18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

28. mál, bifreiðaskattur

Eiríkur Einarsson:

Jeg geng þess ekki dulinn, að þessi bifreiðaskattur, ef hann kemst á, muni koma afarósanngjarnlega niður. Margar þeirra bifreiða, sem nú eru notaðar hjer á landi, eru svo nauðsynleg flutninga- og farartæki, að ómaklegt er að skatta þær. En það á ekki við um þær allar. Ætti því, ef vel væri, að flokka bifreiðar betur en frv. gerir.

Þessu til skýringar skal jeg geta þess, að síðustu misserin hafa menn í sveitum fyrir austan stritast við að eignast bifreiðar til flutninga, ýmist mannflutninga eða vöruflutninga, í stað þess að þurfa að nota hesta og vagna. Með mannflutningabifreiðum sækja þeir sjálfir kaupafólk sitt, og nota þær yfirleitt í hesta stað til nauðsynlegra ferðalaga á færum leiðum, en á hleðslubifreiðum sækja þeir kaupstaðarvörur. Tekur þetta einkum til bænda í sveitum, er eiga langt í kaupstað og erfitt aðdrátta. Hafa þeir með ærnum kostnaði gert með þessu tilraun til þess að spara mannafla og hesta til ferðalaga, sem alt er orðið svo dýrt. Er slík bílaútgerð bænda síst í ávinningsskyni gerð, heldur til brýnustu nauðsynja, og verðskuldaði fremur stuðning en skatt. Hefir þessi viðleitni bænda til bifreiðaflutninga reynst mjög kostnaðarsöm, svo að sjeð er, að þeim yrði gerð hún ókleif, ef íþyngt yrði með miklum sköttum.

En þótt jeg sje því mjög mótfallinn, að slíkir aðdráttarbílar, sem jeg nefndi, verði skattaðir, mun jeg þó neyðast til þess að greiða atkvæði með frv., af þeirri ástæðu, að jeg vil ekki láta neitt tækifæri ónotað til að afla tekna til vegabóta á hinum erfiðu flutningaleiðum, og ef víst væri, að skattinum skyldi varið til þeirra umbóta, þá má mikið til vinna að fá þær, og víst er um það, að sumir bílar mættu og ættu að greiða nokkuð til samgöngubóta, þótt aðrir verðskuldi það ekki, eins og jeg tók fram.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi það vafasamt, hvort menn austan fjalls væru þess svo mjög fýsandi, að „luxus“-ferðir Reykjavíkurbifreiða legðust niður. Jeg geri ráð fyrir því, að almenningur æski ekki eftir, að þær haldi áfram. En aftur má líta á það, hvort ekki mætti leggja „luxus“-skatt á og verja honum til þess að bæta vegina, sem bifreiðarnar fara um; þá væri öðru máli að gegna, er þeir greiddu viðhaldskostnaðinn, er þannig nota vegina.

Háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) sagði, að úr því að flutningabrautir væru búnar til fyrir kerrur meðal annars, hví þá ekki skatta þær einnig? En það er eins með kerrurnar sem hesta og aðrar búsþarfir. Væri langur uppi, ef skatta ætti alt slíkt, sem almenningur notar til flutninga, og stappaði nærri því sama sem nefskatti á alla í því hjeraði, eða að minsta kosti hvern bónda. Eða hví ekki að skatta alla, sem á vegi ganga? Það væri svo sem í samræmi við þá skattastefnu, sem nú er uppi hjer á landi.

Fyrst von er um það, að skattinum verði varið til þess að bæta flutningabrautirnar, ef tryggilega verður um það búið, þá má mikið leggja í sölurnar til þeirra umbóta. Því greiði jeg atkvæði með frv., þrátt fyrir ágallana, sem ef til vill verður bætt úr.