03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (1455)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg býst við, að hv. þdm. hafi tekið eftir brtt. þeirri, er jeg hefi borið fram við frv. þetta, og stendur á þskj. 164.

Jeg skal taka það fram, að jeg er principielt á móti sameiningu kjördæma — lögsagnarumdæma, vildi jeg sagt hafa, nema tekin sjeu í heildarkerfi til ítarlegrar rannsóknar. En ef Alþingi á annað borð gengur inn á þá braut að taka einstök lögsagnarumdæmi út úr heildinni og sameina þau, þá má fullyrða, að sameining þessi liggur einna beinast við. Er það næsta auðvelt að leiða rök að því.

Fólksfjöldinn, sem hlýtur að verða hjer eitt aðalatriðið, er meiri í þessum lögsagnarumdæmum en flestum öðrum á landinu. Eyrarbakki og Stokkseyri hafa til samans 1858 íbúa og sýslurnar báðar alls 9561 mann. Skal jeg til samanburðar geta þess, að Siglufjörður hefir að eins 1153 íbúa.

Þá kemur að því atriði málsins, í hverju þessara lögsagnarumdæma sje mest festa.

Eins og mönnum er kunnugt, er Siglufjörður að eins nokkurra ára gamall sem sá kaupstaður, sem hann nú er. Árið 1910 voru þar að eins 654 íbúar. En á stríðsárunum óx bærinn mjög, eins og vænta mátti af slíkum framleiðslustað, í jafnháu verði og öll framleiðsla var þá. Nú er hann í afturför, og þótt langt sje frá því að jeg æski þess, þá gæti vel farið svo, að sá bær muni innan skamms hverfa úr sögunni sem síldveiðistöð. Bendir til þess meðal annars það, að síðustu árin hafa aðrar síldveiðistöðvar verið mjög í uppgangi á kostnað Siglufjarðar. Skal jeg til nefna Ingólfsfjörð, Reykjarfjörð og síðast en ekki síst Höfðavatnið, sem í framtíðinni kynni að draga einna mest frá Siglufirði, ef það verður gert að síldarhöfn. Virðist enda svo, að Siglfirðinga sjálfa sje tekið að gruna um örlög Kartagóborgar, og skal jeg sem dæmi tilfæra vísu eina, sem jeg hefi tekið upp úr dagblaði þaðan að norðan, Hún hljóðar svo:

„Skeiðs af kaupum sýpur seyði

siglfirsk kænsku-ráðsnildin.

Bráðum er kotið alt í eyði,

en alt af fjölga þúsundin.“

Aftur á móti er með rökum hægt að sýna fram á það, að þorpin þarna austur í sýslunum hafa miklu meiri festu, og þarf ekki annað en benda á sögu þeirra.

Hv. frsm. (St. St.) sagði við 1. umr. þessa máls, að mjög lítill sjávarútvegur væri bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri og víðar í þessum sýslum. Á þessu sjest best ókunnugleiki háttv. þm. á þessum efnum. Þessi tvö þorp lifa þó mest á sjávarútvegi, og svo er um ýmsa aðra staði í þessum sýslum. Má svo benda á, að Eyrarbakki og Stokkseyri standa ólíkt betur að vígi en Siglufjörður, að því leyti, að þar er sandjörð góð og kartöflurækt mikil, og auk þess víðáttumikið uppland og ágæt slægjulönd. Hjer við bætist svo það atriði, sem jeg hefi lagt mesta áherslu á, en það er, að austurhjeruðin eiga mikla framtíð fyrir höndum og hljóta bráðlega að aukast mjög að viðskiftamagni og fólksfjölda.

Þá kem jeg að því atriði, hvert af þessum lögsagnarumdæmum hafi mest lagt af mörkum hvað snertir starffært fólk, framfarir og menning í landinu. Um Siglufjörð er það að segja, að hann hefir ávalt þurft að fá fólk frá öðrum hlutum landsins, og höfum vjer Sunnlendingar og Reykvíkingar meðal annars orðið að færa þangað allmiklar mannfórnir. Og því miður hefir þessi kaupstaður oft og einatt skilað mörgu af þessu fólki aftur úr sjer gengnu, bæði efnalega, líkamlega og andlega. Um Árnes- og Rangárþing er það aftur að segja, að þaðan hefir árlega flust fjöldi hraustra og ágætra manna til annara hjeraða landsins. Skal jeg þar fyrst til nefna Vestmannaeyjar, er þessar sýslur hafa lagt til margan hraustan og harðfengan sjómanninn, og margir bestu skipstjórar Reykjavíkur eru af Suðurlandsundirlendi.

Þá skal jeg benda á menningarstarf og aldur þessara sýslna og bera saman við Siglufjörð, sem er bæði ungur kaupstaður og þykir til þessa hafa borið heldur fáskrúðuga menningu. Jeg býst við, að Haukdælir og Oddaverjar mundu þola samanburð, að því er menningu og sögu landsins snertir, við síldar- og lýsiskóngana siglfirsku, Söbstad, Tynes og hvað þeir nú heita allir saman.

Jeg vil nú bjóða háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) að taka þessa till. mína aftur gegn því, að hann taki aftur frv.

Rjetta leiðin er að vísa þessu máli til stjórnarinnar og mælast til þess, að hún taki til íhugunar, á hvern hátt mætti fækka lögsagnarembættum hjer á landi. Það er hyggilega að farið, þar sem aftur á móti þetta, að taka einstök umdæmi út úr heildinni, frá mínu sjónarmiði stríðir á móti allri heilbrigðri skynsemi.