28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1148)

30. mál, fjárhagsár ríkissjóðs

Þorleifur Jónsson:

Jeg var ekki við 2. umr. þessa máls, og vildi því með nokkrum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu nú. Það er ekki hægt að neita því, að það er að sumu leyti óhentugt að þurfa að semja fjárlög löngu fyrirfram. Afkoma hins líðandi árs í verslun og atvinnuvegum er óþekt og að sumu leyti ófyrirsjáanleg, þegar fjárlögin eru í smiðum, eins og hv. frsm. (J. Þ.) tekur fram í greinargerðinni. En það er nú svo, að allar áætlanir, sjerstaklega um tekjur þær, sem búist er við að greiðist, eru meira og minna spádómar. Og hvort spáð er um það nokkrum mánuðum fyr eða síðar, gerir ekki svo mikið til. Það sem mest hefir bjargað okkar fjárhag, eru varlegar tekjuáætlanir. Það var venja áður, og jeg vona að sú venja sje ekki aldauða enn, að hafa vaðið fyrir neðan sig og ætla tekjurnar ekki sjerlega hátt. Þó ýmislegt virðist mæla með því, að fjárhagsárið byrji skömmu eftir þingslit, þá virðist mjer athugavert að breyta til um það atriði. Bæði einstaklingum, stofnunum og fjelögum er venjulega þægilegast að miða sitt reikningsár við almanaksárið. Býst jeg við að þeim mörgu, sem verða að gera ríkissjóði reikningsskil ráðsmensku sinnar, væri gert óhagræði með því að miða sitt reikningsár við annan tíma en nýárið. Það eru að eins hreppsreikningar, sem nú eru miðaðir við fardagaár; hafa merin fundið meira og meira til óþæginda við það og vilja nú breyta til.

En það, sem mestu veldur, að jeg get ekki aðhylst þessa till., er það, að þá verður að færa þingtímann á enn óheppilegri tíma en nú. Sje nú gert ráð fyrir, sökum þessa nýja ákvæðis um að miða reikningsárið við 1. apríl, að þing megi ekki hefjast síðar en um miðjan janúar, þá er frá mínu sjónarmiði ekki hægt að velja verri tíma. Þeir, sem í fjarlægð búa, verða að hefja ferð sína til þings um hátíðir eða ekki síðar en um nýár. En það vita allir, hversu gott það er að vera á ferðalagi hjer á landi í háskammdeginu. Það er nógu slæmt eins og er með vetrarferðirnar, og þó er dag allmikið farið að lengja um mánaðamót janúar og febrúar, þegar þm. þurfa nú að hefja ferð sína. Jeg álít það mestu vitleysu að hafa þing á þeim tímum, sem langverstir eru fyrir ferðalög. Það er mikil heppni, að ekki skuli hafa orðið mikil slys í þessum lögboðnu vetrarferðum.

Ef brýn nauðsyn ber til þess, að fjárhagsárið byrji ekki löngu eftir þingslit, þá má taka upp gamla siðinn og halda sumarþing, sem gætu þá byrjað svo sem 1. ágúst eða svo.

Svo er enn eitt, sem kemur til greina, en það er það, að þm. heima í hjeruðum eru oft bundnir við ýms störf, sem þeir geta ekki hlaupið frá um áramót, áður en þeir hafa fengið færi á að gera ársreikninga, svo sem sýslumenn eða bæjarfógetar, kaupsýslumenn, þeir sem forstöðu veita sparisjóðum, o. fl., og er slæmt að hlaupa frá því óköruðu.

Þá er ein ástæða háttv. flm. og reyndar nefndarinnar líka, að ef þessu verði breytt, þá sjeu meiri líkur til, að ekki verði fjáraukalög. Það getur verið. En fjáraukalög eru ekki ný hjer hjá okkur. Við höfum haft þau um marga áratugi og þau hafa ekki aflagað fjárhaginn svo mikið. Ef stjórn og þing hefðu vit og vilja á því að sníða útgjöldin eftir tekjunum, þá ætti að mega vænta hins sama, þótt hafa yrði fjáraukalög. Jeg hefi litla trú á því, þótt fjárhagsárinu verði breytt, að það, út af fyrir sig, geri okkur nokkuð ríkari. Jeg sje mjer ekki fært að vera með frv. eins og það nú er úr garði gert.