21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (1416)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jón Þorláksson:

Hæstv. forsrh. (S. E.) hefir blandað inn í umræðurnar atriði, sem er miklu víðtækara en að það nái til þessa máls og hins næsta á eftir. Vildi jeg því ekki láta það mótmælalaust.

Hann heldur því fram, að ekki megi leggja niður embætti, nema embættismönnum þeim, sem fyrir því verða, sje sjeð fyrir framfærslu á kostnað ríkisins. Þetta hefir við engin rök að styðjast. Það hefir verið regla hingað til, að embættismenn hjeldu embættum sínum meðan þeirra er þörf og þeir hafa ekki brotið af sjer við ríkið, þannig að þeim sje vikið frá.

Hitt væri nýtt, ef ríkið þyrfti manna við til einhverra starfa, að það sje skyldugt að sjá þeim fyrir æfinlegum lífeyri, eftir að starfið er úr sögunni. Þetta nær auðvitað engri átt.

Það er ekkert tiltökumál, þó að embætti sjeu lögð niður, og hefir það hingað til þótt sjálfsagt, ef embættin hafa orðið óþörf og löggjafarvaldið ákveður sjálft þær reglur, sem það fer eftir í því. Mjer finst það ógeðfeld hugsun, að sá maður, sem kallaður er embættismaður ríkisins, hafi áunnið sjer æfinlegan framfærslurjett, nokkurskonar sveitfestu á landssjóði. Það væri vel, ef landið gæti gert svo vel við alla sína þjóna, en það ætti þá ekki einungis að gilda um embættismenn, heldur og um verkstjóra og verkamenn, sem eru í þjónustu þess, en því hefir enginn haldið fram.

Það hefir enginn haldið því fram, að þó að ríkið þurfi að leggja 10 akvegi í ár og hafi til þess 10 verkstjóra, en næsta ár leggi það 8 vegi og hafi 8 verkstjóra, að þeir 2 verkstjórar, sem það getur ekki veitt atvinnu, fái eftirlaun eða biðlaun.

Jeg vona að þetta nægi, til þess að hæstv. forsrh. (S. E.) hætti þessu skrafi um embættismenn, sem kastað sje út á gaddinn.

Fyrst jeg er staðinn upp, vildi jeg segja flm. frv. (S. St.) það, að það er dálítið ósamræmi í orðum hans og gerðum nefndarinnar. Hann lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að láta í ljósi, að hann vilji bæta þessum mönnum upp missi embættanna, en nefndin hefir hinsvegar ekki tekið nein slík ákvæði upp í frv. En það er ljóst, að ef honum er alvara í þessu, eiga slík ákvæði hvergi betur heima en í sjálfu frv. Jeg vildi benda á þetta, svo hv. sparnaðarnefnd geti athugað það fyrir 3. umr. Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi grískukenslu nauðsynlega til guðfræðináms. Jeg skal síst bera brigð á það, en jeg álít, að það sje mjög fjarri, að það sje fullkomið verk fyrir einn mann að kenna þessi undirstöðuatriði í grísku svo fáum nemendum, sem eru í guðfræðideildinni.