26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg gat því miður ekki verið við umræðurnar í dag. Verð jeg því að fara eftir nefndarálitinu og því, sem jeg hefi heyrt í kvöld.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að því, sem háttv. 4. landsk. (G. G.) sagði um Arnarness- og Elliðaeyjarvita. Jeg held að hann hafi gert nokkuð mikið úr því, hversu þeir væru orðnir ljelegir. Jeg hygg að tillögur vitamálastjóra um endurbygging Arnarnessvitans stafi og mikið af því, að við hann eiga að verða vitavarðarskifti í vor, og hann vill því heldur fá „automat“-vita þar, því að þeir eru ódýrari í rekstri. En hins vegar leggur hann enga sjerstaka áherslu á endurbygginguna einmitt í ár. Það er satt, að Elliðaeyjarvitinn er orðinn gamall og á eftir tímanum, en það yrði nokkuð dýrt fyrir ríkið, ef svo ætti að fylgjast með tímanum að byggja altaf nýtt, þegar eitthvað væri farið að verða á eftir tímanum. Það er satt, að vitamálastjóri vill fá þennan vita bygðan, en jeg hygg, að það stafi mikið af því, að hann vill hafa tvo vita til að byggja í einu á Vestfjörðum, því að það gerir kostnaðinn hlutfallslega minni.

Mjer er það áhugamál, að þessir vitar falli niður í ár. Því að annars mun naumast verða hjá því komist að byggja 4 vita á Austfjörðum þetta ár, því að Austfirðingar yrðu óánægðir, ef aðrir nýir vitar yrðu bygðir á undan vitunum þar, og væri þetta að vonum, þar sem Anstfjarðavitarnir áttu að byggjast á fyrra ári, en er nú frestað til 1922.

Jeg veit ekki, hvað hv. frsm. (S. H. K.) sagði um dýrtíðaruppbótina handa Jóhannesi L. L. Jóhannssyni, en í nefndarálitinu stendur: „Nefndin er sammála fjárveitinganefnd neðri deildar um styrkþörf Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, og hefir því tekið upp fjárveitingu til hans.“ Jeg ber ekki á móti þörfinni á styrkveitingu til hans, en jeg vildi láta veita honum styrk af þeirri upphæð, sem veita átti syni hans, Jakobi Smára, til samningar hinnar íslensku orðabókar, og fyrir þá sök var jeg á móti því, að upphæð þessi til hans væri tekin upp í fjáraukalögin.

Jeg vildi vita, hvort deildin lítur eigi svo á, að rjett hafi verið að hætta greiðslu á þessum styrk til Smára, þegar búið var að setja hann í íslenskukennaraembættið við hinn almenna mentaskóla; því að vitanlega er það starf svo umfangsmikið, að tæplega er hægt að hugsa sjer, að nokkur maður geti annað öllu meira verki.

Jeg skal taka það fram, að jeg er þakklátur háttv. fjárveitinganefnd fyrir það, að hún hefir gert alvarlegar tilraunir til þess að reyna að draga úr útgjöldunum, því að það er bráðnauðsynlegt.

Jeg er sammála háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) um það, að bráðnauðsynlegt sje að láta ekki verða halla á landsbúskapnum árlega. Og sje það ekki hægt með öðru móti, þá verður það að gerast á þann hátt að fella burtu liði, þó nauðsynlegir sjeu. Þetta ætlar stjórnin að gera í sumar, að svo miklu leyti sem hún getur, þó það sje auðvitað eins og hann sagði, að það sje hægara að tala það en framkvæma.

Þá spurði sami háttv. þm. (S. E.), hvort 200 þús. kr. mundu nægja til konungskomunnar. Þetta er að vísu áætlunarupphæð, sem jeg því miður get vel hugsað, að sje of lág.

Af þessari upphæð er nú þegar búið að borga út um 170 þúsundir. en það er líka búið að kaupa marga verðmæta hluti, sem verða auðvitað seldir aftur með háu verði, og er því ekki vonlaust um, að þessar 200 þúsundir hrökkvi alllangt fyrir kostnaðinum, en auðvitað verður kostnaðurinn töluvert meiri, sökum þess, að konungurinn kom ekki í fyrra og alt var búið undir komu hans þá.

Þá spurði sami háttv. þm. (S. E.) um húsið við Geysi, og sagði að óþarft hefði verið að byggja það, því að vel hefði mátt nota tjöld. Hann sagði, að mikið væri talað um þetta hús. Það getur vel verið, en ekki hefi jeg heyrt það. Þetta er mjög óvandaður skúr, sem ekki átti að standa nema nokkra daga, en svo varð að treysta það í haust, þegar svona fór, og hann varð að standa yfir veturinn, og jeg fullyrði að hann hefir ekki kostað yfir 20 þús. kr. Og eftir því sem byggingameistari álítur, ætti að vera hægt að selja efnið úr honum aftur fyrir 10 þús., því að hann er lítið naglrekinn, því að það var strax búist við að hann yrði seldur.

Það var ekki stjórnin ein, sem áleit, að nauðsynlegt væri að byggja þarna eitthvert skýli, heldur og líka forsetar þingsins, því að tæplega var hugsanlegt, að hægt væri að vera þar í tjöldum, ef slæmt yrði veður, þegar líka gert var ráð fyrir að vera þar í tvær nætur.

Út í ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E.) skal jeg ekki fara. Jeg skal aðeins geta þess, að ekkert skip nema „Beskytteren“ var fyrir norðan í sumar um síldveiðatímann til strandvarna, og var því ekki að ræða um að leigja skip í þeim tilgangi.