26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg býst við, að svo verði um starf fjárveitinganefndar og þær brtt., sem hún ber nú hjer fram, að þar þyki sumum ofgert og öðrum vangert, og verður ekki um það fengist.

Áður en jeg fer út í einstakar brtt., þykir mjer vert að gera nokkra grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á fjáraukalagafrv. í meðferð þess. í háttv. Nd. hefir hækkunin numið rúmum 350 þús. kr., og eru þó ekki taldar með tvær fjárveitingar, sem ekki eru taldar í tölum. Ef þær eru taldar með, verður hækkunin sjálfsagt um 400 þús. Ennfremur er þess að gæta, að Nd. tók ekki upp eina allháa fjárveitingu, sem fjárveitinganefnd Ed. hefir ekki sjeð sjer fært annað en taka upp. Er þá komið nokkuð á fimta hundrað þúsunda.

Þá má líta á brtt. nefndarinnar í sambandi við fjárhaginn. Um það nægir að segja, að niðurfærslan frá því, sem var, þegar Nd. skildist við frv., er ekki nema um 32 þús. kr. Lengra þótti nefndinni ekki verða komist, og mun þó mörgum þykja heldur mikið skorið niður. Hækkun frá stjórnarfrv. verður því, ef brtt. nefndarinnar verða samþ., um 323 þús. kr. En um niðurskurð nefndarinnar verð jeg að benda á það, áður en jeg tek að ræða um einstakar brtt., að þar hefir nefndin eingöngu haft fjárhag landsins fyrir augum.

Jeg þykist geta verið stuttorður um einstakar brtt. nefndarinnar, því að þeirra mun flestra vera nokkuð getið í nál.

Fyrsta brtt. er um ofurlitlar launabætur til ráðherranna. Fjárveitinganefnd Nd. kom með till. í sömu átt, en hærri, og má um ástæður vísa til álits Nd.-nefndarinnar. Nefndin hefir fallist á þær. Virðist henni ekki sanngjarnt, að embættismenn skuli þurfa að gefa með sjer í embættunum, og þó er það verst, þegar svo er um ábyrgðarmestu embættin. Háttv. þingdeildarmönnum eru kunnug þau laun, er ráðherrar hafa nú, og það, að enginn eftirlaunarjettur fylgir. En upphæðin er ekki sett hærri en 2000 kr. til hvers, til samkomulags við hv. Nd.

Jeg sleppi að minnast á 2. lið og 3. lið nú. Kem að þeim síðar.

Um 3. lið b. má vísa til nál. Nefndin lítur svo á, að sanngjarnt sje að endurgreiða Neshreppi þennan kostnað, enda má líta á hann sem einn lið í sóttvarnarráðstöfunum, sem gerðar voru þá um mestalt land og nú eru veittar 90 þús. kr. til í þessum fjáraukalögum. Og munar þá ekki miklu, þótt þessar 460 kr. bætist við.

Þá er næst brtt. við tvo liði, sem fjalla um utanfararstyrki lækna. Þessir tveir höfðu sótt, og sömuleiðis dýralæknir, sem nefndin tekur upp. Nú hefir nefndin fúslega viljað verða við óskum þeirra, en þótt sanngjarnara að taka dýralæknirinn með líka. En hún hefir ekki treyst sjer til að fara eins hátt í fjárveitingunni og háttv. Nd. Vitanlega er jafnan álitamál, hve hátt skuli fara, og valda því fjárhagslegar ástæður, að nefndin vill ekki fara hærra. Hún leggur til, að Gunnlaugur Claessen fái hæstan styrk, þareð hann er í raun og veru starfsmaður ríkisins, og ferðin því í þess þágu.

Þá koma brtt. við 4. gr., og er þá fyrst a-liður í 4. brtt. nefndarinnar. Hún leggur til, að þessi styrkur falli niður, svo sem getið er í nál., vegna þess, að hjer vantar meðmæli þess, sem rjeði manninn til starfsins fyrir ákveðin laun. Nú kemur hann á eftir og biður um uppbót, og telur þá nefndin, að slíkri umsókn eigi að fylgja meðmæli þess, sem rjeði hann. Þau er nú ef til vill hægt að fá, en það er hlutverk umsækjenda, en ekki nefndarinnar.

