03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1299)

40. mál, hæstiréttur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg er hissa á því, hversu kaldar móttökur þetta frv. hefir fengið, og jeg get tekið það fram, að jeg mun greiða því mitt atkv. Það ætti öllum að vera auðsætt, að 100 þús. þjóð má ekki haga sjer svo í öllu, sem þjóðir, er skifta miljónum. — Það er því fyllilega rjettmætt, að fela sömu mönnum fleiri störf. — Það er alt of mikið að hafa 8 færustu lögfræðingana bundna við jafnlítið starf, sem alment er sagt að hjer sje um að ræða. Og mjer er kunnugt um það, að einn prófessorinn hefir beinlínis kvartað um atvinnuleysi. Þá er það sagt, að þeir geti og eigi að gefa sig við vísindamensku, en þó er það öllum vitanlegt, að um slíkt getur eigi verið að ræða, því að vísindarit verða eigi gefin út sökum fátæktar okkar og mannfæðar.

Sú mótbára háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að frv. fari í bága við háskólalögin í því, að með frv. sje fyrirmunað, að kennarar lagadeildarinnar verði rektorar eða deildarforsetar, er ekki rjett, því að í frv. stendur „....enda komi þeir að öllu leyti í stað prófessora við háskólann.“ Hjer verður því um ekkert viðrinisástand eða neina „svo sem“ prófessora að ræða.

Tel jeg sjálfsagt, að frv. verði vísað til nefndar, og má þá fá álit rjettra hlutaðeigenda.