, að þetta sje eina rjetta leiðin, enda heimtaði hv. þm. (P. O.) ekki meira í fyrra en að kauptilboð um strandvarnarskip lægi fyrir þinginu nú. Þetta er svo mikið fjármál, að að því má ekki hrasa, heldur verður að viðhafa alla gætni.

Fleira þarf jeg ekki að taka fram. Mjer skilst á ræðum manna, að flestir vilji, að Danir sendi hingað tvö skip. Annars skal jeg ekki fara út í skipulag landhelgisgæslunnar. Má vera, að smámótorskip væru hentug, sjerstaklega á Vestfjörðum. Auðvitað get jeg lofað hinu, að stjórnin geri alt sitt til þess að verða að vilja þings og þjóðar í máli þessu, og ráðgast þá vitanlega um framkvæmdirnar við sjávarútvegsnefndir.

Hv. þm. Dala. (B. J.) var að kvarta um það, að hann væri dauður og gæti því ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. Vildi jeg því styðja að því, að honum yrði leyft að ganga aftur og gera stutta athugasemd, í svo sem hálfa klukkustund, því jeg þykist hafa sýnt fram á það, að hann muni einna líklegastur til þess að verja gerðir stjórnarinnar í þessu efni, eftir því, sem honum hafa farist orð á undanfarandi þingum.