Þá er næst endurbygging Holtavegarins. Um þennan lið er það að segja, að sýslumaður Rangárvallasýslu sótti fyrir hönd sýslunnar um styrk til viðgerðar á veginum. Viðgerðin á samkv. lögum að fara fram á kostnað sýslunnar, en umsóknin bar með sjer, að sýslan ætlaði ekkert að leggja fram. 1 fjárlagafrv. fyrir árið 1922 eru áætlaðar 25 þús. kr. til endurbyggingar vegarins, gegn þ; frá sýslunni. Á þetta er minst í umsókninni, og ekki álitið sýslunni fært að leggja fram þennan 1/3 hluta.

Eftir að nál. var samið kom símskeyti frá sýslumanni; en það ber ekki með sjer, að sýslan ætli neitt að leggja fram. Háttv. Nd. ákvað að leggja fram 7 þús. kr. á þessu ári til undirbúnings endurbyggingar vegarins, gegn þá kostnaðar frá sýslunni, en nefndin hefir engar góðar undirtektir undir það heldur, og vill því fella liðinn.

Næst eru mótorbátaferðir til kauptúnanna í Árnessýslu. Samvinnunefnd samgöngumála hefir felt þennan styrk, er Nd. samþ., og var fjvn. því milli tveggja elda, og varð loks samkomulag um að orða liðinn svo, sem hjer er lagt til.

Á liðnum um mótorbátsferðir frá Hornafirði eru aðeins gerðar orðabreytingar. Þykir rjettast, að Austur-Skaftfellingar láði öllu um styrkinn, því að þeir eiga að að búa.

Þá er komið að vitunum á Arnarnesi og Elliðaey. Nefndin hefir lagt til, að niður falli fjárveitingar til þeirra. Þetta er einn af stærstu liðunum, og ef spara á á annað borð, þá tel jeg rjett að gera það þar, sem einhverju munar. Svo eru margir vitar, bæði sunnan og austan lands, sem búið er að veita fje til af Alþingi, en hafa ekki fengist bygðir, sökum fjárskorts. Þykir fjvn. það varhugavert að fara nú að ætla sjer að endurbæta eldri vita, þegar ekki hefir verið unt að byggja þá vita, sem með lögum er búið að veita fje til. Get jeg auk þess ekki betur sjeð en að þetta komi í sama stað niður, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að stjórnin hafi mikið fje nú til framkvæmda þessum mannvirkjum.

Nefndinni kom saman um, að rjett væri að veita fje til að byggja upp Stað í Grunnavík, en annars ber þar á milli um 3000 kr. við frv. Nd. Eins og kunnugt er, brann þessi bær til kaldra kola, en var vátrygður fyrir 14 þús. kr., og er það fje til til byggingarinnar. Nú gerir biskup ráð fyrir því, að hægt verði að fá að prestakallaláni 5 þús. kr., og nægja þá 8 þús. kr. úr ríkissjóði. ef sú áætlun er rjett, að komast megi af með 27 þús. kr.

Að því er snertir næsta lið, fjárveitinguna til dyravarðar háskólans. þá hefir nefndin ekki sjeð nein skilríki frá umsækjanda, og hefir ekkert í höndum, er sanni henni, að þörf sje þessarar fjárveitingar. Lítur nefndin svo á, að þessi maður hafi sæmilegar tekjur, þar sem hann hefir nú 3800 kr. laun. þar af 1200 kr. eftirlaun frá því er hann var kennari við Mentaskólann. og auk þess ýms hlunnindi önnur, sem nú myndu kosta talsvert fje, ef kaupa þyrfti. Bæði þetta og svo hitt, að skilríki eru svo ófullnægjandi, hefir orðið til þess, að nefndin hefir felt niður þessa fjárveitingu.

Á e-lið hefir nefndin aðeins gert eina lítilvæga orðabreytingu. í till. stendur, að þessar 10 þús. kr. skuli veita mentmn, sem þóknun fyrir starf hennar, en nefndinni þykir rjettara að orða það svo, að þetta fje sje veitt til kostnaðar við starf hennar. „Þóknun“ mætti auðveldlega skilja svo, að nefndarmenn mættu fá þetta fje sjer til handa. en „til kostnaðar“ bendir fyllilega til þess, sem við er átt.

