06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

6. mál, einkasala á tóbaki

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla að eins að svara hæstv. fjrh. (M. G.) örfáum orðum. Hann lofaði mjer og öðrum ómygluðum vindlum, en jeg efast um, að hann geti staðið við það loforð. Aðalatriðið er, hvort hugsað hafi verið fyrir góðu húsnæði, og er mikið undir því komið, hvort þessi tilhögun getur talist viturleg eða ekki. Eins og jeg tók fram áður, þarf að vera vist hitastig á tóbakinu, því að það þornar, ef hitinn er of mikill, myglar, ef hann er of lítill og raki kemst að því. Jeg er hræddur um, að slíkt húsnæði, sem yrði að vera með miðstöðvarhitun, fáist varla nema með afarkostnaði.

Jeg lagði það til, að málinu yrði frestað, fyrst af því, að það er ekki undirbúið sem skyldi, og í öðru lagi af því, að þetta er mikilsvert mál, ný stefna er hafin, og þjóðinni hefir ekki gefist tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins.