06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

6. mál, einkasala á tóbaki

Gunnar Sigurðsson:

Jeg gat um það við 2. umr. þessa máls, að jeg áliti, að rjett væri að bera þetta mál undir kjósendur, því að svo framarlega, sem það á við um nokkurt mál, þá á það við um þetta, þar sem um alveg nýja stefnu í löggjöfinni er að ræða.

Það er alt öðru máli að gegna, þó að landsstjórninni hafi verið gefin heimild til einkasölu á steinolíu. Þá var það, eins og menn vita, gert til þess að hamla á móti hring, og er slíkt rjett og sjálfsagt.

Við höfum líka haft fordæmi á þessu þingi, með kornvörufrumvarpið, þar sem Ed. vísaði því til umsagnar sýslunefnda, og við það hafa allir getað unað. Hvort sem það er afgreitt á þann hátt. eða eins og dagskráin fer fram á. skiftir eigi máli.

Mig furðar á því, að þeir sem hafa andmælt tóbakssölunni. skuli ekki hafa tekið fram, hvaða vandkvæðum það er bundið að geyma vindla og vindlinga. Þeir mega ekki vera í raka, þá mygla þeir, og ekki í of miklum hita, þá skrælna þeir.

Jeg vildi gera þá fyrirspurn til stjórnarinnar. hvort hún hafi gert nokkra ráðstöfun til að fá húsnæði, eða hvort hún ætlar í þessari dýrtíð að byggja eða leigja hús.

Svo er annað, sem er þessu samfara, að það er óhugsandi, að þessi verslun sje í höndum annars manns en þess, sem hefir haft langa og varanlega æfingu í meðferð þessarar vörutegundar.

Jeg hafði við 2. umr. hugsað mjer að bera fram rökstudda dagskrá í þessu máli, en bar hana ekki fram, af því, að jeg taldi víst, að frv. mundi falla, en úr því að þessi dagskrá hefir komið fram, mun jeg greiða atkvæði með henni, og vil ráða öðrum háttv. deildarmönnum að gera það líka. hvort sem þeir eru með tóbakseinkasölu eða ekki.