03.04.1922
Efri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (1249)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. þm. S.-M. (S. H. K.) vottaði það, að gálauslega hefði verið stofnað til embætta. Á það víst ekki síst við þetta embætti, og sjálfsagt fleiri. En hann áleit ilt að leggja þau niður. Jeg er alveg sammála hv. þm. (S. H. K.) um fyrra atriðið, að gálauslega hafi verið til þeirra stofnað, en reynslan sýnir, að ávalt hafa nógir verið til að mæla með þeim, og sumum finst sennilega aldrei nóg af embættum. Man jeg ekki eftir, að hann tæki annað fram.

Hæstv. forsrh. (S. E.) tók það rjettilega fram, að hann hefði verið á móti stofnun þessa embættis í fyrstu, en nú væri hann móti afnámi þess, vegna þess, að hann bjóst eins vel við því, að dómstólarnir myndu dæma manninum full laun. En um það vildi hann, sem þó er lögfræðingur, ekki segja neitt ákveðið. Það er nú auðvitað ekki fært fyrir mig að segja neitt um lögfræðishlið þessa máls, sem lögfræðingarnir deila um. En jeg hefði þó gaman af að sjá úrskurð dómstólanna um það atriði, hvort maðurinn, sem hefir embættið, getur gert fyllri kröfur en halda bið launum í 5 ár. Þetta atriði orkar tvímælis, og mjer finst, að hæstv. forsrh. (S. E.) ætti ekki að vera frv. andvígur, þar sem hann hefir lýst því yfir, að hann áliti þörf að ljetta launabyrði landsins.