03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (1301)

40. mál, hæstiréttur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. þm. Dala. (B. J.) segir, að enginn maður sje slíkur afkastamaður, að hann geti gegnt þessum þrem störfum, og með þessu frv. sje þessari vísindastofnun spilt. Nú skulum við athuga málið lítið eitt nánar. Statistik hæstarjettar sýnir, að aðeins 30 mál hafa verið afgreidd þaðan á ári. (B. J.: Hve gömul er sú statistik?). Hún nær að vísu ekki yfir meira en tvö ár, en er lægri seinna árið. Með því að tala dómaranna haldist, kemur að eins eitt fag í lagadeildinni á mann, og fæ jeg ekki skilið, að það verði svo ýkjamikið verk að setja sig inn í það og taka þátt með 4 mönnum öðrum í uppkvaðning 30 dóma. Og illa mun þetta þola samanburð við t. d. störf bæjarfógetans í Reykjavík, sem kveður upp 3–400 dóma á ári. Þeirri hlið vísindastarfseminnar, sem á að miða að því að draga menn hingað til háskólans utan úr heimi, legg jeg heldur litið upp úr.

Það má vel vera, að hægt sje að fækka dómurunum niður í 3. Jeg hygg, að rjett væri að taka það líka til athugunar; að minsta kosti tel jeg nauðsynlegt, ef hægt er, að draga úr kostnaðinum við þennan dómstól. Jeg á annars bágt með að skilja, hvers vegna hv. þm. Dala. (B. J.) vill endilega fella þetta frv. strax, en þó jafnframt spyrja dómarana ráða í þessu efni. (B. J.: Jeg hefi hvorugt sagt). Jú, hvorttveggja. Það er og næsta undarlegt að halda því fram, að minni líkur verði fyrir rjettum dómum, ef dómarar kenna við háskólann. Ætli það sje verra fyrir dómarana að þrautkynnast þeim vísindum, sem þeir eiga að dæma eftir? Jeg held ekki.