27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1923

Sveinn Ólafsson:

Jeg á brtt. við 14. gr. undir tölul. XI á þskj. 153. Hefi jeg fengið þau skilaboð frá háttv. fjvn., að henni þóknist ekki þessi till. mín. Kom mjer þetta ekki á óvart, því að nefndin hafði við 2. umr. lagt til breytingu og fengið hana samþykta, sem fór í öfuga átt við mína till. Á jeg hjer við fjárframlagið til Blönduósskólans, sem fært var úr 11600 kr. upp í 15000 kr. af háttv. fjvn. Ástæður mínar fyrir því að lækka þennan styrk svo, sem jeg nú legg til, niður í 14000 kr., eru þær, að með þessu næðist meira samræmi millum skólanna hjer í Reykjavík og þessa skóla heldur en er. En till. mín er alls ekki komin af því, að jeg vilji halla á sveita- skólana, og til þeirra tel jeg Blöndósskólann; jeg tel einmitt, að þeir eigi að hafa meiri styrk, að öðru jöfnu. En þess verður að gæta, að kvennaskólinn í Reykjavík hefir tvöfalda nemendatölu á við Blönduósskólann, og auk þess á Blönduósskólinn skólahúsið, en skólinn hjer verður að leigja hús og borga í húsaleigu á 8. þús. kr. á ári. Annars legg jeg ekki mjög mikla áherslu á, hvernig um þessa brtt fer. Ætti þetta annars nokkuð að fara eftir því, hvernig till. sparnaðarnefndar reiðir af um lækkunina til Reykjavíkurskólans. Verði hún samþykt, er enn meiri ástæða til að samþykkja mína till. Annars vil jeg láta í ljós viðurkenning mína fyrir till. sparnaðarnefndar, og jeg get lýst því yfir, að jeg er henni í flestu samþykkur, en þó get jeg ekki fylgst með þeirri till. hennar að fella niður styrkinn til fjallvega. Þar hefir henni áreiðanlega missýnst.

Þó að mikil sje þörf vega hjer á landi, þá er þó hvergi meiri þörfin en þar, sem notast verður við fjallvegi einvörðungu. Gæti jeg nefnt marga fjallvegi á Austurlandi, þar sem vörður hafa fallið og þeir orðið ófærir sökum þess, að ekkert fje hefir verið veitt til viðhalds þeirra eða fengist um tugi ára. En þessir vegir voru velfærir fyrir nokkrum áratugum.

Jeg get ekki verið samþykkur till. háttv. þm. Ísaf. (J.A.J.) um að lækka strandferðastyrkinn. Held jeg að það sje hinn mesti bjarnargreiði við landsmenn að draga úr ferðunum. Þær eru nú ljelegar og mega síst versna. Hefir verið sífeld afturför í samgöngumálum vorum alt frá 1914 og allir verið óánægðir með þær.

Háttv. frsm. fjvn. (B.J.) ætla jeg engu að svara. Hann var eitthvað að reyna að hnjóða í mig, eins og honum er títt, en hnútur hans voru máttlausar og fyndnin vatnsblönduð, eins og oft vill verða hjá honum.