31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætla ekki að fara að taka fyrir marga liði þessara brtt., en vil taka það fram, að af sömu ástæðum og hæstv. fjrh. (M. G.) býst jeg við, að mjer gangi örðugt að greiða atkv. með allmörgum af þessum brtt.

Nokkrum orðum vil jeg þó fara um uppbótina til stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum, á þskj. 129. Hv. frsm. (M. P.) sagði, að ekki sæist á framkomnum skjölum, að þörf hefði verið að losna við þann mann, og fráför hans því ekki á fullum rökum bygð. Þessi maður fór frá stöðu sinni um það leyti, sem afráðið var, að loftskeytastöðinni í Vestmannaeyjum væri á þessu ári komið á laggirnar. Hann var þá alls ekki fær um að taka hana að sjer, og því var annar, sem til þess var fær, settur í hans stað. Auk þess skal jeg geta þess, að talsverð óánægja hafði verið með manninn, og hefir það auðvitað átt sinn þátt í því, að hann færi, þótt hitt gerði útslagið. Þegar Petersen kom til stjórnarinnar með sínar kvartanir, þá var hann fyrir löngu farinn frá með samkomulagi, og hús hans keypt af honum. Stjórnin áleit því, að það væri ekki nein skylda hennar að sinna kvörtunum hans. Hins vegar vildi hún ekki hamla honum frá að skjóta máli sínu til Alþingi. Það, að atvinnumáladeildin hefir gefið honum þau meðmæli, sem fylgja skjölum hans, er sprottið af því, að kjör hans virðast hafa verið svo undanfarið, að sanngjarnt mundi að bæta honum upp með einhverri sanngjarnri upphæð, sem henni þótti þó nóg, að næmi 5000 kr.

Annað atriði, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um, er það, sem háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) mintist á, samningar stjórnarinnar við „Suðurland“ í nóv. í vetur. Þegar kom að því, að semja átti áætlun fyrir Sterling, þá var auðvitað auðsætt, að Sterling mundi ekki nægja til strandferðanna. Nú var tæplega hægt að gera ráð fyrir öðrum skipum til strandferða en þeim sömu, Sterling og Suðurlandi, en nauðsynlegt að ráða málinu til úrslita áður en áætlanir Sterlings yrðu gerðar fyrir næsta ár. Suðurland stóð til boða, en eigendur þess vildu sem fyrst fá svar upp á það, hvort stjórnin vildi nota það eða ekki. Þá var ekki sjeð, að kol mundu lækka í verði neitt líkt því, sem raun er á orðin, en stjórnin hins vegar sá nauðsyn þess að hafa fastar ferðir til Vestfjarða og suður með landi, þá var samningurinn gerður um þetta leyti, slíkur sem hann nú er.

Þá kem jeg að brtt. minni á þskj. 138, um að landsstjórninni heimilist að láta virkja og starfrækja á ríkiskostnað silfurbergsnámuna í Helgustaðafjalli. Þessi brtt. er í fullu samræmi við fjvn. Jeg held, að jeg hafi áður minst á það, að stjórnin rjeðist í að taka í sína þjónustu námufræðing Helga Eiríksson. Og það er eftir rannsókn hans á þessum stað og till. hans um rekstur námunnar, að þessi till. er komin fram. Stofnkostnaður er áætlaður 70 þús. kr. Mestur hluti kostnaðarins fer í það að grafa göng inn í námuna, því að öll vinsla verður ljettari og notadrýgri við það, auk þess, sem það beinlínis spillir henni, ef borað er ofan í hana eftir gömlu aðferðinni. Stofnkostnaðurinn á því að vinnast upp á rekstri hennar. Og eftir upplýsingum þeim, sem jeg hefi getað aflað mjer um eftirspurn eftir silfurbergi, og hvað við mundum geta selt árlega, þá ætti þetta fyrirtaki að geta borgað sig á heldur fáum árum. En þessu máli þarf að hraða, því að ef dráttur verður á því, að silfurberg komist á markaðinn. Þá er nokkur hætta á, að menn fari að nota önnur efni, og að þetta góða silfurberg falli þá í verði. Jeg þorði ekki að fara fram á, að stofnfje væri veitt beint úr landssjóði, heldur, að fengið væri lán, sem svo náman borgaði smátt og smátt.