23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Kristjánsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg hefi að segja. Jeg mun ekki ræða þær brtt., sem fram eru komnar við þennan kafla. Þær eru flestar svo vaxnar að þær gera lítið til eða frá, og mun jeg verða á móti þeim flestum. Sumar þeirra eiga að líta út sem sparnaðarviðleitni, en ekki er jeg viss um, að sú viðleitni beri þann árangur, sem til er ætlast.

Það var um formhlið fjárlaganna, sem jeg vildi segja nokkur orð. Við 1. umr. þessa frv., þegar háttv. fyrverandi fjármálaráðherra (M.G.) gaf yfirlit yfir fjárhaginn, þá kom það fram, hver feikna munur var á áætlunarupphæðunum og þeim, sem reikningsfærðar eru. Mjer virðist mikil ástæða til þess að athuga, hvort þetta gæti ekki lagast, því annars er áætlunin ekki til leiðbeiningar, heldur til þess að villa sýn.

Þá er annað atriði. Þegar blandað er saman hinum raunverulegu tekjum ríkissjóðs og þeim lánum, sem tekin eru á árinu, og þetta alt talið sem tekjur, þá stafar af því sá glundroði, sem gerir háttv. þm. erfitt að átta sig til hlítar á fjárhag landsins, en öllum almenningi víst því nær ókleift. Eins er um gjöldin. Þar þarf að halda öllum skyndilántökum sjer, og yfirleitt öllu því, sem greitt er fram yfir samningsbundnar afborganir. Jeg vildi beina því til hæstv. fjármálaráðherra (Magn.J.), hvort ekki væri hægt að hafa slíkt fjárhagsyfirlit gleggra og almenningi aðgengilegra en verið hefir.