09.04.1921
Efri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Halldór Steinsson:

Brtt. sú, sem nú birtist á þskj. 251, er bein afleiðing af því, sem jeg sagði við 2. umr. þessa máls, og í fullu samræmi við það. Hún fer fram á, að ekki sjeu vígð hjónaefni, nema þau sanni með læknisvottorði, að þau sjeu ekki haldin af holdsveiki, flogaveiki, næmum kynsjúkdómum eða smitandi berklaveiki. Það er kunnugt, að Ísland er langt komið með að útrýma holdsveikinni, og má það því undarlegt heita, ef við nú, er við stöndum við takmarkið, förum að opna nýjar dyr, með því að leyfa holdsveikum að ganga í hjónaband. Enn sem komið er, er lítið um kynsjúkdóma; þeir hafa þó breiðst nokkuð út á síðustu og verstu árum, og það allört, Jeg er sannfærður um það, að eftir 10–20 ár verða þeir landlægir hjer, ef ekki er hafist handa og reistar skorður gegn þeim. Hjer er spor stigið í þá átt með þessari breytingartillögu. — Berklaveikin er algeng, bæði hjer og annarsstaðar, og er sú veiki, sem flest fólk drepur, bæði hjer á landi og í útlöndum. Það er nú vaknaður talsverður áhugi gegn útbreiðslu hennar og til að útrýma henni. Þar til dæmis má nefna milliþinganefnd þá, sem skipuð hefir verið. Árangurinn af starfi nefndarinnar er sá, að hún hefir lagt fyrir þingið frv. til laga um útrýming berkla. Þegar nú að komið er á þennan rekspöl, þá er það hvöt til að setja þetta atriði í hjúskaparlögin, til þess að styðja að útrýmingunni. Þess er og að gæta, að við megum ekki einskorða okkur við núlifandi kynslóð: við verðum að byggja upp og hugsa fyrir börnunum. Á það verðum við að leggja aðaláhersluna, þegar um útrýmingu berklaveikiunar er að ræða. Ef þeim, sem ganga með opna berkla, er leyft að giftast og auka kyn sitt og vera návistum við börnin, þá er það besta leiðin til að útbreiða veikina. Háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) sagði, að nefndinni hefði þótt það hart fyrir hjónaefni að þurfa að láta lækni skoða sig, og verða að leggja fram vottorð, er sannaði heilbrigði þeirra. En jeg held, að nefndin hafi ekki athugað þetta nákvæmlega, því, hvort veit hún ekki, að hvert einasta mannsbarn verður að leggja sig undir læknisskoðun. Allir í barnaskólum, kvennaskólum, Mentaskólanum, Verslunarskólanum o. s. frv., alt frá þeim lægsta til hins æðsta skóla. Og er það þá nokkuð meira, þó að hjónaefni þurfi að fá vottorð hjá lækni? Þetta er í fullu samræmi við gildandi löggjöf í heilbrigðismálum. Jeg geri það að engu kappsmáli, hvort tillagan er borin upp í einu eða tvennu lagi, en jeg álít, að þeir, sem fylgja fyrri hlutanum, hljóti einnig að vera meðmæltir þeim síðari, og muni því samþ. tillöguna í heild sinni. Ef sjúkum mönum er bannað að giftast, þá er það áríðandi, að þeir leggi fram vottorð því til sönnunar, að þeir sjeu heilbrigðir. Því að hver á annars að sjá hvort þeir eru sjúkir eða heilbrigðir? Ekki er prestinum fært að sjá það. Ákvæðið er algerlega þýðingarlaust. ef ekki fylgir vottorð.