01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1587)

26. mál, heimild til sölu þjóðjarðarinnar Sauðár

Frsm. (Jón Þorláksson):

Hv. flm. (J. S.) sagðist ekki vera hræddur um, að hart yrði gengið að núverandi ábúanda jarðarinnar, þótt eigendaskiftin yrðu þegar. Þegar ábúandinn hafði gert hreppnum kost á að standa upp af jörðinni, þá var haldinn fundur á Sauðárkróki um málið. Á þeim fundi hjelt einn mikilsmegandi borgari þar ræðu og lagðist gegn því, að boði bónda yrði tekið, þar eð hægt mundi að fá útbyggingarsakir á hann. Síðan var núverandi umboðsmaður jarðarinnar spurður, hvort slíkar sakir mundu vera til nú, en hann kvað svo mundu eigi vera. En þetta er nóg ástæða til þess að vilja fara varlega.

Landsnytjar þær, sem ábúandi áskildi sjer, voru ekki ósanngjarnar. Það var að fá að vera í húsunum, hafa eina kú og afnot af fimta hluta túnsins, það sem eftir væri ábúðartímans. Ef hann stendur ekki við þetta boð, þá er það fyrir allar undirtektir Sauðárkróksbúa.

Annars hefir nefndin fyllilega viðurkent þörf Sauðárkróks til þess að eignast jörðina. Og ef alt um þrotnar, og almenningsþörf krefur, þá er til ein lögleg leið, og hún er sú, að leita eignarnáms á ábúðarrjettinum. En jeg held nú að til þess þurfi ekki að koma.