23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Jeg hjó eftir því hjá háttv. frsm. (B.J.), að styrkurinn til Ingibjargar Guðbrandsdóttur myndi hafa fallið niður af vangá hjá stjórninni. En svo er alls ekki. Fyrst og fremst lá engin umsókn fyrir frá henni, og í öðru lagi engin skýrsla, er sýndi, að hún hefði unnið fyrir styrknum; því að hann er veittur til þess, að hún kenni utanbæjarstúlkum ókeypis leikfimi, til þess að þær gætu svo kent úti um sveitir á eftir.

Sama máli er að gegna um styrkinn til Listvinafjelagsins. Þar lá heldur engin umsókn fyrir, og fyrir því tók stjórnin hann ekki upp. Yfirleitt finst mjer ekki von að nokkur stjórn sje svo fíkin í að bruðla út landsfje, að hún taki upp persónulegar fjárveitingar án þess að fram á það sje farið og án þess að hún viti, hvort hlutaðeigandi vill inna af hendi þær skyldur, er því fylgja. En vitaskuld vill háttv. þm. Dala. (B. J.), að stjórnin hegði sjer þannig.

Styrkurinn til Bjarna Sæmundssonar var hækkaður í fyrra, án þess að um það væri beðið. Fyrir því setti stjórnin hann niður nú, því það er næsta undarleg aðferð að veita hærri styrki en beiðendur fara fram á.

Um hækkun á styrknum til unglingaskólanna er það að segja, að jeg mun greiða atkvæði á móti honum nú, því að vel getur svo farið, að till. fjárveitinganefndar um að lækka styrkinn til barnafræðslunnar falli, og þá hefir ríkissjóður ekki annað en aukinn kostnað upp úr krafsinu, en sú var ekki tilætlunin. Þetta vona jeg, að háttv. deildarm. athugi við atkvæðagreiðsluna.

Ekki get jeg verið með því að láta dyravörð hins almenna mentaskóla fá aukinn styrk til ræstingar skólanum, því það er ætlast til, að dyraverðir við opinberar byggingar annist ræstingu þeirra að mestu leyti, þar sem þeir annars fengju kaup sitt fyrir sama sem ekkert; því að þeir hafa einnig ókeypis húsnæði, ljós og hita.

Um fjárveitinguna til ljósmyndunar skjala er það að segja, að jeg tel hana altof litla eins og fjárveitinganefnd áætlar hana, því að það segir sig sjálft, að svona lítil upphæð myndi fara mestöll í ferðakostnað til þeirra staða, þar sem ljósmynda á skjölin. Jeg tel því miklu hyggilegra að láta þessa fjárveitingu bíða svo sem 1–2 ár, en veita þá aftur töluvert meiri upphæð til þessa verks; því eins og nú horfir við, færi þessi upphæð nær því öll í ferðakostnað.

Jeg verð að hryggja háttv. 4. þm. Reykv. (M.J.) með því að lýsa því yfir, að jeg get eigi greitt atkv. með brtt. hans á þskj.131, um uppbót til prestsekkna. Mjer finst rjett, að sá liður lækki í hlutfalli við lækkun á dýrtíðaruppbót til annara.

Viðvíkjandi brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um Faust, þá verð jeg að geta þess, að jeg get eigi fylgt henni, því að jeg vil eigi vega tvisvar í sama knjerunn.

Um orðabókarstyrkinn er það að segja, að það mun þykja nauðsyn á að veita hann, af því að maður sá. er nýtur hans, var tekinn úr embætti. En það er engin ástæða til að samþykkja hinn liðinn. Mjer virðist Þórbergur Þórðarson vera kominn út á nokkuð breiða braut í orðasöfnun sinni. Jeg sje eigi t. d., hvert gagn er að því að safna allskonar skepnuheitum. Mjer kemur það vissulega ekki ókunnuglega fyrir, þó að sauður í Öræfum heiti Svartur, eða hestur í Suðursveit Sokki, hestur, sem er með hvíta fætur, einn eða fleiri, eða þá hundur þar. sem heitir Bismark. Jeg er viss um að þessa finnast dæmi í hverri sveit á landinu. En aðalatrið er, að hjer er komið út í heimsku og öfgar, sem engri átt nær að styrkja úr ríkissjóði.

Þá sagði háttv. frsm. (B.J.), að fyrv. mentamálaráðherra hefði gert þann samning við kennarann í samanburðarmálfræði við háskólann, að það embætti væri veitt til lífstíðar. Jeg hefi nú spurt um þetta og fengið það svar, að engin hæfa sje fyrir þessu.