05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

47. mál, tollalög

Jón Þorláksson:

Þegar jeg beindi þeirri fyrirspurn til háttv. fjhn. við 2. umr. þessa máls, hvort hún hefði tekið afstöðu til einkasölufrv., kom mjer ekki annað til hugar en að þetta frv. fengi hægan gang til 3. umr., og kæmi þangað ekki fyr en einkasölufrv. væri búið að ganga í gegn um tvær umr. Til frekari árjettingar drap jeg á það við hæstv. fjrh. (M. G.), að lokinni 2.umr., að hann fengi því komið í framkvæmd, að málinu yrði frestað eins mikið og jeg áleit nauðsynlegt. Þetta hefir ekki orðið, og þá er að taka því og afleiðingum þess. Jeg hefi aldrei gert þá kröfu, að öll frv. kæmu fyrir deildina samtímis, en jeg verð að láta það í ljós, og jeg vona að mjer fyrirgefist það, þótt jeg sje nýr þm., að jeg tel það engin vinnubrögð, þegar tvö frv. eru á ferðinni, sem eru eins nátengd hvort öðru og þessi frumvörp eru, að afgreiða annað frv. til Ed. meðan hitt er ókomið til 2. umr. Og jeg vona, að hæstv. forseti sýni þá sanngirni, að taka þetta mál út af dagskrá og geyma það, þar til einkasölufrv. er búið að ganga í gegnum 2. umr.

Háttv. frsm. (J. A. J.) segist ekki geta fallist á þessa frestun, vegna þess að hann sje á móti því, að tóbakstollur verði hækkaður, þó að einkasölufrv. verði felt. Jeg get ekki átalið hann, þó að hann hafi sína skoðun á þessu máli, en jeg geri þá kröfu til hans, eins og allra annara háttv. þm., að hann skilji, að aðrir geta haft aðra skoðun á því máli, og það er ekki rjett að binda þá fyrirfram, eins og farið er fram á, ef frv. á að ganga til atkv. í dag. Það er ekki svo að skilja að tóbakstollurinn sje stærsta atriðið í þessu máli, þó að stjórnin geri ráð fyrir því í aths. sínum við einkasölufrv., að tóbaksverslunin muni gefa af sjer um 200 þús. kr., án frádráttar, eða um eða yfir 150 þús. kr. nettó. En af áfengi er ætlað um 400 þús. kr., án frádráttar, eða um eða yfir 350 þús. kr. í hreinan ágóða. Báðar þessar vörutegundir eiga að gefa af sjer um 1/2 milj. kr. tekjur, og þar af verða yfir af áfengi. Nú er það öllum vitanlegt, að einkasala á áfengi mætir mikilli mótspyrnu, hvað sem um tóbakið verður. En hæstv. fjrh. (M. G.) hefir gert grein fyrir því, að það verð, sem nú er sett af því opinbera á einn líter af vínanda, sje 15–16 kr., en lyfsalana kosti hann ekki nema 6 kr. með tolli. Það er farið fram á 1 kr. hækkun á tollinum, og kostar þá lítrinn 7 kr. Er nokkur meining í því. ef frv. um einkasölu á áfengi verður felt, að hækka tollinn að eins um 1 kr., eða láta lyfsalana setja vínanda úr 7 kr. upp í 16 kr.? Er þess vegna nokkur meining í því að samþykkja þetta frv., meðan ekki er útsjeð um einkasölufrv.? Ef það verður felt, verður að hækka áfengistollinn, en sú leið verður lokuð, ef hann verður samþyktur eins og hann er í þessu frv. Jeg vona, að menn sjái nú, hversu náið samband er á milli þessara frv., og sjái þess vegna nauðsynina á því að fresta þessari umr.

Jeg get bætt því við, að jeg lofaði hæstv. fjrh. (M. G.) því við 1. umr. fjárlaganna, að jeg skyldi ekki verða á móti frv. um tekjuauka, án þess að benda á aðrar leiðir til að afla landinu tekna. Þetta loforð get jeg því að eins haldið, að mjer sje gert unt að halda það, vegna meðferðar málanna. Jeg verð að telja, að mjer sje gert það ókleift, ef atkv. mitt gegn t. d. tóbaks- og áfengiseinkasölu á að kosta atkv. með hækkun vörutolls eða annara tolla, sem jeg vil ekki láta hækka. En það er gert með þessu móti. Ef frv. er samþykt nú, og loku fyrir það skotið að hækka tóbaks- og áfengistoll, neyðast menn til að hækka toll á öðrum vörutegundum, sem eru ver til þess fallnar að bera háan toll. Jeg verð þess vegna að greiða atkv. á móti frv., ef atkvgr. um það fer fram í dag.

Annars gæti svo farið, að þegar á þessu þingi þyrfti að koma með aðra breytingu á þeirri sömu tolllagagrein, sem þetta frv. gerir breytingar á, en það væri bæði óeðlilegt og óhentugt.