Þá er komið að þessari launaviðbót tveggja kennara við stýrimannaskólann. Þetta er ein af þeim mörgu kröfum um hækkun á dýrtíðaruppbót fyrir árið 1920, sem erfitt mun verða að sinna öllum. Hv. Nd. hefir veitt 4400 kr. til þessara manna, en fjvn. Ed. álítur sæmilega við þá gert, með því að veita þeim 3 þús. kr. báðum. Þess ber hjer að geta, að þótt launin sjeu máske fulllág, þá vissu mennirnir vel, að hverju þeir gengu, er þeir sóttu um stöðuna, og eiga því enga lagalega kröfu á því, að launin verði hækkuð. Hitt má vera, að þeir hafi sanngirniskröfu til þess, enda er umsókn þeirra tekin mikið til greina, en Alþingi verður á þessum tímum að fara varlega í að veita fje, sem hjá verður komist.

Næst er styrkurinn til rekstrar Flensborgarskólans. Árið 1920 vantaði 5450 kr. á að nægði fje það, sem honum var ætlað, í fjárlögunum eru honum veittar 15 þús. kr. og yrði það þá alls um 20 þús. kr. með því, sem við bætist hjer. Nefndinni er það fyllilega ljóst, að þessi skóli er mjög nýt stofnun, og vill því gera vel í hans garð, en hins vegar getur henni ekki dulist, að hann er ekki stofnun, sem landinu einu ber að annast. Þykir nefndinni Hafnarfjarðarkaupstaður hafi lagt helst til lítið af mörkum við þennan skóla. Því þótt skólinn komi öllu landinu að nokkrum notum, þá er hann að ekki litlu leyti unglingaskóli fyrir Hafnarfjörð. Hefir hann gert þessum kaupstað svo mikið gagn, að ekki virðist neitt ósanngjarnt að ætlast til þess, að Hafnarfjörður, sem svo lengi hefir haft skólans not, án þess að leggja fje til hans, veiti nú dálítið fje í móti þessu, sem ríkissjóður leggur til — og hefir nefndin áætlað, að upphæð þess skyldi vera 1450 krónur.

Um blindu stúlkuna skal jeg vera fáorður. Nefndin þykist þar ekki hafa fengið nægilegar upplýsingar. og leggur því til, að þessi liður falli niður. Við vitum ekki einu sinni, hvað stúlkan heitir, og virðist það hálfóviðkunnanlegt að veita fje úr ríkissjóði, án þess að vita handa hverjum það er eða til hvers því er varið. Öðru máli er að gegna, ef stjórnin síðar fær nánari upplýsingar, þá tel jeg víst, að hún hlaupi undir bagga, ef hún sjer ástæðu til, og útvegi stúlkunni einhvern hagkvæman stað erlendis.

Þá kemur næst Páll Erlingsson, sundkennari. Það er aðeins orðabreyting, sem nefndin hefir gert á þeim lið. Í frv. er þessi styrkveiting kölluð „dýrtíðaruppbót fyrir árið 1920“, en nefndin telur rjettast, úr því að maðurinn er að láta af sundkenslu, að þetta sje veitt í viðurkenningarskyni fyrir vel rækt starf. Annars gerir það vitanlega ekki svo mikið til, hvað fjárveiting þessi er skírð.

Hvað snertir þessa 2000 kr. fjárveitingu til Alþýðubókasafnsins í Reykjavík, þá leggur fjvn. til, að sá liður falli niður. Sótt hefir verið um styrk til bókasafna víðar af landinu, en Alþingi ekki sjeð sjer fært að veita. Ef slíkur styrkur er veittur í einum stað, þá verður óhægra að komast hjá að veita hann í öðrum, þar sem þörfin er jöfn, og það er vart hægt að segja, að síður sje þörf á að styrkja bókasöfn úti um landið en hjer. Það standa engir eins vel að vígi í þessu tilliti og Reykvíkingar, en hins vegar hefir það ekki minni þýðingu, að góðar bækur flytjist út um landið til að auðga þekkingu manna, — því að þekking er veldi. — Jeg held, að það sakaði ekki, þótt málið að þessu sinni væri skoðað frá almennu sjónarmiði, — en ekki eingöngu frá sjónarmiði Reykjavíkurbúa, eins og svo oft hættir við hjer.

