23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl.J.):

Jeg get verið stuttorður, því að það vill svo vel til, að í kafla þeim, sem nú er til umræðu, er ekki nema einn liður, sem snertir mig. En það er 26. brtt. fjvn. á þskj. 117, um það, að styrkurinn til verslunarskólanna skuli falla niður. Jeg get ekki neitað því, að mjer kom það undarlega fyrir sjónir, að háttv. fjvn. skyldi fremur beinast að þessum skólum en öðrum skólum. Ástæður nefndarinnar eru þær, að nóg muni nú til af mönnum í landinu með þessari mentun. En hið sama mætti segja um ýmsa aðra skóla, t. d. stýrimannaskólann. Jeg veit ekki betur en að svo margir sjeu útskrifaðir af þeim skóla, að nóg sje í svipinn af lærðum sjómönnum í landinu. Sama má segja um kennaraskólann. Frá sjónarmiði nefndarinnar hefði verið nær að ráðast á hann þar sem hún vill einmitt nú takmarka kenslu í landinu. Í nál. fjvn. stendur, „að ekki mundi saka, þótt þessir skólar legðust niður um stund, þar til er settur væri á fót ríkisskóli í verslunarfræði á næstu árum“. En jeg hygg, að þess verði langt að bíða, eins og ástæðurnar eru nú, að þing og stjórn sjái sjer fært að setja á stofn ríkisskóla í þessum greinum. Það yrði áreiðanlega ekki á næstu árum. Jeg álít því, ef þessir skólar verða lagðir niður nú, þá verði það mikill hnekkir fyrir mentun og menningu verslunarstjettarinnar. Jeg verð því að leggja á móti því, að þessi brtt. nái fram að ganga, og vænti þess, að háttv. deild líti sömu augum á það mál.