03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

47. mál, tollalög

Jakob Möller:

Jeg er einn í tölu þeirra ólánsömu þm., sem vilja mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga. Jeg veit, að það er vanþakklátt verk að mæla með tollum. En eins og tekið er fram í nál. fjhn., þá verður hjer fyrst að líta á fjárskort ríkissjóðs. Og þrátt fyrir öll þau hjartnæmu orð, sem fallið hafa um ranglæti kaffitollsins og meðferðina á fátæklingunum, þá finst mjer upphæð sú, sem frv. tekur af landsmönnum, ekki eins gífurleg og látið er. Skattur þessi verður sem svarar 15 kr. á meðalheimili á ári. Það er að vísu „líka peningar“, en á seinni tímum hafa menn vanist háum tölum, og mun því varla blöskra þetta. Það mætti t. d. nefna það, að ekki alls fyrir löngu var lagður 15,000 kr. inuflutningstollur á trollara, og blöskraði þó víst fáum. Það væri því undarlegt, ef mönnum blöskraði þessi hækkun, sem hjer er farið fram á.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) taldi alla tolla rangláta. Jeg væri því sammála, ef þeir væru eina tekjuleiðin, sem notuð væri fyrir ríkissjóð. En svo er ekki. Þeir eru notaðir ásamt beinum sköttum, og ganga því í áttina til niðurjöfnunar eftir efnum og ástæðum. Í þessu sambandi skal jeg benda á það, að einmitt beinu skattarnir eru miklu tilfinnanlegri á lágum tekjum en tollar, og jeg mun því verða því fylgjandi, að t. d. tekjuskatturinn af lægstu tekjunum verði lægri en ráðgert er í tekjuskattsfrv., en aftur hækkaður meira á hækkandi tekjum.

Jeg ætla ekki að orðlengja um þetta að svo stöddu. En út af fyrirspurn háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) skal jeg taka það fram, að jeg vakti einmitt athygli á því í fjárhagsnefnd, að varlegra mundi að fresta þessu máli, þar til sjeð yrði hver afdrif tóbakseinkasölufrv. yrðu. Aðrir nefndarmenn töldu ekki fært að hækka tóbakstollinn meira, hvað sem um einkasöluna yrði, en jeg býst við, að hæstv. stjórn geti haft auga með þessu frv., jafnvel þó að það fari út úr þessari deild áður en forlög einkasölufrv. eru ráðin, svo að ekki verði þar með lokuð sú leið að hækka tóbakstollinn meira, ef illa skyldi fara fyrir einkasölufrv.