Næsti liður er fjárveitingin til Einars Jónssonar, myndhöggvara. Á honum hefir orðið sú breyting, að í stað 2560 kr., sem Nd. hafði ákveðið honum í dýrtíðarbætur, koma 2000 kr., sem veitast honum í viðurkenningarskyni.

Þá get jeg rætt um í einu lagi 3 fjárveitingar, sem nefndin hefir lagt til að falli niður, og eru það fjárveitingar til þriggja listamanna. Svo stendur á, að í fjárlögunum er veitt tiltekið fje til listamanna, og nefnd kosin til að úthluta því. Tel jeg varasamt að breyta þessu fyrirkomulagi og fara inn á þá braut, að ekki þurfi annað en að sækja um fje til þingsins, þegar það, sem nefndin hefir til úthlutunar, þrýtur. Virðist mjer það ekki gott fyrirkomulag, að nefndin skamti fyrst sumum það, sem hún hefir, og sendi síðan meðmæli með öðrum til þingsins. Tel jeg hitt rjettara, að þessar fjárveitingar sjeu algerlega annaðhvort í höndum nefndarinnar eða þingsins. — Af þessum rökum hefir fjvn. ekki viljað verða við þessum fjárveitingum að sinni, en er hins vegar fús til að taka það til athugunar, hvort styrkveitingin til skálda og listamanna er ekki yfirleitt of lág.

Næsti liður hefir verið tekinn upp af fjvn. eftir að hann var feldur í hv. Nd. Það er styrkurinn til Jóhannesar Lynge, til orðabókarinnar. Nefndin er sömu skoðunar og háttv. fjvn. Nd., að maðurinn komist ekki af án styrksins. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að það hefir verið deilt um aðra fjárveitingu, til sonar þessa manns, sem stjórnin feldi niður, af því að hún veitti honum embætti. Stjórnin hefir verið vítt talsvert fyrir þetta í háttv. Nd., og skal jeg ekki fara neitt inn í þá deilu, en vil að eins geta þess, að mjer er fyrir hönd fjvn. falið að lýsa yfir því, að nefndin telur það ekki vítavert, að stjórnin vildi ekki borga styrkinn. Annars mun það vera dómstólamál, hvort maðurinn á kröfu til styrksins, og því gagnslaust að ræða það frekar hjer.

Þá leggur nefndin til, að niður falli 1000 kr. fjárveiting til lögfræðitímarits, sem hjer er nefnt. Þetta tímarit væri að vísu þarft, en hins vegar er ekki hægt að veita styrk til allra nytsamra tímarita, allra síst þegar svo stendur á sem nú.

Um bryggjuna á Akranesi hefi jeg fátt að segja. Það, sem nefndin fer þar fram á, er aðeins, að bryggjusmíðin fari fram undir eftirliti ríkisstjórnarinnar.

Og þá eru það bryggjurnar á Blönduósi. Áður höfðu verið veittar fjárveitingar til mjög nauðsynlegrar bryggjusmíðar norðan við Blöndu. En á síðasta fjárlagaþingi voru svo veittar 18 þús. kr. til bryggjusmíðar sunnan við Blöndu. Svo hagar til, að að nyrðri bryggjunni stendur aðallega kaupfjelag, en að þeirri syðri kaupmenn. Það er nú náttúrlega æskilegast, að hægt væri að koma báðum þessum bryggjum upp undir eins. En ef aðeins er um það að ræða að koma annari upp, þá leikur enginn vafi á því, að brýnni er nauðsynin á þeirri nyrðri. Hún er hálfeyðilögð, og ef ekki verður sem bráðast hafist handa og hún bygð upp, þá er viðbúið, að það fari, sem eftir er af henni. Nú telur nefndin varla kleift að leggja fje til beggja bryggjanna eins og stendur, og telur auk þess hjeraðið færast mikið í fang, er það hygst að koma upp báðum þessum bryggjum í senn.

Það var þetta, sem fyrir nefndinni vakti, þegar hún skaut inn þeirri brtt., að fyrst yrði lokið við nyrðri bryggjuna, áður en byrjað væri á smíð hinnar syðri.

