21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (1418)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jón Þorláksson:

Hæstv. forsrh. (S. E.) sagði, að það væru nýjar hugsanir, sem jeg væri að ryðja brautina, og að þær yrðu kannske sterkari. En þær eru alls ekki nýjar; löggjafarvaldið hefir ávalt fylgt þeirri reglu, sem jeg hefi haldið fram, og reglan er þessi: Embættismaðurinn, eða finni flokkurinn, fer fyrst á biðlaun og síðan á eftirlaun, og hinn flokkurinn, sem er miður fínn, verður að sætta sig við sömu reglur, sem aðrir atvinnurekendur alment fylgja.

Það, sem jeg er að segja, er að gera hæstv. forsrh. (S. E.) ljóst, að það eigi ekki við að vera að rífast um einstök tilfelli, hvað gera eigi sjerstökum embættismanni til góða, ef þörf þykir að leggja niður starf hans, heldur eigi að láta landslög ráða. Löggjöfin hefir þegar látið til sín taka um þessi mál, og þeir menn, sem settu þau lög, hafa ekki álitið, að embættismönnum væri kastað út á klakann, þó að embætti væri lagt niður, sem orðið var óþarft.

Annars verð jeg að líta svo á, að þeir menn, sem lært hafa jafnmikið, sjeu vígir á fleira en eitt, og geti því unnið fyrir sjer á annan hátt. Missi þeir stöðu, eiga þeir að geta skapað sjer aðra.

Þessu er þannig varið hjá öllum atvinnufyrirtækjum, að mönnum er sagt upp atvinnu, og verða þeir þá að snúa sjer að öðru og sætta sig við það. Og það er ekkert athugavert við það, þó að ríkið fylgi hinni sömu reglu.