31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (1212)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Eiríkur Einarsson:

Það er kominn svo mikill glundroði á þetta mál, síðan fyrst að fjvn. hleypti því af stokkunum, tíminn orðinn svo langur, sem það er búið að vera á ferðinni hjer í háttv. deild, að mjer finst ekki ástæðulaust, þó jeg geri nú dálitla grein fyrir atkvæði mínu.

Það var aldrei höfuðástæðan fyrir mjer, við flutning þessa máls, sparnaðarhliðin, eins og svo mörgum hefir orðið skrafdrjúgt um, heldur var það hitt, eins og jeg tók fram um daginn, að reyna að breyta fræðslukerfinu til bóta, með því að róta upp í málinu.

Jeg held því fram, og leiddi rök að því um daginn, að síðan þetta fræðslukerfi var upp tekið, hafi allri heimafræðslu stórum hrakað, einkum þó til sveita, eftir að farið var að glápa á þessa tildurbarnafræðslu með gleraugum, og ef til vill lituðum gleraugum, og alt kallað gott, sem aðfengnir kennarar og prófdómendur komu sjer saman um að segja fólkinu. Og úr því ríkissjóður styrkir almenna fræðslu í landinu, þá vil jeg heldur, að fjenu sje varið til þess að menta unglingana eftir 14 ára aldurinn, en að heimilin sjái um fræðsluna þangað til, og þau styrkt til þess, ef nauðsyn krefur.

Þetta tel jeg höfuðástæðuna, en ekki sparnaðinn, sem af þessu kann að leiða í bili. Fyrir mjer er hann aukaatriði, meðal annars vegna þess, að um sparnað í almennum fræðslumálum þjóðarinnar á ekki og getur ekki verið að ræða, á meðan þing og þjóð afnemur ekki alla mentun í landinu, og telur sparaðan eyri meira virði en skynsemi og manndóm þjóðarinnar; þar verður að enda, en ekki byrja, er til sparnaðarins kemur.

Aftur á móti er sparnaðurinn auðsær sem höfuðeinkenni, þegar litið er á brtt. á þskj. 88 og 168. Þar er hinum gamla grundvelli fræðslukerfisins í engu haggað, en reynt að spara ríkissjóði allálitlega fúlgu, með því að lækka laun kennaranna, eða yfirfæra launaskylduna á þann aðiljann, sem kenslunnar nýtur eða m. ö. o., skuldbinda sveitar- og bæjarsjóði til þess að launa kennarana, og verða þá kaupstaðirnir sjerstaklega fyrir barðinu, eins og bent hefir verið á.

Hvorugri þessari brtt. get jeg ljeð fylgi mitt. Mjer finst þær báðar jafnfráleitar.

Ef setja á kennarastjettina á með óbreyttu kenslufyrirkomulagi, þá mun hún ekki ofhaldin af þeim launum, sem hún hefir. En með brtt, er hún svelt, og þá finst mjer nokkuð langt gengið á sparnaðarbrautinni, ef Alþingi, til þess að spara ríkissjóði talsverða fúlgu, vinnur til að svelta heila stjett í landinu, er allir verða þó að játa, að hefir mikilsvert ætlunarverk, hvernig svo sem það álíst leyst af hendi.

Þá er hin hliðin, að yfirfæra kostnaðinn á kaupstaðina eða stærri þorp; það get jeg ekki sjeð, að nokkur sanngirni mæli með. Þó jeg ætlist alls ekki til, að farið sje sjerstaklega að hlaða undir kaupstaðina, þá verðum við þar að gæta hófs. Við megum ekki vera svo miklir sveitamenn, að við sjáum ekkert annað en okkur og okkar þörf. Við verðum líka að muna eftir því, að í kaupstöðunum eru börn, sem þarfnast fræðslu. Þess vegna þurfa allir að taka saman höndum um barnafræðsluna, að hún megi sem best úr höndum fara, með því fyrirkomulagi, er eigi verður hjá komist. Um það mál verður öll þjóðin að taka höndum saman og sjá um, að engum sje ofþyngt.

Að lokum eru það fáein orð út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði í gær. Jeg er honum fyllilega sammála um það, að máli þessu beri að halda utan við alla hreppapólitík. Komist hjer á magnaður reipdráttur milli sveita og kaupstaða, þá er mikil hætta á ferðum. En þar sem sami hv. þm. (J. Þ.) vjek að viðkomu kaupstaðanna og í sambandi við fólksfjölgunina gat þess, að forystan væri og hlyti að færast þangað, jafnt í þessu máli sem öðrum velferðarmálum þjóðarinnar, þá get jeg ekki verið honum sammála þar. Og meira að segja heyrðist mjer hann tala um þessa forystu sem nauðsynlega. En þar er jeg á gagnstæðri skoðun. Jeg treysti kaupstöðunum miklu síður til þess að hafa þessa forystu á hendi, og furðar mig á því, að maður eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem annars trúir á framtíð sveitanna og landbúnaðarins, skuli kasta öðru eins fram. Þetta er óþarfa uppgjafarstefna, að gera endilega ráð fyrir, að sveitirnar hljóti að draga saman seglin og geti á engan hátt rönd við reist fólksstraumnum þaðan, og að kaupstaðirnir hljóti að aukast og dafna.

Ef við hugsum þetta þannig, verðum við að leggja öll spilin á borðið. Við verðum þá að hugsa okkur, að landbúnaðurinn sje svo óviss orðinn, að bankarnir vilji á engan hátt styrkja hann með heppilegum lánum, heldur styðji þeir að húsbyggingum í Reykjavík eða öðrum kaupstöðum, þar sem fólkið vill heldur slá tjöldum sínum. Svona er hægt að hugsa sjer það, en jeg er nú svo bjartsýnn, að jeg trúi fremur að stjórn og bankar beini straumnum heim í sveitirnar með því að auka jarðrækt í landinu og með bættum samgöngum og öðrum þægindum. Það á að beina fje og atfylgi til ræktunar þeim jarðvegi, sem er bestur, og þar á maður að vænta fjölgunar og forstöðu í málum þjóðarinnar.