13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson :

Það er rjett, sem hæstv. fjrh. (M. G.) hafði eftir mjer, að íslenskan væri mjög mikilsverð námsgrein og ætti helst að skipa æðsta sess í Mentaskólanum, en hinu hefi jeg aldrei haldið fram, að hún væri svo ýkjatímafrek, miðað við önnur erfið tungumál, — og allra síst, að það tæki eins langan tíma að leiðrjetta íslenska stíla sem latneska. Það er og mín skoðun, að það þurfi mjög góðan kennara í íslensku við þennan skóla, en hitt er ekki þar með sagt, að sá maður geti ekki, ef nauðsyn krefur, gert eitthvað annað í hjáverkum, og hefi jeg áður nefnt þar sem dæmi hinn þjóðnýta mann Jón Þorkelsson. Bera bækur þær, sem hann hefir samið, best vitni um það, hvað mikið duglegur maður getur unnið meðfram erfiðu kenslustarfi, þegar svo stendur á, að það er náskylt aðalstarfi hans, og miðar þá jafnframt að því að auðga þekkingu mannsins í sinni grein.

Hjer er annars ekkert undir komið þessari almennu reglu, sem Hæstv. fjrh. (M. G.) og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hafa verið að tala um. Það, sem hjer er um að ræða, er, hvort þessi fjárveiting sje feld burt af gilduni ástæðum. — Það er þetta, sem jeg neita þverlega. Ef maðurinn væri dáinn, er öðru máli að gegna. En nú er hann á lífi og sannað, að hann getur unnið verkið, og þá get jeg ekki sjeð, að nokkuð vit sje í því að svifta hann þeim styrk, sem hann á. Hitt er hæstv. stjórn heimilt, ef hún vill, að fara á fjörurnar við manninn og reyna að fá hann til að afsala sjer einhverju af styrknum.

Að því er snertir dæmið, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók og taldi hliðstætt þessu, þá stóð þar svo á, að það embætti var einmitt stofnað til þess að halda áfram sama starfi, sem manninum hafði verið veittur styrkurinn til. Er þetta einhver sú auðvirðilegasta röksemd, sem jeg hefi heyrt borna fram hjer í deildinni, að jafna þessu tvennu saman.

Það hefir annars farið hjer, eins og vænta mátti, að þeim gengur illa röksemdafærslan, sem hafa valið sjer hinn vonda málstaðinn. Það er vonandi, að það komi nú fram við atkvæðagreiðsluna, að deildarmenn kunni að sjá sóma þingsins. Þetta, sem hjer er um að ræða, er gerræði, sem Alþingi á með engu móti að þola.