27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer kom það nú ekkert á óvart, þótt till. mínar mundu mæta mótspyrnu, enda hefir hæstv. stjórn. fjvn. og samgmn. lagst á móti þeim.

Háttv. fjvn. vil jeg þó minna á það, eða þá menn, sem sátu í henni í fyrra, að hún gaf þá fyrirheit um það, að fje skyldi veitt til sjúkrahússbyggingar á Ísafirði á þessu ári. Ástæður hafa nú raunar breyst nokkuð síðan, en jeg vil vekja athygli á því, að það þarf að mynda hjer fast „prógram“ í byggingum sjúkrahúsa. Hingað til hafa fjárveitingar til sjúkrahúsa verið veittar af handahófi og óathugað. Tel jeg ráðlegast að bygð sjeu fá en góð sjúkrahús, en þeim sje ekki peðrað hjer og þar. Ætti þá að reisa góð sjúkrahús í stærstu kaupstöðunum, Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjavík og Vestmannaeyjum, sem væru einskonar landsfjórðunga sjúkrahús. Hefði þeirri reglu verið fylgt, mundi sjúkrahúsið á Eyrarbakka aldrei hafa verið bygt, því að þess var miklu minni þörf en víða annarsstaðar.

Fjvn. færir það sem ástæðu, að dýrt muni að byggja hús á næsta ári, en jeg er sannfærður um, að ekki verður dýrara að byggja á næsta ári en 4–5 næstu árum þar á eftir. En svo ef það enn, að í till. minni var sleginn sá varnagli, að stjórnin veitti ekki fjeð nema fjárhagurinn leyfði. Sýnist þetta skilyrði nægilegt til að tryggja það, að háttv. deild amist ekki við þessari brtt. Þá er enn þess að gæta, að eftir áætlun húsagerðarmeistara hefir byggingarkostnaður sjúkrahússins lækkað um ca. 70000 kr., og lækkar meira á næsta ári. Á móti nauðsyn þessarar byggingar hefir enginn mælt, en jeg vil minna á, að hæstv. forsrh. (S.E.) taldi óviðunandi, að utanfararstyrkur lækna fjelli niður; þeir þyrftu að læra margt og fylgjast með hinum hraðfara framförum læknavísindanna, en jeg held, að sú kunnátta þeirra komi að litlum notum, ef þeir hafa ekki sjúkrahús, góð og vel útbúin sjúkrahús og lærðar hjúkrunarkonur, því að þar geta þeir beitt þessari kunnáttu sinni, en tæplega annarsstaðar.

Háttv. samgmn. lagðist á móti till. minni um hækkun strandferðastyrksins, og var það að vonum. En menn verða að gæta þess, að strandferðir, eins og þær eru nú, eru mjög ófullkomnar og koma lítt að gagni. Strandferðaskipin elta millilandaskipin að minsta kosti norðan- og austanlands. Held jeg að rjett sje að spara á þessu sviði nú, þar til við verðum færir um að hafa strandferðirnar fullkomnari, en það verður ekki fyr en við fáum 2 góð og hagkvæm strandferðaskip.

Meira skal jeg ekki fjölyrða um þessar mínar brtt. að þessu sinni.