Næst kemur fjárveitingin til Þórs þeirra Vestmannaeyinga. Eins og getið hefir verið um, hefir Nd. skilið þetta mál eftir. Hv. sjútvn. hafði farið fram á 50 þús. kr. fjárveitingu til skipsins, en háttv. fjvn. treysti sjer ekki til að ákveða hana hærri en 30 þús. kr. Eins og kunnugt er, var upphaflega veitt til þess skips 40 þús. kr., enda þótti þá mörgum sem nóg væri að gert. Á síðasta þingi kom svo fram beiðni um, að veitt væri á ný 50 þús. kr. til skipsins, og auk þess var þá farið fram á, að auk þess yrðu veittar 300 þús. kr. til rekstrar, en því ekki sint. Það, sem nú er um að ræða, er fjárveiting til rekstrar þessu skipi. Nú kemur mönnum saman um, að þetta hafi orðið nokkuð dýrt, og í fullmikið ráðist af Vestmannaeyingum, en að hins vegar eigi ekki þingið að bera ábyrgð á því, sem þar er ofgert.

En þar sem því verður samt ekki neitað, að mikið gagn hefir orðið að þessu skipi, þá telur nefndin sanngjarnt og sæmilegt, að veittar sjeu til þess 30 þús. kr.

Um styrkinn til fyrv. ráðherra Sigurðar Jónssonar vísa jeg að öllu til nál.

Þá er næsti liður, styrkur til nokkurra sjúkra embættismanna, sem hafa leitað styrks til utanfarar sjer til heilsubótar, og telur fjvn. rjett að verða við beiðni þeirra. Jeg veit, að slík útgjöld vaxa mörgum í augum, en hjer er að ræða um 3 starfsmenn þjóðarinnar, sem ekki hafa getað safnað fje, en orðið fyrir því slysi að missa heilsuna. Og jeg hygg, að þessu fje sje ekki þar með á glæ kastað, hvort sem það er skoðað frá hagfræðinnar eða mannúðarinnar sjónarmiði. Því að ef þessir menn gætu ekki bætt heilsu sína nú, mætti búast við því, að þeir yrðu tilneyddir að segja af sjer embættunum og kæmu þá þegar á eftirlaun, og yrði þá óvíst hvað sparaðist með þessu. Þannig horfir það við frá fjárhagshliðinni. Hitt er mannúðarhliðin, og hana verður hver að meta eftir því, sem hann er drengur til.

Það mun vera regla hjá góðum húsbændum að hjálpa hjúum sínum, er heilsuleysi ber að höndum. T. d. fá verslunarmenn hjá góðum verslunarhúsum, þegar svo stendur á, eins árs frí, og fá þó að halda launum sínum. Það er þess vegna ekki nein ný aðferð, sem nefndin vill hjer beita við þessa starfsmenn ríkisins, heldur alkunn og viðurkend sem sjálfsögð mannúðarskylda.

Dálitla breytingu vill nefndin gera á lánveitingunni til Guðmundar sýslumanns Björnssonar í Borgarnesi. Eftir fjáraukalagafrv. Nd. á lánsupphæðin að vera 60 þús. kr., en nefndin hefir fært hana niður í 50 þús. kr. Gerði hún þetta sökum þess, að henni þótti óvíst, að embættið gæti borið meiri byggingarkostnað. Enn fremur er þess krafist, að Borgarfjarðar- og Mýrasýsla gangi í ábyrgð fyrir láninu. Þetta ákvæði hefir nefndin sett vegna þess, að það virðist vera eina ábyrgðin, sem nokkurt gildi hefir, þar sem lánið er veitt til mjög langs tíma, 40 ára.

