03.04.1922
Efri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (1244)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og hæstv. forseti tók fram, þá er frv. þetta komið frá sparnaðarnefndinni og hefir nú gengið í gegnum hv. Nd.

Það hafa margir haft orð á því, að þingið væri óspart á stofnun nýrra embætta. Þingið hefir nú fundið mjög til þess, hve launabyrðin hefir vaxið óðfluga, svo nú er svo komið, að mjög stór hluti af tekjum ríkisins gengur til að launa embættis- og starfsmönnum þess. En þá er það ekki síður alþýðan, sem hefir fundið til þessa. Þannig hefir það komið ljóst fram á þingmálafundum víðsvegar á landinu, og á okkur þm. Húnv. hefir verið skorað að fylgja fram fækkun embætta, og hefir þá einkum verið litið til þessa embættis o. fl. af þeim, sem komið hefir verið á fót á síðustu þingum, sem kjósendur telja, að leggja megi niður, án þess skaði sje að, og að sömu niðurstöðu hefir hin hv. Nd. komist.

Saga þessa embættis, sem hjer er til umr., er ekki löng. Það var stofnað á þinginu 1917, með hörðu atfylgi þeirra manna, sem minst orð hafa á sjer fyrir forsjá eða gætni í fjármálum. Lítil meðmæli komu fram með embættisstofnun þessari, og þess má geta, að háskólinn lagði eigi til með stofnun þess. Stofnun embættisins var svo samþykt í þinglok, með afbrigðum frá þingsköpum og í mesta flaustri, með 1 atkv. mun. Að öðru leyti vil jeg ekki lýsa gangi þess hjer í deildinni. Ekki hefir heldur verið mikið látið af nauðsyn þessa embættis síðan, nje reynslan sýnt mikinn árangur af því, enda hefir sá maður, er í því situr, í ýms önnur horn að líta, eins og ekki er ótítt. Gagnsemi þess fyrir háskólann sjest ljóslega af því, hve örfáir nemendur hafa þar hlýtt á fyrirlestra hjá þessum prófessor.

Jeg álít óþarft að tala meira um þetta. Háttv. þm. Ed. hafa fylgst með gangi þess í Nd. Frv. þetta er eitt af þeim fáu frv. er sparnaðarnefndin hefir borið fram í Nd. og komist hafa gegnum deildina, og eru það óneitanlega meðmæli með því. Þar sem frv. þetta er borið fram af nefnd, geri jeg ekki ráð fyrir, að því verði vísað til nefndar hjer, en leyfi mjer að óska þess, að hv. deild vísi því til 2. umr., að umr. lokinni.