06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki lá þeim háttv. þm., sem þykja upphæðir í þessu frv. fullháar. Jeg ætla ekki að fárast um það nú, heldur segja örfá orð út af till. nefndarinnar um Arnarnes- og Elliðaeyjarvita.

Jeg er viss um, að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) er ókunnugur Arnarnesvitanum. Annars hefði hann ekki mælt gegn endurbyggingu hans. Jeg veit, að viti þessi getur ekki staðið 2 ár enn án stórra endurbóta, og ef hann fjelli, eða ef viðgerð yrði frestað þangað til, þá yrði hún vitanlega margfalt meiri en nú. Jeg get tekið undir það með hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að það er mesta óráð að trassa þá vita, sem fyrir eru, til þess að byggja nýja, sem aftur yrðu trassaðir, þegar viðgerða þyrfti á þeim. Ónýtir vitar eru verri en engir; þeir villa skipin og geta blátt áfram orðið til þess að stórslys hljótist af. Auk þess sem það er óhagkvæmt að fresta viðgerðinni, er það líka stórhættulegt. Mönnum hefir verið gert það ljóst, að rekstrarkostnaður sparast mikið við endurbygginguna, og hefir vitamálastjóri gert ráð fyrir um 1000 kr. sparnaði á ári. Auk þess vil jeg geta þess, að vitavörðurinn, sem nú er, hefir sagt af sjer starfinu, og verður nýr skipaður nú, ef endurbygging verður frestað. En ef endurbygging fer fram nú, verður nýr vitavörður ekki skipaður fyr en að henni lokinni, og sparast við það laun, og verða auk þess lægri, ef ekki er skipað í embættið fyr en síðar.

Þegar á alt er litið, er það óverjandi að fresta endurbyggingunni.

Þá kem jeg að Elliðaeyjarvitanum. Ef hann er ekki endurbygður, verður að koma upp leiðarljósi í Höskuldsey, og kostar það laun nýs starfsmanns, auk þess sem sjálft leiðarljósið kostar. En ef vitinn er endurbygður, þá þarf ekki að byggja leiðarljósið í Höskuldsey. Þessi viti er nú allur úr sjer genginn og ljósaáhöld ljeleg orðin. Endurbygging er því nauðsynleg, og kostnaður við hana verður aðeins helmingi meiri en kostnaður við leiðarljósið.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að hjer væri of stórri upphæð varið til endurbyggingar, og væri hún eins há og fara þyrfti til nýbyggingar vita á Austurlandi. Þetta er ekki rjett. Til endurbyggingar vitanna fara einar 45 þús. kr., en til vitanna á Austurlandi, ásamt Strætishornsvita, um 150 þús. kr. En um þetta þarf engan reipdrátt. Það verður fyrst að hlúa að því, sem fyrir er, áður en ráðist er í nýjar byggingar. Það væri ekkert vit að fresta þessum endurbyggingum, eins og á stendur.