11. gr. vill nefndin láta fella niður. — Hún er um heimild til stjórnarinnar til að láta leggja slitlag úr efninu „Terrazzo“ á gólfin í listasafnshúsi Einars Jónssonar, í Safnahús ríkisins og aðrar opinberar byggingar, eftir þörfum. Mjer, fyrir mitt leyti, er ekki kappsmál að þessi grein verði feld niður, en meiri hluti nefndarinnar leggur það þó til. Ástæðurnar, sem eru færðar fyrir að veita stjórninni þessa heimild, eru þar, að nú í sumar kemur hingað, ef til vill, maður, sem kann til þess háttar lagningar, og þá mundi vera vel til fallið að nota tækifærið og láta leggja slitlag úr þessu efni í þessar opinberu byggingar. Jeg veit ekki, hvort hentugt muni að gera þetta nú í sumar. Það þyrfti að rannsakast. Jeg þekki ekki verðlag á efni þessu, og treystist því hvorki til að ráða frá að láta vinna þetta nú, nje ráða til þess. En ef stjórninni sýndist, eftir atvikum, rjett að láta vinna þetta, þegar maður þessi er kominn, þá ræður hún því sjálf, hvort hún vill láta hann vinna verkið upp á væntanlegt samþykki þingsins.

Þá hefi jeg gert grein fyrir brtt. nefndarinnar, sem standa á þskj. 868, en ein er þó eftir, sem ekki stendur þar. Stendur svo á því, að hún mun hafa fallið niður við prentunina, í þessari brtt. fer nefndin fram á, að Kristínu Grímsdóttur — á þskj. stendur Gísladóttur, en það er misprentun — verði veittur helmingurinn af styrk þeim, er syni hennar. Jóhannesi Helgasyni. var veittur í 62. lið 15. gr. núgildandi fjárlaga. Styrkur þessi var 2000 kr. Pilturinn, sem átti að verða styrksins aðnjótandi. varð úti áður en hann fjekk styrkinn útborgaðan. Hann var þá á leið hingað suður í þeim erindagerðum að sigla hjeðan til útlanda, en til þess hafði honum verið veittur styrkur þessi. Móðir hans var búin að leggja talsvert í kostnað til undirbúnings ferðar hans, Sökum þess hefir hún farið fram á að fá að halda styrk sonar síns. En nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að fara fram á hærri fjárveitingu en 1000 kr., og vonar hún, að deildin muni veita móðurinni, sem orðið hefir fyrir þessari þungu raun, þá upphæð.

Fáeinar aðrar brtt. eru hjer fram komnar, og um þær verð jeg að fara nokkrum orðum. Ein brtt. er frá hæstv. atvrh. (P. J.); er hún ekki annað en að tiltaka, hvað lánsfjeð til silfurbergsnámunnar í Helgustaðafjalli megi nema miklu. Við því er ekkert að segja, og felst nefndin á þá brtt. Hinum brtt. tveimur á þskj. 888 er nefndin, af eðlilegum ástæðum. mótfallin, bæði fjárhækkuninni til sjúkrahússins „Gudmanns Minde“ og aukafjárveitingunni til Jóns læknis Kristjánssonar. Hvað fyrri brtt. snertir, þá munu flestir háttv. deildarmenn kannast við, að um þessa fjárveitingu til sjúkrahússins á Akureyri urðu miklar umræður í Nd. Meiri hl. fjárveitinganefndar lagði til, að því væru veittar 20000 kr. í viðbót við þær 28 þús. kr., sem því voru veittar á fyrra ári. En læknir sá, sem sæti á í þeirri nefnd. kom fram með brtt., þar sem lagt var til, að sjúkrahúsinu væru ekki veittar nema 17 þús. kr. í viðbót. Færði hann þá ástæðu fyrir þessu, að ef sjúkrahúsinu væru veittar 40 þús. kr., þá væri það alls kostnaðar, en reglan hefir einmitt verið sú að borga 1/3 kostnaðar við byggingu sjúkrahúsa úr ríkissjóði. Af þessari ástæðu var svo samþ. í háttv. Nd., að styrkurinn skyldi vera 17 þús. kr., og nefndin í heild sinni sjer ekki ástæða til að rjála við því, sem þar var gert.

Á hina brtt. hefi jeg þegar minst í sambandi við 3. brtt. nefndarinnar. d-lið. Nefndin treystist ekki, þegar um einstaklingastarfsemi er að ræða. þótt gagnleg sje, að leggja til mikið fje. Og þar sem vitanlegt er, að læknir þessi hefir umfangsmikið starf með höndum, sem áreiðanlega er arðvænlegt, virðist ekki ástæða til að leggja honum gjafafje til atvinnurekstrar.