09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (1109)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg verð að benda hv. deild á það, að vjer verðum að líta svo á, að óhætt sje að treysta hæstv. forsetum til þess að annast um hag þings og ríkissjóðs, svo að þeir hafi ekki gengið að óhæfilegum kjörum um prentun fyrir þingið. Jeg hygg, að óhætt sje að treysta því, að þeir standi á verði fyrir þingið, bæði í því og öðru. En þótt svo sje, þá getur verið eðlilegt, að prentsmiðjurnar geti nú gefið nokkurn afslátt, án þess beinlínis að tapa á verkinu. Það er svo margvíslegur rekstrarkostnaður, sem á slíkum fyrirtækjum hvílir, sem er sá sami hvort sem mikið er að gera eða lítið. Fyrir þeim kostnaði verður að sjálfsögðu að leggja nokkuð á hvert verk. Og verður þess ekki krafist, þó að um prentun fyrir það opinbera sje að ræða, að hún beri ekki að sínum hluta slíkan kostnað. En vel getur það verið tilvinnandi fyrir prentsmiðjurnar að slá af sem þeim kostnaði nemur, heldur en missa vinnuna og þurfa að segja upp mönnum sínum. Og yfirleitt er það kunnugt, að atvinnurekendur vilja vinna talsvert til að geta haldið fyrirtækjum sínum starfandi á þessum erfiðu tímum.

Um útreikning minn er það að segja, að hann er svo einkar einfaldur, að auðvelt er að átta sig á honum. Enda góð undirstaða og sumar tölurnar í nál., og mátti þá bera þær saman við það, sem jeg sagði. Og hverjum hv. þm. hefði átt að vera það auðvelt að setja upp slíkan reikning, þó að hann hefði ekki haft neitt annað en nefndarálitið fyrir sjer, og fara þó nærri því rjetta.

Jeg veit að minsta kosti, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er svo reikningsglöggur maður, að honum veitir ekki erfitt að átta sig á þessum tölum mínum. Sá hv. þm. (J. Þ.) talaði um það, að prentsmiðjurnar hefðu samtök um það að okra á prentun fyrir það opinbera, og má vera að það sje að einhverju leyti rjett, og síst skal jeg deila við hann um það, hvað átt hafi sjer stað í því efni meðan hann var í tölu prentsmiðjueigenda. En hitt er víst, að þau samtök eru nú orðið ekki sjerlega öflug, og ekki öflugri en svo, að forsetum þingsins ætti að vera auðvelt að vinna bug á þeim. Sönnun þessa er það, að í fyrra fjekk ný prentsmiðja hluttöku í prentun Alþingistíðindanna án þess þó að gera undirboð. Þá undraðist hann afsláttinn og taldi það vott þess, að gróðinn mundi mikill. Jeg skal játa það, og vitna þar um til síðustu ræðu minnar, að það mun hafa verið hægt að prenta fyrir minna en gert hefir verið, en þess ber jafnframt að gæta, að prentsmiðjurnar vilja vinna nokkuð til, svo að þær þurfi ekki að vísa mönnum úr vinnu, og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) veit það vel, að oft getur staðið svo á, að atvinnufyrirtækin kjósi heldur engan ágóða en þurfa að hætta eða draga saman seglin að mun. Hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.) talaði um það, að hagsmunir einnar stjettar ættu ekki að hafa áhrif á úrslitaúrskurði Alþingis, en þetta eru ósæmilegar getsakir, því að honum má vera það vel ljóst, að það er ekki hin fjárhagslega hlið málsins, á einn eða annan veg, sem vakir fyrir meiri hl. fjhn., heldur það, að hann telur það ekki sæmilegt að hætta að birta umræðurnar, og í raun og veru heldur ekki gerlegt til frambúðar.