23.04.1921
Efri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þykist ekki þurfa að vera margorður um þetta mál. Háttv. deild hlýtur að vera kunnugt um það, bæði af áliti milliþinganefndar, og eins af ferðalagi þess í gegn um háttv. Nd.

Frv. hefir tekið svo litlum breytingum, að engin þörf er að minnast hjer neitt á þær. Vona jeg nú, að háttv. Ed. geti fallist á það lítið breytt eða óbreytt, og stuðlað að því, að það nái samþ. þingsins.

Það er áríðandi, að sem fyrst komi út lög um þetta efni. Munu flestir þeirrar skoðunar, þó sumir sjeu á móti, að það nái fram að ganga þegar í stað, vegna kostnaðar þess, sem af því hlýtur að leiða. Vona jeg þó, að þeir reynist ekki fleiri hjer en svo, að frv. verði engin hætta af.

Bæði milliþinganefndin og þeir háttv. þm., sem um málið hafa fjallað í háttv. Nd., eru samdóma í því, að fyrsta og nauðsynlegasta sporið til varnar gegn útbreiðslu berklanna sje það, að vernda börnin sem allra best, því að meðal þeirra er sýkingarhættan mest, en örðugast um varnir, þar sem óvitar eiga oft hlut að máli.

Jeg vona, að frv. verði samþ. að mestu leyti eins og það er nú. Það er þannig gert, að ef breytingar yrðu gerðar á því að nokkru ráði, mundi það umhverfa frv. svo, að það yrði að miklu minni notum en til er ætlast.