13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (1403)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) sagði, að jeg mundi vera illa undir búinn að svara spurningum hans um fjárhaginn, en gerði þó ráð fyrir, að jeg mundi fá 3% (þrjá og tvo). Þetta tel jeg sæmilega einkunn, þegar hún er borin saman við það hvínandi gat, sem hann er á. Það er þó mikill munur á því eða einkunninni „illa“, en hæstv. forsrh. (S. E.) á ekki meira skilið fyrir frammistöðu sína.

Eftir þeim ummælum, sem jeg hafði hjer fyrir meiri hl. sparnaðarnefndar, er það alls ekki meining okkar að kasta neinum út á gaddinn; er það því ástæðulaus misskilningur hæstv. forsrh. (S. E.) að halda, að vil viljum það. Jeg sagði ekki, að eina ráðið til fjárhagsbóta væri jafnan það að spara, en eins og fjárhagnum er nú komið, fel jeg það bjargráð, og því, sem sparast, má verja m. a. til þess að auka framleiðsluna.

Mjer stendur á sama um það, þótt öll deildin stæði upp og reyndi að sanna það, að þetta embætti væri svo þarft, að ógerlegt og ósæmilegt væri að leggja það niður; jeg mundi þó aldrei sannfærast um það. Þó að jeg væri með stofnun þessa embættis 1914, þá skal jeg svara því einu, að þá voru uppgangsár, og mátti því leyfa sjer meira þá en nú. Nú verðum við að losna við öll þau embætti, sem við finnum óþörf.

Eftir þessa stuttu athugasemd vona jeg, að hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) játi það, að meiri hl. nefndarinnar er því meðmæltur, að hv. þm. Dala. (B. J.) fengi biðlaun, hvað sem hæstv. forsrh. (S. E.) segir.