31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Jónsson:

Hv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) hefir talað fyrir hönd nefndarinnar um till. þær, sem hún ber fram. Virtist mjer að vísu, sem það hefði orðið að samkomulagi, að eigi yrðu greidd atkvæði um þessar till. fyr en við 3. umr. En sökum þess, að jeg og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) eigum hjer 1 brtt., þá vildi jeg leyfa mjer að fara um hana nokkrum orðum. Jeg verð að líta svo á, að það hafi verið fyrir ókunnugleika eða vangá hv. samgmn., að hún leggur það til, að styrkur til bátaferða á Austfjörðum falli niður. Er þó þetta alleinkennilegt, þar sem 2 hv. nefndarmenn eru Austfirðingar, og ætti þeim að vera það vel kunnugt, að bátaferðirnar hafa gert mikið gagn. Veit jeg að vísu, að nefndin þykist bæta mikið úr skák, með því að koma fram með tillögu um 60 þús. kr. fjárveitingu til Goðafossferða. En þessi bót, ef svo má kalla, er aðallega fyrir Norðlendingafjórðung og norðurhluta Austfjarða. En hjer er gengið inn á nýja braut, því að mjer vitanlega hefir eigi í seinni tíð verið veitt fje til millilandaferða. Áætlun Goðafoss hefi jeg eigi sjeð, en heyrt hefi jeg, að hann eigi að fara millum landa nokkrar ferðir og koma við á þeim höfnum, sem áður hafa verið vanalegir viðkomustaðir fyrir millilandaskip. Er mjer það því eigi vel ljóst, hvað nefndin hefir áunnið til samgöngubóta fyrir þessar 60 þús. kr. En langt er það frá mjer að vilja leggjast á móti þessari samgöngubót, ef hægt er að kalla þetta því nafni, en hins vil jeg krefjast, að nefndin hafi samgönguþörf allra landshluta fyrir augum og reyni að bæta úr örðugleikum þeirra í þessu efni, en í því hefir nefndinni mistekist hrapallega.

Jeg veit, að það mun verða sagt, að Suðurland eigi að verða Hornafirði hjálparhellan, en jeg hefi nú áætlun skipsins hjer við hendina, og sýnist mjer svo sem gagnið af ferðum Suðurlands til Hornafjarðar muni ef til vill verða ærið lítið. Skipið hefir fastar áætlunarferðir millum Reykjavíkur og Ísafjarðar, og ýmsra annara staða á Vestfjörðum og Breiðafirði, en neðanmáls stendur, að „eftir komu skipsins til Reykjavíkur 20. maí, 12. ágúst, 12. september og 22. okt., er áætlað, að skipið fari til Eyrarbakka, Stokkseyrar og Hornafjarðar, ef tími vinst til og sagt hefir verið til um nægilegan flutning“. Þetta eru nú allar skipaferðirnar, sem Austur-Skaftafellssýslu eru ætlaðar. Suðurland á að fara 4 sinnum, ef tími vinst til og nægilegur flutningur fæst. Er mjer alveg óskiljanlegt, að ekki hefði verið hægt að fá Suðurland til að fara þangað fastar áætlunarferðir.

Auk þessa eru ferðirnar á mjög óhentugum tíma, sjerstaklega ágústferðin. Væri miklu hagfeldara, að sú ferð væri í júnímánuði eða júlí, því í ágúst eru kaupmenn búnir að draga að sjer verslunarvörur, kauptíð um garð gengin og kominn hásláttur o. s. frv.

Enn er það, að jeg fæ ekki betur sjeð en Suðurland væri úr allri sök, enda þótt það færi aldrei austur; því gæti lagast svo á Vestfjörðum, að því þætti næg ástæða til að sleppa ferðunum austur fyrir það. Ennfremur er svo óákveðið, hvenær búast má við skipinu til Hornafjarðar. Það á að fara frá Reykjavík einhverntíma kringum 20. maí, og getur því skeikað á mörgum dögum. hvenær von er á því til Hornafjarðar, og mönnum því austur þar algerlega ókunnugt um, hvenær skipið kann að koma eða fara.

En þó að ferðir Suðurlands væru miklu betri en þær eru, þá er þó slitið alveg sundur sambandið milli Hornafjarðar og Seyðisfjarðar, og þetta eitt, út af fyrir sig, er alveg óviðunandi. Milli Hornafjarðar og Austfjarða eru mjög mikil viðskifti, sem mjög hafa aukist í seinni tíð. Austfirðingar margir hafa útgerð á Hornafirði og menn þaðan leita sjer mikið atvinnu austur á bóginn, auk þess sem skólafólk þarf að komast bæði til Eiða og Akureyrar. Er fólki þessu fyrirmunað að komast þetta, með þessu fyrirkomulagi, öðruvísi en landveg til Djúpavogs, 2–4 dagleiðir, eftir því hvar mennirnir eiga heima í sýslunni. — Þetta sýnist því eigi að neinu leyti heppileg ráðstöfun. Af þessum sökum öllum höfum við leyft okkur að koma fram með tillögu um það, að veittur verði 15 þús. kr. styrkur til bátaferða á þessu svæði. Ferðirnar, sem hægt er að fara fyrir þennan styrk, verða auðvitað eigi margar, en við förum fram á svona lítið, með það fyrir augum, að það sje þó betra en ekkert, og vonum að fá þessu fremur framgengt, er svo sanngjarnlega er af stað farið.

Það dettur auðvitað engum í hug að neita því, að fjárhagurinn sje örðugur, en alt fyrir það má síst af öllu draga úr samgöngunum, því að þær eru, að ýmsu leyti, skilyrði fyrir því, að atvinnuvegirnir geti blómgast, en undir því er aftur hagur landsmanna og ríkissjóðs kominn. Er það von mín, að þegar háttv. deild hefir kynt sjer till. okkar vel, þá muni hún fallast á þær.